Úthugsað „Það er greinilegt að allt er úthugsað hjá Rohrwacher,“ segir um Chimera, nýjustu kvikmynd leikstjórans Alice Rohrwacher.
Úthugsað „Það er greinilegt að allt er úthugsað hjá Rohrwacher,“ segir um Chimera, nýjustu kvikmynd leikstjórans Alice Rohrwacher.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stockfish í Bíó Paradís La Chimera / Chimera ★★★★½ Leikstjórn: Alice Rohrwacher. Handrit: Alice Rohrwacher, Carmela Covino og Marco Pettenello. Aðalleikarar: Josh O'Connor, Carol Duarte, Vincenzo Nemolato, Alba Rohrwacher og Isabella Rossellini. 2024. Ítalía, Frakkland og Sviss. 130 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Chimera er heiti á eldspúandi kvenkyns skrímsli í grískri goðafræði sem er með höfuð ljóns, líkama geitar og hala dreka eða höggorms. Orðið chimera hefur því verið þýtt sem skrímsli sem samanstendur af ósamræmdum hlutum eða blekking eða tilbúningur hugans. Hið umrædda skrímsli fær fórnarlamb sitt til að byrja að trúa ranghugmyndum sínum og í kjölfarið missa tökin á raunveruleikanum. Báðar þessar þýðingar eru beintengdar sögunni í Chimera sem er nýjasta mynd leikstjórans Alice Rohrwacher en hún er þekktust fyrir mynd sína Jafn glaður og Lazzaro (Happy as Lazzaro, 2018). Fyrrnefndar myndir Rohrwacher fjalla báðar um unga menn með töframátt og þemun eru þau sömu; dauði, ást og peningar. Það er greinilegt að hér er um færan kvikmyndahöfund að ræða.

Chimera gerist í Toskana á níunda áratugnum og fylgir ungum breskum fornleifafræðingi, Arthur (Josh O'Connor), sem er nýkominn úr fangelsi fyrir að taka þátt í að ræna grafhýsi Etrúra og stela þannig menningararfleifð landsins. Í byrjun er hann harðákveðinn í að falla ekki í sama farveg en fljótlega verður hann aftur hluti af sama gengi farandgrafarræningja. Arthur er enginn „hefðbundinn farandgrafarræningi“ þótt hann líti út fyrir það heldur er hann svokallaður „grafarhvíslari“ og getur þefað uppi neðanjarðargrafhýsi með trjágrein og sjötta skilningarvitinu. Arthur hefur þó ekki áhuga á að verða ríkur heldur er hann að leita að dyrum sem leiða hann til látinnar ástkonu sinnar, Beniaminu (Yile Yara Vianello).

Josh O'Connor, sem leikur Arthur, hefur lengi verið í uppáhaldi hjá undirritaðri en hún hefur fylgst með ferli hann síðan hún sá hann í myndinni Guðs vors land (God's Own Country, 2017) eftir Francis Lee og þáttaröðinni Durrell-fjölskyldunni (The Durrells, 2016-2019) sem sýnd var á Rúv. Krúnan (The Crown, 2016-2023) eftir Peter Morgan var hins vegar mikilvægur stökkpallur í ferli Josh O'Connors en þar lék hann Karl prins. Nýjasta myndin sem hann leikur í er Áskorendur (Challengers) eftir Luca Guadagnino sem hefur fengið mikið lof en hún kemur í bíó hérlendis 24. apríl. Það er spennandi að sjá O'Connor stækka sem leikara og fá um leið fleiri tækifæri. Í Chimera tekst honum að sýna innra líf persónunnar án þess að segja mikið. Kannski af því að ítalskan hans var ekki nógu sterk en undirrituð ætlar að leyfa sér að trúa því að það sé vegna þess að hann nær að koma tilfinningum persónunnar til skila með svipbrigðum og líkamstjáningu.

Ekkert í byrjuninni á Chimera gefur til kynna að töfrar séu hluti af söguheiminum þannig að þegar Arthur gengur um með trjágrein í von um að finna fjársjóð í gröfum vakna margar spurningar hjá áhorfendum, sem eru ekki tilbúnir að trúa því strax að hann hafi raunverulega einhverja tengingu við hina látnu. Rétt eins og hópur farandgrafarræningjanna sem fylgir honum lærum við fljótt að hæfileikar hans skila sér, hann raunverulega finnur grafirnar. Rohrwacher notar kvikmyndaformið til að sýna það þegar hann er að tala við undirheima með því að hvolfa myndinni við þannig að Arthur er á hvolfi og lítur út fyrir að vera undir jörðinni. Titill myndarinnar Chimera er því mjög viðeigandi, eins og áður hefur verið nefnt, en svo virðist sem Arthur hafi lent í klóm Chimera-skrímslisins og undir lokin getur hann ekki gert greinarmun milli undirheimanna og raunheimsins.

Rohrwacher er óhrædd við að gera tilraunir og það skilar sér. Það er til dæmis mjög langt síðan undirrituð hefur séð mynd þar sem leikstjórinn ákveður að spóla áfram nokkur atriði, þ.e. allt í einu hreyfa persónurnar sig óvenju hratt í rammanum. Til þess að gera það þurfti tökumaðurinn, Hélène Louvart, að fanga atriðið á færri römmum á sekúndu en tíðkast þannig að þegar atriðið er svo spilað á venjulegum hraða gerist allt í rammanum miklu hraðar. Hefðbundnar myndir eru 24 rammar á sekúndu en í Chimera eru umrædd atriði líklega 12 til 16 rammar á sekúndu. Þessi atriði þjóna kómískum tilgangi enda minna þau okkur á gömlu hlátraskellagamanmyndirnar (e. slapstick comedy) þar sem þetta var ekki óalgengt.

Kvikmyndatakan hjá Louvart er í heild sinni ótrúlega falleg og sterk en myndin er tekin upp á 16 mm, Super 16 mm og 35 mm filmu. Myndin hefði einfaldlega ekki verið sú sama hefði hún verið skotin með stafrænni vél en þá hefði kvikmyndatakan verið of hrein fyrir söguna. Af því að sagan segir sögu fátæks manns sem býr í ólöglegum kofa í Toskana á níunda áratugnum virkar það vel að skjóta á filmu og sérstaklega 16 mm þar sem áferðin er enn meiri. Það er líka alltaf einhver sjarmi yfir filmunni en þannig myndi undirrituð nákvæmlega lýsa Ítalíu.

Það er greinilegt að allt er úthugsað hjá Rohrwacher en þegar Arthur hittir til dæmis lifandi ástarviðfangið sitt, Italiu (Carol Duarte), í fyrsta skiptið þá er hún er að eyðileggja stól en undir lokin þegar hann hittir hana aftur er hún að setja saman stól. Áhorfendur skilja að stóllinn endurspeglar hennar ferðalag í sögunni. Hægt er að nefna ótalmörg svipuð dæmi í myndinni sem gefa sögunni dýpri merkingu en það er einn helsti styrkleiki myndarinnar.

Kvikmyndageirinn sendir stundum frá sér myndir með sterku handriti en tekst ekki að verða meistaraverk af því að myndin er ekki nógu áhugaverð sjónrænt séð en það á það til að gerast ef fjármagnið er of lítið á bak við myndina. Kvikmyndir eru sjónrænn miðill þannig að það gengur ekki að vanrækja þann hluta. Hins vegar virðist það verða æ algengara vandamál að áherslan sé lögð á hið sjónræna og handritið þá sett í annað sæti. Myndin líkist því frekar löngu tónlistarmyndbandi en kvikmynd, en nýjasta mynd Emerald Fennell, Saltbrennsla (Saltburn, 2023), hefur einmitt verið gagnrýnd fyrir það. Það sem Alice Rohrwacher gerir svo vel með Chimera er að gera hana virkilega fallega bæði að utan og innan og það er nauðsynlegt til að gera góða mynd.