Snarky Puppy Michael League er þriðji frá vinstri í miðjuröðinni og situr hér ofan á sófabakinu.
Snarky Puppy Michael League er þriðji frá vinstri í miðjuröðinni og situr hér ofan á sófabakinu. — Ljósmynd/Brian Friedman
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bandaríska djasshljómsveitin Snarky Puppy snýr nú aftur til landsins og heldur tónleika í Eldborg Hörpu á mánudag, 22. apríl, kl. 20 en hún kom fyrst til Íslands árið 2016 þegar hún hélt tónleika á sama stað

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Bandaríska djasshljómsveitin Snarky Puppy snýr nú aftur til landsins og heldur tónleika í Eldborg Hörpu á mánudag, 22. apríl, kl. 20 en hún kom fyrst til Íslands árið 2016 þegar hún hélt tónleika á sama stað. Grammy-verðlaunahafinn, bassaleikarinn, hljómsveitarstjórinn og stofnandi Snarky Puppy, Michael League, hefur á síðustu árum safnað að sér myndarlegum hópi hæfileikaríkra tónlistarmanna á sviði djasstónlistar en alls mæta níu hljómsveitarmeðlimir að þessu sinni til landsins.

„Við skemmtum okkur svo ótrúlega vel þegar við komum síðast, og það er orðið töluvert langt síðan, þannig að tilgangurinn með þessu tónleikaferðalagi er að spila annaðhvort á stöðum sem við höfum ekki komið til lengi eða á stöðum sem við höfum aldrei heimsótt,“ segir League spurður að því hvað hafi orðið til þess að hljómsveitin ákvað að snúa aftur. Bætir hann því við að hljómsveitin sé til dæmis að fara að spila í fyrsta sinn í Eistlandi og í annað sinn á tuttugu árum í borgum eins og Reykjavík og Riga í Lettlandi. „Við reynum að heimsækja eins marga og ólíka staði í heiminum og við getum, sem er hreint út sagt dásamlegt.“

Undir ýmsum áhrifum

Segir League áhorfendur mega búast við stórkostlegri skemmtun í Hörpu en á lagalista tónleikanna er að finna blöndu af gömlum og nýjum lögum. Þá séu vanalega um tuttugu tónlistarmenn sem spili með hljómsveitinni en einungis um tíu manns sem ferðist með henni í einu. „Þetta gerum við svo hver og einn hafi líka tíma fyrir sinn sólóferil eða fái tækifæri til að spila með öðrum listamönnum. Þetta er mín hljómsveit og ég vil gefa fólki svigrúm til að stofna jafnvel sína eigin hljómsveit og þetta fyrirkomulag hefur hentað okkur vel. Þetta er blanda af tónlistarmönnum víðs vegar að úr heiminum, flestir með uppruna í tónlistarmenningu þeldökkra í Bandaríkjunum en undir áhrifum frá mismunandi tónlistargreinum.“

Fóru grasrótarleiðina

Inntur eftir því hvernig hljómsveitinni hafi tekist að afla slíkra vinsælda og eignast svo stóran aðdáendahóp segir League það hafa tekist með mikilli vinnu í gegnum árin. „Við náðum eiginlega aðdáendunum á okkar band einum í einu því þegar við byrjuðum þá voru ekki allir þessir samfélagsmiðlar og nettækni til að ná til fjöldans á auðveldan og skjótan hátt. Þannig að við fórum víðs vegar um og spiluðum, töluðum við fólkið á götunni og buðum því að koma og hlusta á okkur, töluðum við áhorfendur á giggunum okkar og fórum því svolítið svona grasrótarleiðina að þessu. Seinna notuðum við svo samfélagsmiðlana til að breiða út boðskapinn en þeir studdu í raun bara við það sem við vorum þegar að gera,“ segir hann og tekur fram að hljómsveitir sem séu að stíga sín fyrstu skref í dag geri akkúrat öfugt. „Þær byrja á að framleiða myndbönd og reyna að ná til fólks án þess jafnvel að yfirgefa heimili sín og eyða miklum peningum. Ég held að það sé mjög skynsamlegt en við höfðum bara ekki kost á því á þessum tíma.“

Hljómsveitin orðin 20 ára

Snarky Puppy hefur fimm sinnum unnið til Grammy-verðlauna, þar af fjórum sinnum fyrir bestu samtímatónlistarplötuna án söngs. Spurður út í þennan árangur og hvort hann hljóti ekki að vera stoltur yfir velgengninni sem leiðtogi bandsins segir hann árangurinn fyrst og fremst hafa náðst vegna samvinnunnar innan hópsins. „Auðvitað gleðst ég yfir þessu því ég hef unnið hörðum höndum en það hafa allir hljómsveitarmeðlimirnir líka gert. Það er dásamlegt að vinir mínir og fólk sem ég virði mjög mikið í þessum hópi hafi fengið að upplifa slíka viðurkenningu fyrir allt erfiðið. Að því leyti skipta Grammy-verðlaunin okkur miklu máli.“ Þá segist League ekki hafa búist við því í upphafi að hljómsveitin yrði svona langlíf. „En hér erum við tuttugu árum seinna,“ segir hann og skellihlær.

En á hvaða tímapunkti ákvaðstu að verða tónlistarmaður? „Það var frekar seint. Ég var meira í leiklist og íþróttum þegar ég var í menntaskóla. Ég byrjaði að spila á gítar þegar ég var fjórtán ára gamall en fór ekki að spila af neinni alvöru fyrr en um sextán ára. Þá fékk ég tónlistarbakteríuna sem tók yfir líf mitt. Þetta er svo falleg leið til að eiga samskipti, eiga þessa mannlegu tengingu við fólk og svo er þetta að mínu mati besta leiðin til að skoða heiminn, hitta fólk og upplifa ólíka menningu, tungumál og mat. Ég elska þetta og tek þessu alls ekki sem sjálfsögðum hlut.“ Miðar fást á tix.is.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir