Kvenfélög Vilborg segir að það sé ótrúlega skemmtilegt að vera í kvenfélagi og hún sé ánægð með að sjá að ungar konur eru að koma til starfa.
Kvenfélög Vilborg segir að það sé ótrúlega skemmtilegt að vera í kvenfélagi og hún sé ánægð með að sjá að ungar konur eru að koma til starfa. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Við erum nýbúnar að halda ársþingið okkar og við heiðrum alltaf tvær konur á ári, annars vegar konu ársins og hins vegar veitum við hvatningarverðlaun ársins,“ segir Vilborg Þ.K. Bergman, formaður Bandalags kvenna í Reykjavík, en kvenfélögin í borginni standa að bandalaginu

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Við erum nýbúnar að halda ársþingið okkar og við heiðrum alltaf tvær konur á ári, annars vegar konu ársins og hins vegar veitum við hvatningarverðlaun ársins,“ segir Vilborg Þ.K. Bergman, formaður Bandalags kvenna í Reykjavík, en kvenfélögin í borginni standa að bandalaginu. Bandalag kvenna í Reykjavík verður 107 ára á þessu ári og afmælisfundurinn verður haldinn 30. maí nk.

Konur sem vinna gott starf

Í ár var Ásdís Hjálmtýsdóttir valin kona ársins 2023, en hún er húsmóðir kvennaheimilisins Hallveigarstaða á Túngötu 14, en húsið hýsir mörg samtök sem berjast fyrir kvenréttindum eða aðstoða konur á einhvern máta. Húsið er nefnt eftir Hallveigu Fróðadóttur, fyrstu landnámskonunni í Reykjavík. Hallveigarstaðir eru í eigu þriggja félaga, Bandalags kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasambands Íslands og Kvenréttindafélagsins.

„Ásdís var valin fyrir einstaklega óeigingjarnt starf í þágu kvenfélagskvenna í Reykjavík, og ég er hissa á að hún hafi ekki verið valin fyrir löngu. Hún er eins og mamma okkar allra og það er gott að leita til hennar þegar mikið stendur til, eins og ársþingið eða jólafundurinn. Það er alltaf hægt að treysta að málin séu í góðum höndum hjá henni.“

Hvatningarverðlaun ársins fóru til Mörtu Maríu Arnarsdóttur skólameistara Hússtjórnarskólans, en Bandalag kvenna í Reykjavík er bakhjarl skólans og skipar stjórn skólans. „Marta María hefur verið ótrúlega dugleg og hefur rifið upp starfið í skólanum. Hún er með frábærar hugmyndir og mjög drífandi og dugleg ung kona og hefur m.a. verið með leikjanámskeið fyrir börn og margt, margt fleira.“

Stolt af starfsmenntunarsjóði

Vilborg segir að Bandalagið hafi heiðrað margar konur í gegnum tíðina og velji konur sem þeim finnst skara fram úr á einhverju sviði. „Síðan erum við mjög stoltar af Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna, en við úthlutum úr honum árlega til kvenna sem hafa kannski flosnað upp úr námi vegna barneigna eða veikinda, eða eiga lítið bakland. Þær hafa fengið styrk hjá okkur til að hefja nám að nýju,“ segir Vilborg og nefnir sérstaklega nám á grunnstigum, en ekki háskólanám.

„Við förum að opna fyrir umsóknir í maí og gefum síðan svar í ágúst,“ segir hún, en þessi hluti starfsins sé unninn í kyrrþey. „Það er líka svo gefandi að fylgjast með þegar vel gengur. Það var stúlka fyrir nokkrum árum sem fékk styrk hjá okkur til að fara aftur í framhaldsskóla og síðan fréttum við af henni þegar hún var búin að læra hjúkrunarfræði sem var ótrúlega gaman að heyra.“

Þrjár kynslóðir saman

Vilborg segir að starf kvenfélaganna í Reykjavík sé mjög mikilvægt og alls ekki gamaldags. „Við sjáum mikla nýliðun í mörgum kvenfélögum í borginni, ekki síst í Breiðholtinu þar sem eru þrjú kvenfélög og eins í Bústaðahverfi. Það er svo skemmtilegt að núna eru oft mæðgur að vinna saman og það er mjög mikilvægt að þessi nýliðun eigi sér stað fyrir þetta góða starf sem kvenfélögin vinna.“

Vilborg segir að hún sé sjálf í Kvenfélagi Breiðholts og þar hafi móðir hennar, Þóranna Þórarinsdóttir, verið formaður til margra ára og síðasta miðvikudag var hún gerð að heiðursfélaga félagsins. „Þegar minnst var í kvenfélaginu mínu vorum við sjö en núna erum við 30,“ segir hún og bætir við að í sínu félagi séu einnig dóttir hennar og bróðurdóttir, svo segja má að þátttakan gangi í erfðir í fjölskyldunni.

„Séra Árni Bergur Sigurbjörnsson heitinn, sóknarprestur í Áskirkju, sagði að kvenfélögin hefðu byggt upp kirkjustarfið í borginni, en kvenfélögin hafa mikið gefið til kirkna og sjúkrahúsa í gegnum tíðina. Við viljum stuðla að betri heimi, en á sama tíma viljum við hafa skemmtilegar samverustundir og ég hvet ungar konur til að kynna sér starfið sem er ótrúlega skemmtilegt.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir