— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjögur ný tilfelli kíghósta greindust á höfuðborgarsvæðinu í vikunni. Alls eru þau þá orðin sex en tvö greindust fyrr í mánuðinum. Það voru fyrstu tilfelli kíghósta sem greinst hafa hér á landi síðan árið 2019

Ólafur A. Pálsson

oap@mbl.is

Fjögur ný tilfelli kíghósta greindust á höfuðborgarsvæðinu í vikunni. Alls eru þau þá orðin sex en tvö greindust fyrr í mánuðinum. Það voru fyrstu tilfelli kíghósta sem greinst hafa hér á landi síðan árið 2019.

Um tengda fullorðna einstaklinga var að ræða í fyrstu tveimur tilfellunum og óvíst hvort smit þeirra tengist ferðalögum. Smitin fjögur í vikunni greindust í börnum á aldrinum þriggja til 15 ára. Engin þeirra sex sem smitast hafa eru alvarlega veik en öll eru þau með einkenni að sögn Guðrúnar Aspelund sóttvarnalæknis. Segir hún í samtali við Morgunblaðið að sem betur fer hafi ung börn ekki enn greinst en þau geti verið mjög viðkvæm fyrir einkennum kíghósta.

Einkenni frá því í mars

Guðrún segir faraldsfræðilegar upplýsingar ekki liggja fyrir í tilfellunum fjórum og því ekki hægt að segja til um tengsl einstaklinganna með vissu eða hvort smit þeirra tengist ferðalögum. Segir hún meðgöngutíma kíghósta langan og að fólk geti verið með einkenni lengi, sumir þeirra sem greinst hafi undanfarið hafi haft einkenni frá því í mars. Þannig sé oft erfitt að segja til um hvar fólk hafi smitast af bakteríunni.

Börn og þungaðar konur

Embætti sóttvarnalæknis hefur verið í góðu sambandi við umdæmislækni sóttvarna á höfuðborgarsvæðinu og heilsugæsluna. Segir Guðrún aðaláhersluna vera á bólusetningu barna og þungaðra kvenna. Þá segir hún að ef tilefni sé til að gefa bóluefni aftur þá sé það fyrst og fremst gefið heilbrigðisstarfsfólki sem sinni börnum og þunguðum konum.

Bakterían í dreifingu

Flest hafa kíghóstatilfelli verið á fjórða tug á einu ári í seinni tíð eða frá sjöunda áratug síðustu aldar þegar bólusetningar urðu almennar. Sóttvarnalæknir segir allt benda til þess að bakterían sé í einhverri dreifingu, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu, og líklegt að tilfellum muni fjölga enn frekar. Ómögulegt sé þó að segja til um hversu mörg þau verði þegar upp er staðið.

Höf.: Ólafur A. Pálsson