Gunnar Egill Daníelsson
Af einhverjum ástæðum hefur það hist þannig á að nokkrar af ofbeldisfyllstu þáttaröðum sem ofanritaður hefur nokkru sinni séð er allar að finna á streymisveitunni Prime Video, oft kennd við stórfyrirtækið Amazon.
Springandi líkamar með tilheyrandi fljúgandi görnum, aflimanir, hnefar í gegnum andlit og fleira sem ekki er hlaupið að því að skilja hvernig fólki getur yfirhöfuð komið til hugar er á meðal þess sem ber fyrir augu í þáttaröðum á borð við The Boys, Gen V og Invincible.
Fyrri tvær eru leiknar þáttaraðir sem gerast innan sama söguheims og sú síðastnefnda er teiknuð. Þær eiga það sameiginlegt að fjalla um ofurhetjur og er engu líkara en framleiðendum hafi leiðst hve þurrhreinsað ofbeldið á til að vera í ofurhetjumyndum og -þáttaröðum frá Marvel og DC; svo langt yfir strikið ganga ofangreindar þáttaraðir.
Ekki er ég viðkvæmur fyrir slíku en svona öfgun ofbeldis fer fyrir brjóstið á mörgum. Það er eflaust markmið í sjálfu sér að sjokkera. Það áhugaverða er að nýverið bættist þáttaröðin Fallout, byggð á samnefndum tölvuleik, í flóruna hjá Prime Video. Hún er víst enn grófari, hvernig sem það er hægt. Viðurkenni ég að slíkar fullyrðingar vekja óneitanlega áhuga minn.