Sóley ásamt Heiðari Kára Rannverssyni sýningarstjóra sýningarinnar.
Sóley ásamt Heiðari Kára Rannverssyni sýningarstjóra sýningarinnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sýningin spyr spurninga eins og: Hvernig er að eiga heima á tveimur stöðum og hvað þýðir það? Hvaðan er maður og hvernig tengjast minningar þeim stöðum sem maður elst upp á eða býr á hverju sinni?

Hjartadrottning í Gerðarsafni er fyrsta einkasýning Sóleyjar Ragnarsdóttur á Íslandi. Sóley býr og starfar í Danmörku. Hún lauk meistaraprófi frá Städelschule í Frankfurt, Þýskalandi árið 2019.

Á síðustu árum hefur Sóley vakið athygli á danska og alþjóðlega myndlistarsviðinu og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Þá hefur hún haldið nokkrar einkasýningar. Árið 2023 sýndi hún verkið More Love Hours á alþjóðlegu tónlistarhátíðinni Roskilde Festival. Verk Sóleyjar má finna í einkasöfnum erlendis og Statens Kunstfond í Danmörku.

Sóley segir að sér þyki vænt um að fá að sýna á Íslandi, en foreldrar hennar, Ragnar Stefánsson sálfræðingur og Íris Elfa Friðriksdóttir kennari, starfa einnig sem myndlistarmenn.

Á sýningunni eru málverk, málaðir veggfletir og sérhannað veggfóður auk sýningarborða með einstöku servíettusafni.

Verkin eru nær öll gerð sérstaklega fyrir sýninguna og tengjast fjölskyldusögu Sóleyjar. Þar vinnur Sóley með servíettur. „Ég erfði servíettusafn ömmu minnar sem var dugleg við að halda matarboð og þar voru alltaf notaðar servíettur. Amma vann á Hótel Sögu í 40 ár og kom heim með servíettur sem hún geymdi í skókössum og þar geymdi mamma líka sitt servíettusafn. Á sumum eru áritanir tengdar viðburðum úr lífi fjölskyldunnar, eins og fermingum. Ég var ekki viðstödd allar þær athafnir af því að við fjölskyldan fluttum til Danmerkur en servíetturnar tengja mig við þessa atburði.“

Safnið hefur stöðugt vaxið því Sóley hefur keypt servíettusöfn af dönskum konum. „Safnið er því orðið að minningasafni, ekki bara minningum úr minni fjölskyldu heldur líka annarra fjölskyldna í Danmörku. Elstu servíetturnar eru frá 1940 en amma byrjaði að safna þeim upp úr 1960 þegar hún byrjaði að vinna á Hótel Sögu.“

Eins konar endurvinnsla

Sóley býr í Thy á Norðvestur-Jótlandi, litlum bæ í nálægð við Norðursjó. Hún segir staðinn, hafið og ströndina veita sér innblástur. „Þegar covid skall á ákvað ég að flytja frá Þýskalandi til Stenbjerg sem er bær með tæplega 200 íbúum. Þar fór ég að skoða servíetturnar og ákvað að vinna með þær í samhengi við mitt nánasta umhverfi. Þannig náði ég að tengja saman tvær sögur, þá íslensku og dönsku.“

Öll verkin á sýningunni í Gerðarsafni eru unnin á servíettur sem hertar eru með epoxý- og akrýlmálningu. „Ég bý til eins konar teppi af servíettum. Þær eru undirlagið, svo mála ég yfir og þegar því er lokið sést glitta í mynstur og myndir þeirra. Ég skreyti verkin síðan með rafi, skeljum, perlum og plasti, sem ég finn á ströndinni. Ég vinn með náttúruverndarsamtökum sem hreinsa strendur og það að nota plast til að skreyta verkin er í mínum huga eins konar endurvinnsla.“

Leifar kvennamenningar

Heiðar Kári Rannversson er sýningarstjóri sýningarinnar. „Ég starfaði í nokkur ár sem sýningarstjóri við Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn og þar kynntist ég Sóleyju þegar hún hélt sína fyrstu einkasýningu í borginni árið 2021. Þá sá ég þessi servíettuverk og varð algjörlega heillaður bæði af aðferðinni sem hún notar, sem er nýstárleg og spennandi, og líka þessum heimi og þessari sögu sem liggur undir niðri og tengist servíettum sem eru líka heill heimur út af fyrir sig. Servíettur eru leifar ákveðinnar kvennamenningar þar sem réttar servíettur eru valdar fyrir ýmis tækifæri og eru til vitnis um mikla væntumþykju, alúð og samtal.

Þessi hugmynd vísar líka í heim sem tengist hafinu og sömuleiðis í einnotamenningu því servíettur er líka eitthvað sem maður hendir í ruslið nema maður ákveði að safna þeim og gera þær að einhverju einstöku. Það er áhugavert að gera það einnota varanlegt með því að breyta því í listaverk.“

Þegar sýningunni lýkur í Gerðarsafni ferðast hún til Danmerkur og verður sett upp í Augustiana Kunstpark & Kunsthal í Sønderborg á Suður-Jótlandi.

„Ísland og Danmörk eru staðir sem tengjast Sóleyju og fjölskyldu hennar sterkum böndum og servíetturnar eru frá þessum tveimur löndum. Sýningin spyr spurninga eins og: Hvernig er að eiga heima á tveimur stöðum og hvað þýðir það? Hvaðan er maður og hvernig tengjast minningar þeim stöðum sem maður elst upp á eða býr á hverju sinni?“ segir Heiðar Kári.

Sýningin nefnist Hjartadrottning. Um þann titil segir Sóley: „Á sýningunni eru verk með servíettumynstri úr borðspilum, hjörtum, tíglum, laufum og spöðum. Sýningin er tileinkuð ömmu minni, sem safnaði servíettum, og lést á þessu ári. Sýningin er óður til hennar. Hún er hjartadrottning í mínum huga.“