Úrsúla Jünemann
Þegar ég átti börnin mín vorum við hjón búin að festa kaup á litlu raðhúsi og vorum því vafin skuldum sem minnkuðu ekki þrátt fyrir að við borguðum reglulega af þeim. Þá var mikil dýrtíð. Þegar við fórum í búð að kaupa mat grömsuðum við gjarnan aftast í hillunum því þar fundust oft vörur á gömlu verði. Búðarfólkið hafði nefnilega ekki við að setja nógu hratt upp nýjar merkingar á hærra verði. Þrátt fyrir að við þyrftum að lifa sparlega passaði ég alltaf upp á að nægur hollur matur væri til heima og eldaði alltaf á kvöldin kjarngóða máltíð. Það var líka hægt úr ódýru hráefni. Ég man að rófurnar fannst mér spennandi, bæði hráar og soðnar. Þegar börnin byrjuðu að borða fast fæði fengu þau flestallt sem við hjónin borðuðum, þá fyrst maukað. Þau vildu ekki rófur, en mér tókst að lauma smátt og smátt smá rófustöppu í annan mat og þannig fóru þau að venjast bragðinu. Tilbúinn barnamatur var ekki keyptur enda of dýr.
Strákarnir okkar fengu alltaf góðan nestispakka þegar þeir byrjuðu í skólanum. Það var ekki í boði að henda nestinu í ruslið og fara upp í sjoppu að kaupa sér nammi og gos í staðinn. Þegar ég vann í skólanum varð ég oft vör við að börn gerðu slíkt. Þegar börn eru búin í skólanum eru foreldrar oft ennþá í vinnu. Margir vinna langan vinnudag til þess að „ná endum saman“. Þá fá börnin lykla til að geta komist inn. Mörg eru þá orðin svöng og fara í ísskápinn til að finna eitthvað ætilegt eða þá upp í skáp eftir kexi, sælgæti eða snakki. Það eru líka til börn sem ekki er treyst til að vera ein heima, það gæti jú farið svo að vinir þeirra kæmu með og settu allt á annan endann. Fyrir þessi börn er hengdur poki með einhverju ætilegu á útihurð. Svona pokabarnadæmi eru sem betur fer sjaldgæf en lyklabörn eru algengari.
Mikil framför varð þegar mötuneytin tóku til starfa í skólunum. Þar var og er enn lögð áhersla á að hollur matur sé í boði. En það þarf að greiða fyrir þessa þjónustu og sumir foreldrar virðast ekki hafa efni á að kaupa skólamáltíðir. Foreldrar þeirra barna sem eiga að borða í mötuneytinu standa í þeirri trú að börnin borði hollan mat í hádeginu og því er oft ekki lagt kapp á að elda eitthvað á kvöldin. Frá barnæsku eru mörg börn ekki vanin á að borða hollan og kjarngóðan mat. Máltíðir heima fyrir einkennast oft af reddingum eða skyndifæði. Þegar í boði er góður matur í mötuneytinu fussa og sveia sumir og skófla matnum sínum beint í ruslið. Yfirfullar ruslatunnur sýna þessa döpru staðreynd. En í matvörubúðum í hádeginu fyllist allt af krökkum sem kaupa sér eitthvert rusl til að seðja hungrið, virðast alltaf eiga nógan pening fyrir snakki, nammi og gosi.
Nú standa yfir hörkuumræður um hvort skólamáltíðir eigi að vera ókeypis þannig að ekki sé verið að mismuna börnum eftir fjárhag foreldranna. Gott, og vel hugsað. En þegar ég man eftir yfirfullum ruslatunnunum í skólamötuneytunum er ég efins um hvort þetta sé rétta leiðin, hvort ekki væri hægt að styðja við efnalitlar fjölskyldur á annan hátt.
Höfundur er kennari á eftirlaunum.