[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður Auðunsdóttir fæddist 20. apríl 1939 í Nikulásarhúsum í Fljótshlíð og var þriðja barn foreldra sinna, Auðuns Pálssonar og Soffíu Gísladóttur, en systkinin urðu alls átta. Í Nikulásarhúsum bjó fjölskyldan, ásamt föðurforeldrum Sigríðar, fram…

Sigríður Auðunsdóttir fæddist 20. apríl 1939 í Nikulásarhúsum í Fljótshlíð og var þriðja barn foreldra sinna, Auðuns Pálssonar og Soffíu Gísladóttur, en systkinin urðu alls átta. Í Nikulásarhúsum bjó fjölskyldan, ásamt föðurforeldrum Sigríðar, fram að Heklugosinu 1947, en þá neyddust þau til að flytja því gosið gerði jörðina illbyggilega. Fjölskyldan flutti að Bakka í Ölfusi og bjó þar í átta ár og stundaði bústörf. Þaðan fluttu þau 1955 að Bjargi á Selfossi þar sem Auðunn og Soffía bjuggu þar til Auðunn lést 58 ára að aldri árið 1966, í kjölfar bílslyss.

Sigríður lauk miðskólaprófi frá unglingaskóla Hveragerðis. Eftir það vann hún í eitt ár á Laugarvatni og kynntist þar tilvonandi eiginmanni sínum, Birgi Halldórssyni, þá fimmtán ára gömul. Eftir árið á Laugarvatni vann Sigríður við verslunarstörf, fyrst á Selfossi og síðan í Reykjavík þar sem hún gekk í Húsmæðraskólann og lauk þaðan prófi átján ára gömul.

Sigríður og Birgir bjuggu alla sína tíð í Reykjavík, að undanskildum tveimur árum á fyrstu búskaparárunum í Kópavogi. Birgir hóf störf á Hafrannsóknastofnun átján ára gamall árið 1955 og starfaði þar sem aðstoðarmaður við rannsóknir, sem og á rannsóknaskipum, í um tvo áratugi. Þau hjónin settu á fót verslunina Búsáhöld & gjafavörur árið 1971 í Miðbæ við Háaleitisbraut og þegar hún var komin á legg hætti Birgir störfum við Hafrannsóknastofnun. Birgir og Sigríður voru bæði í fullri vinnu við verslun sína í áratugi. Eftir tvö ár flutti verslunin í Glæsibæ og að lokum í Kringluna þegar hún var opnuð. Á tímabili var útibú verslunarinnar í Hamraborg í Kópavogi og í Firði í Hafnarfirði. Þau hjón ráku verslunina þar til Birgir lést tæplega 59 ára gamall eftir snörp veikindi. Sonur þeirra, Birgir yngri, sem hafði starfað með þeim við verslunina í áratug, tók þá við rekstrinum sem lauk árið 2010.

Á áttunda áratug liðinnar aldar eignuðust Sigríður og Birgir hlut í jörðinni Reykjum á Reykjaströnd í Skagafirði. Árið 1976 byggðu þau sumarbústað í Reykjavík sem fluttur var landleiðina á Reykjaströnd og settur þar niður. Fjölskyldan átti þar margar góðar stundir í gegnum árin og var oftast gestkvæmt og gleðin ríkjandi. Á Reykjum var veiddur sjóbirtingur, gengið á fjöll og um fjörur. Enn eiga Sigríður og afkomendur hennar góðar stundir á þessum eftirlætisstað.

Tólf árum eftir að Birgir lést kynntist Sigríður Magnúsi Sigurgeiri Jónssyni verkfræðingi (1941-2021), sem varð henni góður vinur og ferðafélagi í nokkur ár. Þau ferðuðust saman víða innanlands sem utan.

Sigríður hefur alla tíð verið mjög félagslynd og á fjölmörg áhugamál. Frá því á húsmæðraskólaárunum hefur hún verið í saumaklúbbi með skólasystrum sínum og hefur sá hópur haldið vel saman í rúma sex áratugi. Hún hefur stundað líkamsrækt hjá Báru áratugum saman og þar kynntist hún konum sem hafa haldið hópinn æ síðan og ferðast mikið saman innanlands sem utan. Sigríður hefur alla tíð átt í nánu sambandi við systkini sín sem leitast við að hittast sem oftast þótt þau búi víða um land. Á síðari hluta ævinnar hefur Sigríður sótt mörg námskeið hjá Endurmenntun, ekki síst í bókmenntum, fornum og nýjum, enda hefur bóklestur verið áhugamál sem færst hefur í aukana með árunum. Sigríður byrjaði að stunda golf þegar hún var sjötug og spilar golf af krafti yfir sumartímann á Íslandi og fer til útlanda í golfferðir með góðum vinum. Þá er ónefnt að Sigríður er mikil prjónakona og njóta börn hennar, tengdabörn, barnabörn og langömmubörnin öll góðs af því.

Fjölskylda

Eiginmaður Sigríðar var Birgir Halldórsson, f. 21.9. 1937 í Reykjavík en ólst upp á Akranesi frá frumbernsku, d. 26.8. 1996. Hann var yngri sonur hjónanna Rutar Guðmundsdóttur, f. 7.7. 1911, d. 28.12. 1996, frá Helgavatni í Þverárhlíð, og Halldórs Þorsteinssonar, f. 23.7. 1912, d. 11.12. 1983, frá Óseyri við Stöðvarfjörð. Eldri bróðir Birgis var Sigurður Rafnar, f. 1934, d. 2015. Halldór starfaði á fyrri hluta ævinnar sem kennari í Húnavatnssýslu og Borgarfirði, vélvirki á Akranesi og síðar í verslun Birgis og Sigríðar. Rut starfaði lengi sem saumakona en einnig við verslunarstörf. Hún var mjög listræn og bæði málaði og skrifaði.

Sigríður og Birgir stofnuðu heimili í Reykjavík vorið 1959 og sama ár fæddist fyrsta barn þeirra, en börnin urðu fjögur: 1) Soffía Auður, f. 25.9. 1959, bókmenntafræðingur og vísindamaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Eiginmaður hennar er Þorvarður Árnason, f. 15.5. 1960, náttúrufræðingur og forstöðumaður Rannsóknasetursins á Höfn. Börn þeirra eru Sigríður Þórunn, f. 1995, og Árni Birgir, f. 1998, eldri synir Soffíu Auðar eru Jökull, f. 1981, og Kolbeinn, f. 1985. Barnabörn þeirra eru sex; 2) Halldór Þorsteinn, f. 30.12. 1960, lögmaður hjá Forum lögmönnum. Sambýliskona hans er Ásta Valdimarsdóttir, f. 29.7. 1964, lögfræðingur og ráðuneytisstjóri. Börn Halldórs eru Arinbjörn, f. 1979, Bergþóra, f. 1983, Valgerður, f. 1986, Birgir, f. 1995, og Arnar Valur, f. 2001. Barnabörn Halldórs eru fimm; 3) Birgir Ellert, f. 26.8. 1965, fjárfestir og fyrrverandi verslunarmaður. Eiginkona hans er Ása Hreggviðsdóttir, f. 3.8. 1960, hrossaræktandi á Miðsitju í Skagafirði. Dætur Ásu og fósturdætur Birgis eru Þórunn Gríma, f. 1984, og Þrúður, f. 1990, og eiga þau eitt barnabarn; 4) Ægir, f. 28.12. 1966, viðskiptafræðingur, starfsmaður Markaðsviðskipta Arctica Finance. Eiginkona hans er Auður Björk Guðmundsdóttir, f. 15.8. 1966, MBA, stjórnarkona og sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Börn þeirra eru Andrea Líf, f. 1988, og Guðmundur Birgir, f. 1990, og barnabörnin eru þrjú.

Systkini Sigríðar: Páll, f. 1934, Gísli Gunnar, f. 1937, Guðmunda Auður, f. 1940, Kristín, f. 1942, Þuríður Guðmunda, f. 1943, d. 1944, Jónína, f. 1945, d. 1997, og Ólafur, f. 1947.

Foreldrar Sigríðar voru hjónin Auðunn Pálsson, f. 10.5. 1908, d. 18.1. 1966, bóndi, og Soffía Gísladóttir, f. 25.9. 1907, d. 20.10. 2000, húsmóðir.