Það er margt í mörgu. Árshátíðir eru almennt gleðigjafar og eiga að vera það, en árshátíð Landsvirkjunar gladdi ekki alla þegar upp komst að hún hefði kostað nálægt eitt hundrað milljónum króna. Inga Sæland gekk á forsætisráðherra vegna málsins á Alþingi og sagði hann að þó að blæbrigðamunur væri á að fljúga til Egilsstaða eða Evrópu í slíka ferð, þá tæki hann undir að kostnaðurinn væri verulegur. Og hann var með skilaboð til „allra félaga í eigu ríkisins og stofnana, að við viljum að gengið sé þannig fram að það sé til eftirbreytni. Það er bara svo einfalt“.
Já, þetta þarf ekki að vera flókið, en svo upplýsir mbl.is að stór hluti af starfsfólki Landsvirkjunar kunni að þurfa að greiða skatt af árshátíðinni því að skatturinn hafi sett þá reglu að hlunnindi starfsmanna, þar með taldar „árshátíðir og starfsmannaferðir, jólagleði og sambærilegar samkomur“, megi ekki kosta meira en 175.000 kr. án þess að skattskylda myndist. Og í því sambandi skiptir máli að starfsmaðurinn ber líka ábyrgð á þeim kostnaði sem fellur til vegna maka, sem þýðir að einhverjir og líklega margir starfsmenn Landsvirkjunar fara langt upp fyrir þessi viðmiðunarmörk skattsins.
Þetta vakti hugleiðingar hjá Geir Ágústssyni bloggara, sem skrifaði: „Skatturinn á Íslandi hefur heimild til að féfletta fólk ef atvinnurekandi þess fer yfir einhver handahófskennd mörk í kostnaði við árshátíð, sem þó er að megninu til bara ferðakostnaður, matur, drykkur og gisting. Það vissi ég ekki.“