Ólafur Stephensen
Formaður atvinnuveganefndar Alþingis, Þórarinn Ingi Pétursson, skrifaði grein í Morgunblaðið sl. fimmtudag og vék nokkrum orðum að Félagi atvinnurekenda. Þingmaðurinn skrifaði meðal annars: „Hér er um að ræða sama félag og vildi selja Íslendingum jurtaost sem venjulegan ost.“ Af samhenginu verður ekki annað ráðið en að Þórarinn telji ámælisvert að halda því fram að „jurtaostur“ sé venjulegur ostur. Það er auðvitað rétt hjá honum. Það á ekki að skrökva að fólki.
Hér hefur samt eitthvað skolazt til hjá nefndarformanninum. Hann er væntanlega að vísa til deilu um tollflokkun innflutts rifins osts, sem blandaður er með jurtaolíu til þess að hann henti betur til að bræða ofan á pítsur og annað brauðmeti. Félag atvinnurekenda hefur einmitt haldið því fram að hér sé um að ræða unna landbúnaðarafurð, sem eigi að flokkast sem slík samkvæmt alþjóðlegu tollskránni, en alls ekki sem venjulegur ostur. Þar til árið 2020 báru slíkar vörur ekki tolla við innflutning til Íslands.
Mjólkursamsalan, sem hefur setið að mestu leyti ein að markaðnum fyrir rifinn ost til matargerðar, sá ofsjónum yfir samkeppni frá innflutta jurtaolíublandaða ostinum. MS selur venjulegan rifinn ost sem er ekki blandaður með jurtaolíu og hentar ekki eins vel ofan á pítsur. Fyrirtækið tók sér fyrir hendur, ásamt Bændasamtökum Íslands, að fá stjórnvöld til að breyta tollflokkun vörunnar þannig að hún yrði flokkuð sem venjulegur ostur og tolluð sem slík. Þessir hagsmunaaðilar fengu fjármálaráðuneytið og síðar Skattinn með sér í þessa vegferð, varan var tollflokkuð eins og venjulegur ostur og þar með skellt á hana tollum sem eru svo háir að innflutningi hennar var hætt – sem var auðvitað meiningin með öllu saman.
Þetta var reyndar þvert á álit tollflokkunarsérfræðinga Skattsins, tollframkvæmd Evrópusambandsins, þaðan sem osturinn var fluttur inn, og álit Alþjóðatollastofnunarinnar – en tilgangurinn helgar meðalið. Veitingafyrirtæki og viðskiptavinir þeirra báru hins vegar skarðan hlut frá borði.
Hið rétta í málinu er sem sagt akkúrat öfugt við það sem Þórarinn Ingi heldur fram; FA vildi alls ekki láta flokka „jurtaostinn“ sem venjulegan ost en MS og Bændasamtökin héldu því fram að enginn munur væri á honum og venjulegum osti.
Hér leiðréttist þessi misskilningur – en um leið skal því fagnað að formaður atvinnuveganefndar Alþingis hafi gerzt bandamaður Félags atvinnurekenda í andófi gegn þeirri vitleysu að haldið sé fram að jurtaolíublandaður pítsuostur sé venjulegur ostur.
Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.