Við Børsen Brian Mikkelsen, Mette Frederiksen og Jakob Vedsted Andersen slökkviliðsstjóri ræða við blaðamenn framan við rústir Børsen í gær.
Við Børsen Brian Mikkelsen, Mette Frederiksen og Jakob Vedsted Andersen slökkviliðsstjóri ræða við blaðamenn framan við rústir Børsen í gær. — Ritzau/Scanpix/AFP/Martin Sylvest
Illa hefur gengið að styrkja útveggi Børsen, gömlu kauphallarinnar í Kaupmannahöfn sem brann á þriðjudag. Hvassviðri hefur sett strik í reikninginn og þegar reynt var í gær að nota stórar klippur til að klippa vinnupalla utan af byggingunni duttu klippurnar af krananum niður í rústirnar

Illa hefur gengið að styrkja útveggi Børsen, gömlu kauphallarinnar í Kaupmannahöfn sem brann á þriðjudag. Hvassviðri hefur sett strik í reikninginn og þegar reynt var í gær að nota stórar klippur til að klippa vinnupalla utan af byggingunni duttu klippurnar af krananum niður í rústirnar.

Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana fylgdist í gær með störfum slökkviliðsins við Børsen ásamt Brian Mikkelsen, framkvæmdastjóra danska viðskiptaráðsins sem á húsið. Frederiksen sagði við blaðamenn að hún, eins og aðrir landsmenn, væri miður sín vegna eldsvoðans.

Mikkelsen ítrekaði að Børsen yrði endurbyggð í upprunalegri mynd. Sagði hann að þegar hefðu borist loforð um fjárframlög til endurbyggingar hússins. Frederiksen sagði of snemmt að segja til um hvort danska ríkið myndi leggja til fjármuni til verksins, m.a. vegna þess að tryggingamál væru enn óútkljáð, en hún gleddist yfir því að allir væru einhuga um að Børsen yrði endurbyggð.