Veit einhver hvað maðurinn heitir eða hvernig hann lítur út?

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Það er merkilegt að í 80 ára sögu embættisins hafi maki forseta Íslands aldrei verið karlmaður. Vigdís Finnbogadóttir var sem kunnugt er makalaus og hinir sem gegnt hafa embættinu eru eða voru gagnkynhneigðir karlmenn.

Margt bendir nú til þess að þetta breytist frá og með 1. ágúst næstkomandi. Þau tvö sem mælast með mest fylgi í skoðanakönnunum eru bæði gift körlum, Katrín Jakobsdóttir og Baldur Þórhallsson. Auðvitað getur flökt komið á fylgi frambjóðenda en eins og staðan er núna er annað þeirra líklegast til að skunda heim að Bessastöðum að kosningum loknum.

Nú þekki ég hvorugan persónulega en karlar Katrínar og Baldurs virka býsna ólíkir menn. Annar er vanur sviðsljósinu en hinn líklega mesti huldumaður landsins. Hvort tveggja er virðingarvert. Ég ber raunar djúpa virðingu fyrir eiginmanni Katrínar en sviðsljósinu hefur hvorki gengið né rekið að læsa klónum í hann enda þótt konan hans hafi nær alla þeirra tíð gegnt mjög áberandi störfum. Veit einhver hvað maðurinn heitir eða hvernig hann lítur út? Ekki ég – og tel ég mig þó fylgjast ágætlega með.

Þessu er þveröfugt farið hjá Baldri og Felix en fullyrða má að sá síðarnefndi hafi verið þekktari meðal þjóðarinnar en bóndi hans, alltént þangað til Baldur bauð sig formlega fram til forseta. Felix er ástsæll sjónvarps- og útvarpsmaður (Popppunktur er einn af mínum uppáhaldsþáttum í sjónvarpssögunni), leikari og söngvari. Búinn að vera þjóðþekktur frá því hann gekk í Greifana um tvítugt. Það kemur því ekki á óvart að hann hafi verið mjög sýnilegur í kosningabaráttunni og raunar var því stillt þannig upp í byrjun að þeir væru í reynd báðir í framboði.

Fyrir þá sem vilja halda í hefðina og hafa konu áfram sem maka á Bessastöðum virkar Jón Gnarr eina vonin. Hann kemur í humátt á eftir hinum tveimur í skoðanakönnunum. Jón er ólíkindatól og engin leið að afskrifa hann. Konan hans er líkari eiginmanni Katrínar en Felix, hún hefur ekki sótt mikið í sviðsljósið, að manni virðist.

Svo er hitt, hvers vegna þarf að pína maka forsetans til að skjóta upp kollinum alls staðar og hvergi, kæri hann sig ekki um það? Væri ekki nær að taka upp embætti varaforseta? Frambjóðendur hefðu þá með sér staðgengil. Beinast lægi við að Sigurjón Kjartansson gengi inn í þetta hlutverk hjá Jóni fóstbróður sínum. Hvernig myndi Tvíhöfði spjara sig á Bessastöðum?

Það ynni að vísu mögulega gegn Sigurjóni að hann sagði þjóðinni ósatt í viðtali hér í Sunnudagsblaðinu fyrir skemmstu, þegar hann hélt því fram að hljómsveitin sem hann hefur starfað með í áratugi, Ham, væri ekki þungarokkshljómsveit. Það er svolítið eins og að Gylfi Þór Sigurðsson mætti hér í viðtal og segðist ekki vera knattspyrnumaður, heldur íshokkíleikari. Auðvitað er mönnum frjálst að skilgreina sig eins og þeim hentar, kyn, starf, áhugamál, en ekki er þar með sagt að það meiki sens.