Kópavogur Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi og Orri Hlöðversson formaður bæjarráðs stýra meirihlutasamstarfi í Kópavogi.
Kópavogur Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi og Orri Hlöðversson formaður bæjarráðs stýra meirihlutasamstarfi í Kópavogi. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Tekjur Kópavogsbæjar námu í fyrra um 51,6 milljörðum króna og jukust um rúma sex milljarða króna á milli ára. Eðli málsins samkvæmt er stærsti hluti þeirra, um 37,2 milljarðar króna, útsvarstekjur sem jukust um rúma fjóra milljarða króna á milli ára

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Tekjur Kópavogsbæjar námu í fyrra um 51,6 milljörðum króna og jukust um rúma sex milljarða króna á milli ára. Eðli málsins samkvæmt er stærsti hluti þeirra, um 37,2 milljarðar króna, útsvarstekjur sem jukust um rúma fjóra milljarða króna á milli ára. Heildartekjur bæjarins voru um þremur milljörðum króna umfram áætlun.

Rekstrargjöld bæjarins námu um 47,1 milljarði króna. Stærsti hluti þess er vegna launa, alls 25,8 milljarðar króna sem er um helmingur útgjalda. Rekstrarútgjöld jukust um 4,7 milljarða króna á milli ára, en þar af nam aukning í launakostnaði rúmlega tveimur milljörðum króna, sem er 8,8% hækkun frá fyrra ári en allir kjarasamningar voru lausir hjá Kópavogsbæ á árinu.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði nam 2,7 milljörðum króna, samanborið við 1,3 milljarða króna árið áður. Aftur á móti námu fjármagnsgjöld um 3,5 milljörðum króna sem skilar heildartapi upp á um 800 milljónir króna, samanborið við 2,1 milljarðs króna tap árið áður.

Þá lækkar skuldaviðmið í 91% úr 95%, en lögbundið hámark er 150% samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Vaxtaberandi skuldir voru í árslok um 35 milljarðar króna. Heildarskuldir og skuldbindingar námu 58 milljörðum króna, sem er rúmlega 7% hækkun milli ára, þó undir verðbólgu sem mældist 8% á árinu 2023.

Aukið veltufé

Veltufé frá rekstri jókst um rúmlega tvo milljarða króna á milli ára, og nam í lok síðasta árs um fimm milljörðum króna. Það er það fjármagn sem sveitarfélög hafa til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána.

„Krefjandi rekstrarumhverfi, mikil verðbólga og háir vextir lita enn heildarniðurstöðu ársins og leiða til þess að fjármagnskostnaður er verulega umfram áætlun. Verkefnið nú sem endranær er að standa vörð um góðan rekstur þannig að áfram sé unnt að veita góða þjónustu en á sama tíma lækka skatta á bæjarbúa,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs í uppgjörstilkynningu bæjarins.

Fram kemur að nær engar lóðaúthlutanir voru á síðasta ári.

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson