Valdatafl klerkanna í Íran er dýru verði keypt

Íranar segja að ekki hafi verið gerð árás á Íran aðfaranótt föstudags og Ísraelar gangast ekki við því að hafa gert árás. Engu að síður lýstu stjórnvöld víða um heim yfir áhyggjum af vaxandi spennu í Mið-Austurlöndum eftir að Ísraelar gerðu árás á Íran í fyrrinótt til að svara fyrir loftárásir Írana á Ísrael um liðna helgi.

Mikil spenna hefur ríkt í Mið-Austurlöndum allt frá hryðjuverkum Hamas í Ísrael 7. október í fyrra. Þar eiga Íranar ekki lítinn hlut að máli.

Segja má að Íran láti ekkert tækifæri ónotað til að sá fræjum glundroða og óeiningar í heimshlutanum. Klerkunum dugar ekki að beita kúgun heima fyrir og svipta konur öllum réttindum. Þótt Ísrael sé í eldlínunni vakir hins vegar fyrst og fremst fyrir klerkaveldinu að takmarka ítök Sádi-Arabíu á þessum slóðum og liggur víglínan milli tveggja megingreina íslams, sjía og súnnía.

Í þessu valdatafli er klerkunum ekkert heilagt. Þeim stendur fullkomlega á sama um þær skelfingar sem klækjabrögð þeirra hafa kallað yfir almenning.

Íranar hafa kynt undir borgarastyrjöldinni í Jemen sem staðið hefur í tíu ár og líta árásir á skipaflutninga í Persaflóa með velþóknun.

Íranar hafa stutt hrottann Bashar al-Assad leiðtoga Sýrlands og hjálpað honum að halda völdum.

Íranar styðja Hesbollah-hreyfinguna í Líbanon, sem hefur átt þátt í að tryggja upplausn og glundroða í landinu um árabil þannig að það er vart stjórntækt.

Þótt Palestínumenn tilheyri súnníum hafa sjía-klerkarnir í Teheran stutt Hamas á alla lund. Lykilástæðan fyrir því er að allt frá Óslóarsamkomulaginu 1995 hefur meginmarkmið Hamas verið að spilla því með því að ýta undir ólgu og fremja hryðjuverk.

Þegar Hamas lét til skarar skríða í fyrra stefndi í sögulegt samkomulag milli Ísraela og Sáda. Slíkt samkomulag var ekki bara eitur í beinum Hamas heldur einnig klerkastjórnarinnar í Íran. Slíkt samkomulag hefði aukið stöðugleika í Mið-Austurlöndum verulega. Klerkarnir í Íran litu svo á að það væri á sinn kostnað og vildu allt til vinna að koma í veg fyrir það.

Nú hefur þeim tekist að koma því til leiðar að Mið-Austurlönd ramba á barmi styrjaldar. Til að koma í veg fyrir það þurfa aðrir að halda haus.