Friðjón Magnússon fæddist 2. desember 1945. Hann lést 3. apríl 2024.

Jarðarför fór fram 16. apríl 2024.

Við systkinin minnumst Friðjóns, bróður Guðmundar pabba okkar, með hlýju í hjarta. Við sögðum oftast Friðjón frændi þegar við töluðum um hann eins og frændi væri millinafnið hans og hljómaði það svo vel. Friðjón var einstakur og var alltaf boðinn og búinn að hjálpa til ef eftir því var leitað. Hann var mjög klár í dönsku og hjálpaði Írisi fyrir dönskupróf. Hann var líka vel að sér í bílaviðgerðum og leyfði Magnúsi að nýta bílskúrinn sinn til viðgerða þegar á þurfti að halda.

Verkfæri voru í uppáhaldi hjá Friðjóni og voru það því algengustu afmælisgjafirnar frá okkur til hans. Friðjón var líka mjög duglegur að gauka verkfærum í afmælispakkana til okkar því hann vissi að þau myndu örugglega koma sér vel. Verkfæralagerinn í skúrnum hans var eins og fjársjóður og var það eins og að koma inn í áhaldaleigu að koma í skúrinn til hans og ekki vantaði skipulagið.

Friðjón las veðurfréttirnar í Ríkisútvarpinu og var hann mjög skýrmæltur og hafði fallegan framburð. Þetta er Friðjón frændi, hrópuðum við systkinin í kór þegar útsending hófst og vorum við stolt af okkar manni.

Þegar voraði fór stórfjölskyldan oft saman í ferðalög. Þetta voru oftast dagsferðir með nesti. Fjöruferðir voru algengastar því stutt var í fjöruna á Seltjarnarnesinu og Grótta var í miklu uppáhaldi ásamt Hvalfirði og svo voru ýmsir krókar og kimar nærri höfuðborginni kannaðir. Þetta voru sannkallaðar ævintýraferðir og alltaf svo gaman og fræðandi. Nánast allir í stórfjölskyldunni fóru með, meira að segja amma sat ekki eftir heima.

Reglulega var sótt í soðið út á Faxaflóa þar sem afi, sjálfur vélstjórinn, stýrði árabát með utanborðsmótor en Friðjón stjórnaði færunum af mikilli kunnáttu og snilld ásamt Sigga bróður hans og Gunnlaugi mági hans því þeir voru vel sjóaðir í þeim málum enda mikið áhugamál hjá þeim. Við krakkarnir vorum að sjálfsögðu hásetar þegar við vorum nógu gömul til að fara í róður og pössuðum í björgunarvestin.

Stórfjölskyldan kom oftast saman á gamlárskvöld á ættarsetri ömmu og afa á Sæbóli. Friðjón sá um að útvega flugelda sem hann sendi upp í himininn svo úr varð heljarinnar sýning. Við krakkarnir fengum stjörnuljós og gleðin var allsráðandi.

Friðjón var góður vinur okkar allra og höfðingi heim að sækja. Á tímabili fóru Hulda, Heiða Dögg dóttir hennar og Herdís móðir okkar systkina, reglulega í heimsókn til Friðjóns og fjölskyldu í Blikahólana um helgar og voru þá haldin vídeókvöld þar sem horft var á spennandi myndir langt fram eftir nóttu.

Friðjón var ávallt léttur í lund og afar greiðvikinn. Hann taldi aldrei eftir sér að aðstoða þau sem til hans leituðu. Það þyrftu allar fjölskyldur að eiga einn svona „Friðjón frænda“.

Við kveðjum Friðjón með söknuði en minningarnar lifa með okkur alla tíð. Fjölskyldu hans sendum við hlýhug og samúð.

Systkinin

Hulda, Magnús og Íris.