Gunnlaugur B. Gunnlaugsson
Gunnlaugur B. Gunnlaugsson
Þrátt fyrir vel menntaða og reynda yfirmenn LSH er rekstur spítalans í molum.

Gunnlaugur B. Gunnlaugsson

Þrátt fyrir vel menntaða og reynda yfirmenn LSH er rekstur spítalans í molum. Vandamálin hrannast upp og safna ryki hjá þessum sömu stjórnendum og gagnrýni innanhúss er þögguð. Sömu „lausnirnar“ eru reyndar aftur og aftur af sömu aðilunum. Að gera sama hlutinn alltaf eins en ætlast til öðruvísi niðurstöðu í hvert sinn er dæmi um geðveiki. Fórnarlömbin eru sjúklingarnir.

Í meira en áratug hefur sjúklingaflæði LSH hægt á sér ár frá ári, ekki vegna minnkandi eftirspurnar heldur vegna þess að spítalinn er nýttur sem geymsla fyrir sjúklinga sem þurfa ekki lengur spítalaþjónustu og er spítalinn því yfirfullur af biðsjúklingum.

Á sama tíma hafa fjárframlög ríkisins hækkað ár frá ári, en þessi botnlausa hít þarf alltaf meira og meira líkt og fata með gati undir opnum vatnskrana. Ef kallað er á sparnað er þjónusta skert við viðkvæmustu hópana svona líkt og til að ögra yfirvöldum.

Bráðaþjónusta LSH er núna hægasta og skeikulasta heilbrigðisþjónusta sem þekkist í hinum vestræna heimi enda er öllum staflað saman í eina röð á færibandi með öfugt flæði og engu breytt þrátt fyrir að núverandi kerfi hafi sýnt og sannað fyrir mörgum árum að það gengur ekki. Enginn leggst inn á spítalann nema fara í gegnum þessa trekt. Millistjórnendur spítalans halda honum í heljargreipum, smákonungar með stórar kórónur sem passa sitt. Mistök verða aldrei, og ef einhver telur að slíkt hafi gerst rannsaka þessir sömu konungar hver annan af „fullri einlægni“ með „hag sjúklingsins að leiðarljósi“. Ef aðgerða er þörf er verkferlum breytt þannig að ábyrgðin færist fjær upprunanum en áður.

Það þarf sífellt fleiri tll að sinna sama verkinu. 3-4 þarf til að skrá lífsmörk hjá hverjum sjúklingi, annað eins til að sinna matar- og lyfjaþjónustu og ef svo ólíklega vill til að sérfræðingur labbi um ganga spítalans er hann í fylgd hóps af hjúkrunarfræðingum, eftiröpurum og riturum. Öll frávik útheimta skriffinnsku sem breskt ráðuneyti gæti verið stolt af. Breyting á mataræði sjúklings (úr engu í eitthvað) tekur yfirleitt 2-3 daga ef það tekst á annað borð. Heimsendingar á mat verða æ algengari á spítalana, sennilega til að koma í veg fyrir að sjúklingarnir deyi úr hungri. Hagkvæmar lausnir eru þaggaðar í fæðingu enda er vannýting á fjárframlagi ríkisinis ávísun á minna framlag að ári. Slíkt eru landráð innan LSH svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Verður þetta alltaf svona eða er eitthvað hægt að gera?

Við verðum sem ríki að hætta að reka LSH eða aðra spítala og úthýsa þessum rekstri til einkaaðila. Eftirspurn eftir þjónustunni ráði fjárframlagi, ekki ágiskun stjórnamálamanna hverju sinni.

Skipta þarf bráðadeildinni aftur upp í slysavarðstofu og síðan almenna bráðadeild (24/7-læknavakt). Fjölga þarf þessum deildum í takt við eftirspurn.

Ríkið á að byggja sjúkrahús, elliheimili og þjónustuíbúðir og leigja út til einkaaðila til reksturs.

Við þurfum ekki fleiri forstjóra LSH til að segja þjóðinni að vera heima ef hún er lasin. Það að ónáða ekki lækninn var bara spaugstofugrín!

Ég hvet alla sem koma að þessum málum til að henda öllu sem tilheyrir gömlu lausnunum og fara að hugsa í nýjum lausnum, lausnum sem skila árangri fyrir sjúklinga. Við þurfum ekkert að spara peninga, við þurfum aftur á móti nauðsynlega að fá mun betri heilbrigðisþjónustu.

Höfundur er hugbúnaðarsérfræðingur og tónlistarmaður.

Höf.: Gunnlaugur B. Gunnlaugsson