Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð: Úr hafinu má hana fá, heiti á vísnaskáldi. Grandi bjargar fingri frá, finnast víða brött og há. Helgi R. Einarsson skrapp með konunni til Madeira í nokkra daga og heimkominn kíkti hann á Vísnahornið

Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Úr hafinu má hana fá,

heiti á vísnaskáldi.

Grandi bjargar fingri frá,

finnast víða brött og há.

Helgi R. Einarsson skrapp með konunni til Madeira í nokkra daga og heimkominn kíkti hann á Vísnahornið. Lausnin vill vera svona:

Lífsbjörg má á línu fá.

Látra-Björg sig kunni' að tjá.

Fingurbjörg er fingri á.

Finnast víða björgin há.

Lausnarorðið er björg, segir Úlfar Guðmundsson:

Dregur björg á lagða línu.

Látra Björg nafnið ber.

Fingurbjörgin forðar pínu.

Ferleg björg upp ég fer.

Guðrún Bjarnadóttir leysir gátuna:

Heimta má úr hafi björg.

Heillar okkur Látra-Björg.

Fingri reddar fingurbjörg.

Í fjallasýnum gnæfa björg.

Sigmar Ingason svaraði: Þessa vísu lærði ég þegar ég var smástrákur. Í huga mér varð til sú skýring að Bjarni á Björgum hefði skilið við konu sína og fengið til sín ráðskonu:

Þú hefur fengið Björg fyrir Björg

Þótt Björgu værir sviptur.

En er nú þetta betri Björg

En Björg sem þú varst giftur?

Sjálfur skýrir Páll gátuna svona:

Úr hafi dró í búrið björg.

Björg frá Látrum kraftaskáld.

Grandi forðar fingurbjörg.

Finnast víða klettabjörg.

Þá er ný gáta eftir Pál:

Þetta nafn á fjalli fann,

fara krakkar yfir hann,

við lestur þessi iðinn er,

oft hann mig um landið ber.

Helgi R. Einarsson lét þessi orð fylgja sinni lausn: Nú líður að sauðburði og datt mér því þessi vitleysa í hug:

Slátraraspeki

Til þess skrokka að skera

skjáturnar verða að bera

svo ríður á því

þróuninni' í

að hrútarnir hitt fái' að gera.

Limran „Kvaddi Búkollu“ eftir Hákon Aðalsteinsson:

Hann kæfði allt kjökur og stress,

kynnti svo glaður og hress

alnorskar kýr

þar sem arðurinn býr

svo kyssti hann Búkollu bless.