Ferill ritstjórans hófst á vefsíðu stuðningsmannaklúbbs Manchester United á Íslandi.
Ferill ritstjórans hófst á vefsíðu stuðningsmannaklúbbs Manchester United á Íslandi. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
Stundum er gott ef einhver kemur ferskur að málinu með mikinn trúverðugleika, reynslu og engin tengsl.“

Á þriðju hæð á Miðvangi 2-4 á Egilsstöðum má finna fámenna en góðmenna ritstjórn Austurfréttar og Austurgluggans. Tveggja manna teymi, ritstjóri og blaðamaður, sér um að færa heimamönnum fréttir úr nærsamfélaginu og halda vefmiðlinum Austurfrétt gangandi alla daga vikunnar. Ekkert er miðlinum óviðkomandi sem fjallar um sjávarútvegsmál jafnt sem kökubasara og skólaskemmtanir.

Gunnar Gunnarsson ritstjóri tók vel á móti blaðamönnum á skrifstofu sinni. Gömul fréttaljósmynd sem hékk uppi á vegg, blöð og bunkar af vikublaðinu Austurglugganum gáfu bersýnilega til kynna að um skrifstofu blaðamanns væri að ræða.

„Ég hef sennilega alltaf haft áhuga á fjölmiðlum. Það er náttúrlega bakgrunnssaga margra sem enda í þessu fagi,“ segir Gunnar þegar blaðamenn forvitnast um hvernig hann lenti á þessari skrifstofu.

Hann rifjar upp að fyrstu skrif sín á opinberum vettvangi hafi verið fyrir vefsíðu stuðningsmannaklúbbs enska stórveldisins Manchester United á Íslandi. Sá hann um skrif fyrir síðuna undir lok grunnskólagöngunnar og á menntaskólaárunum. „Í einhverju egóflippi trúði ég að ég væri orðinn nógu góður til þess að verða blaðamaður og sótti um þegar losnaði staða á Austurglugganum þegar ég kláraði ME.“

Gunnar starfaði hjá Austurglugganum í tvö ár áður en hann hélt til höfuðborgarinnar í háskólanám þar sem hann sinnti íhlaupaverkum fyrir ýmsa fjölmiðla. Hann staldraði þó ekki lengi við og flutti aftur austur að námi loknu. „Núna í rúm tíu ár er ég búinn að vera alfarið hér.“

Engin bakvakt

En hvernig er að vera héraðsblaðamaður?

„Þetta er náttúrlega mjög krefjandi starf, við skulum bara vera hreinskilin með það. Þú þarft að vera vakinn og sofinn yfir því sem er að gerast, tilbúinn að stökkva í ákveðna hluti því það er engin bakvakt fyrir þig. Að sjálfsögðu er þetta líka mjög skemmtilegt, þetta er fjölbreytt, það eru alltaf einhverjar nýjar fréttir og nýtt fólk sem maður hittir, talar við og kynnist. Maður getur verið að pæla í hlutum, allt frá sjávarútvegi, grunnskólum – hvað er í gangi á skólaskemmtuninni. Þetta er mjög fjölbreytt.“

Að skrifa fréttir eingöngu úr nærumhverfinu hefur þó bæði kosti og galla. Nálægðarvandi getur til að mynda flækst fyrir störfum blaðamanna í litlu samfélagi en þá er gott að vera með samstarfsfélaga til að reiða sig á.

„Auðvitað þarf maður að vera meðvitaður um hann og auðvitað er það þannig að stundum þarf maður að meta hæfi sitt. Þess vegna er til dæmis kostur að við séum tveir. Það koma upp mál og ég get vakið athygli á því að ég sé tengdur þessu máli eða hafi hagsmunatengsl þarna inn og þá er sá sem er með mér meðvitaður um það og getur tekið ákvörðun um fréttamatið sjálfur. Þá verður hann að taka það mál og klára það,“ segir Gunnar

„Hinn vinkillinn á þessu er að það kannski setur manni ákveðnar skyldur á herðar – og ég held að það skipti alltaf máli – að ef málin verða viðkvæmari er að vinna þau vel. Reyna að sýna ólíkum sjónarmiðum og ólíkum hagsmunaaðilum sanngirni en það kallar líka stundum á tíma sem við höfum ekki. Og það kannski leiðir til þess að málin lenda undir eða við verðum að vísa þeim frá okkur. Ég hef alveg gert það.“

Þótt það geti verið sárt að horfa á eftir málum segir Gunnar það stundum ágætt að mál fari annað – út af svæðinu – fyrir samfélagið í heild.

„Stundum er gott ef einhver kemur ferskur að málinu með mikinn trúverðugleika, reynslu og engin tengsl.“

Miðillinn er þó sífellt að leita leiða til hagræðingar í vinnubrögðum til að komast yfir sem flest mál. Hefur gervigreindin leikið þar mikilvægt hlutverk við að hrárita upptökur af viðtölum. Í stað þess að sitja í eina til tvær klukkustundir að skrifa niður viðtal getur Gunnar snúið sér að öðrum verkefnum á meðan tæknin léttir undir. Hann viðurkennir að skringilegar villur kunni að rata í textann og því geti tekið aðeins lengri tíma að skrifa sjálft viðtalið en þrátt fyrir það sé tímasparnaðurinn mikill.

„Ég er búinn að nota þetta á þessu ári og þetta sparar mér einhverja klukkutíma á viku.“

Aurskriður og snjóflóð

Á undanförnum árum hefur mikið gengið á fyrir austan, sérstaklega hvað náttúruhamfarir snertir. Gunnar var á Seyðisfirði 18. desember 2020 þegar stóra aurskriðan féll á bæinn ásamt öðrum fjölmiðlamönnum.

„Maður upplifði andrúmsloftið. Óttann, óvissuna, og það sem við köllum á vondri íslensku – en lýsir þessu kannski best – panikkina sem verður þennan dag,“ segir Gunnar.

„Að vera þarna inni í fullri Herðubreið þegar bærinn var allur rýmdur og við erum að fara inn í einhverjar aðgerðir, sem eiginlega var þá óheyrt. Auðvitað tengist maður því ákveðnum tilfinningaböndum en maður veit líka að það skiptir máli að fá góðar upplýsingar og ná þeim hratt út fyrir fólkið sem bæði býr þarna og hefur tengsl við staðinn,“ segir Gunnar.

Þegar snjóflóðin féllu í Neskaupstað í fyrra var hann í Þýskalandi, en skrifaði þaðan á meðan kollegi hans hér heima sá um hlutina á staðnum. „Það var öðruvísi,“ segir Gunnar en hafði ákveðna kosti líka. Þá bjuggu þeir að reynslunni af að hafa skrifað um aurskriðurnar árið 2020 og vissu hverja ætti að hringja í til að fá ákveðnar upplýsingar. „Þú situr við og hringir stöðugt og treystir þá á að vita hvert þú átt að hringja og að fólk svari í símann,“ segir Gunnar.