Það stafar engu minni háski af vanstillingu Rússa og yfirgangi en ástandinu í Mið-Austurlöndum

Pólverjar handtóku á fimmtudag mann, sem grunaður er um að hafa átt þátt í ráðabruggi Rússa um að ráða Volodimír Selenskí forseta Úkraínu af dögum.

Maðurinn var handtekinn eftir ábendingu frá saksóknaraembættinu í Úkraínu. Hann mun hafa safnað upplýsingum og komið til Rússa um aðstæður á flugvelli í Póllandi þar sem Selenskí lendir iðulega á ferðum sínum til útlanda. Um þennan flugvöll fara einnig embættismenn og hjálparflutningar til Úkraínu.

Lögreglan í Bæjaralandi í Þýskalandi handtók í vikunni tvo menn, sem í fréttaskeytum eru kallaðir þýsk-rússneskir og eru grunaðir um njósnir. Annar þeirra barðist með aðskilnaðarsinnum hollum Kreml í Úkraínu áður en hann sneri til Þýskalands. Þeir eru sagðir hafa lagt á ráðin um spellvirki í Þýskalandi.

Hernaður Rússa gegn öllu því sem vestrænt er fer fram með ýmsum hætti. Þeir stunda hernað á netinu. Þeir senda flugumenn um alla Evrópu til að ráða andstæðinga Pútíns af dögum. Þeir senda flóttamenn að finnsku landamærunum þannig að þeir hafa neyðst til að loka þeim. Og nú virðast þeir vera farnir að leggja á ráðin um spellvirki og hryðjuverk í vesturhluta Evrópu.

Fyrir rúmum tveimur árum réðust Rússar inn í Úkraínu og hugðust steypa stjórnvöldum þar í landi og jafnvel sölsa landið undir sig. Það gekk ekki eftir, en enn stendur stríðið með yfirgengilegu mannfalli og eyðileggingu. Stríðið í Úkraínu er glórulaust.

Rússar hvöttu í gær til hófstillingar í Mið-Austurlöndum. Sú hvatning er ekki út í hött, en rússneskir ráðamenn mættu líta sér nær. Það stafar engu minni háski af vanstillingu þeirra og yfirgangi en ástandinu í Mið-Austurlöndum.