Ensku liðin Liverpool og West Ham féllu bæði út í átta liða úrslitum Evrópudeildar karla í fótbolta þegar einvígjum þeirra við Atalanta frá Ítalíu og Leverkusen frá Þýskalandi lauk.
Liverpool eygði von um að vinna upp þriggja marka forskot Atalanta þegar Mohamed Salah skoraði úr vítaspyrnu strax á 7. mínútu í seinni leiknum á Ítalíu. Það reyndist hins vegar eina mark leiksins og Atalanta vann 3:1 samanlagt.
West Ham var lengi yfir gegn nýkrýndum Þýskalandsmeisturum Leverkusen eftir að Michail Antonio skoraði á 13. mínútu. Leverkusen hafði unnið fyrri leikinn 2:0 og ekki tapað einum einasta leik í nokkru móti á tímabilinu.
West Ham reyndi árangurslaust að bæta við marki og ná í framlengingu og í staðinn jafnaði Jeremie Frimpong fyrir Leverkusen á 89. mínútu, 1:1, og forðaði liði sínu frá fyrsta tapinu. Leverkusen mætir Roma í undanúrslitum.