Kristján Rafn Guðmundsson fæddist 28. maí 1944. Hann lést á 5. apríl 2024.

Útför Kristjáns Rafns fór fram 19. apríl 2024.

Elsku afi.

Við áttum okkur á hversu oft við tölum um þig nú þegar þú ert farinn. Við erum svo montnar af því að vera barnabörnin þín að við erum alltaf að nefna þig í samræðum. Endalaust af sögum eigum við í bankanum. Margar af þeim koma frá þegar þú kíktir á okkur í Danmörku og svo í Reykjavík. Þegar við fórum í kastalann hennar Þyrnirósar í Danmörku og það var ekkert mál að fá þig til að klæða þig upp í búningana með okkur sem voru til staðar fyrir börnin. Alltaf var stutt í hláturinn, grínið og smá prakkaraskap, okkur til mikillar gleði. Við erum báðar afbragðsgóðir ökumenn í dag vegna þín eftir miklar áskoranir í ökunáminu, þar á meðal svaðilfarir út um alla Vestfirði sem undirbjó okkur vel fyrir snjóleysið fyrir sunnan.

Þegar afi kom og var hjá okkur í Reykjavík kom alltaf tími þegar maður spurði „hvar er afi?“ og svarið var alltaf hjá Alberti. Nú vitum við alltaf hvar afi er; hjá Alberti.

Þínar afastelpur,

Ingveldur Birna og Embla Katrín.

Og hvað er svo að frétta af „kallinum“? Alltaf spurði ég föður minn heitinn, Albert Guðmundsson, að því þegar við spjölluðum saman síðustu árin. Með því var vísað til föðurbróður míns, Kristjáns Rafns, sem nú er fallinn frá. Þeir bræður áttu fallegt bræðrasamband og töluðu oft saman í síma, stundum tímunum saman. Þá var oft rætt um uppvaxtarárin á Grænagarði, frásagnir af frændfólki og nánustu fjölskyldu og hina ýmsu samferðamenn.

Öll mín æskuár dvaldi ég á sumrin á Ísafirði hjá ömmu, Helgu Elísabetu, þar sem hann, í minningunni, kom við á hverju kvöldi til að athuga með okkur. Hann sagði mér alla tíð margar sögurnar af fjölskyldunni, frá Kirkjubóli, til Króksbæjar og áfram til Grænagarðs, og fleiri staða fyrir vestan sem snerta fjölskylduna okkar. Hann var hnyttinn sögumaður með góða frásagnarhæfileika, þar sem ekki var nú alltaf verið að flækja sögurnar með einhverjum smáatriðum.

Við fráfall föður míns sýndi hann, líkt og fjölskyldan öll, okkur mikla umhyggju og hlýju. Honum fannst svo mikilvægt að hitta stelpurnar mínar tvær sem faðir minn kvaddi aðeins mánaðargamlar. Það skein í gegn hvað það skipti hann miklu máli þótt hann sökum sjóndepru gæti ekki almennilega séð þær. En hann gat þó strokið þeim um kinn og haldið í hendur þeirra. Sú minning mun ætíð lifa í huga mínum. Ég á erfitt með að skilja hvernig hægt er að komast í gegnum þann harm að lifa barn sitt eins og hann stóð frammi fyrir nokkrum árum áður en ég fæddist. Ég ber með mikilli væntumþykju og stolti nafn hennar Ingu sem féll frá barn að aldri.

Nú að leiðarlokum þakka ég fyrir allar stundirnar og sögurnar, og kveð kæran frænda minn með söknuði.

Votta ég Guðmundi Rafni (Muggi) og Jónu Lind, Helgu Bryndísi og Birgi samúð mína alla, sem og afa- og langafastelpunum og nafnanum honum Kristjáni Breka.

Barbara Inga Albertsdóttir.

„Ertu nokkuð sofnaður?“ sagði Kitti Muggs við mig í fyrstu kynnum okkar. Ég var á leið suður með Gunnari frænda á flutningabílnum Í-248. Við Kitti áttum næturvaktina. Gunnar brýndi fyrir mér að ef bíllinn færi yfir miðlínu ætti ég að hnippa í Kitta. Augnlokin voru þung á okkur báðum og hann vakti mig oftar en ég hann. Til hressingar var farið út og pissað á afturdekkin. Kitti sagði að þetta væri ekki bara hollt og gott heldur nauðsynlegt, því ef kæmi suðuhljóð væru þau að ofhitna. Ferðin gekk vel þar til við komum að skærrauðum ljósum í Reykjavík. Við urðum að stoppa þótt engir bílar væru sjáanlegir – Kitti sagði að þetta væri notað af flestum nema litblindum, þeir notuðu uppi-og-niðri-ljósin.

Næst lágu leiðir okkar saman í göngukeppni inn í Tungu. Ég var hvorki í Herði né Vestra og var því skráður í íþróttafélagið Ármann. Ég hafði aldrei heyrt um það áður en taldi ástæðuna tengjast suðurferðinni með Gunnari. Ég bar undir og fékk gott rennsli, en ekki fatt. Þá kemur Kitti og segir að ég hafi greinilega ekki prófað snjóinn við áburðinn. Hann skipaði mér aftur í hlöðuna, þar sem fram fór kennsla í smakki, og sem betur fer sá hann ekki þegar ég sneri mér undan til að spýta gumsinu. Hann var snöggur að bæta rauðu í miðjuna og það þurfti ekki að spyrja að leikslokum – Ármenningarnir áttu þennan dag. Þegar heim kom talaði ég svo mikið um þessa Ármenninga að mamma saumaði Á framan á dúskhúfuna sem ég tók ekki af í marga daga.

Eitt sumarið í bæjarvinnunni hitti ég Kitta enn og aftur sem verkstjóra. Hann fór með mig, Torfa og Hemma út á Hlíðarveg til að grafa í skurði. Þeir félagarnir stukku strax ofan í, „en hvað á ég að gera?“ – „passa að þeir vinni og rífist ekki,“ sagði Kitti og var rokinn. Þeir byrjuðu strax að rífast, en eiginlega um ekki neitt; svo hlógu þeir og eiginlega að engu.

Hemmi tók mikið í nefið og kenndi mér að beita hjökkunni og Torfi tróð í pípuna og kenndi mér að skófla væri ekki bara skófla! Eina nóttina vakti mamma mig því Kitti var í símanum: „Ertu nokkuð sofnaður? Farðu niður í Áhaldahús og komdu með Jón Dýra niður í Sundstræti.“ Þar voru líka mættir Torfi og Hemmi. „Vertu nú bara rólegur strákur,“ sagði Torfi, „og leyfðu okkur Hermanni að skoða málið.“ Um morguninn spáði Kitti Lyngmó mikið í hver hefði verið á gröfunni um nóttina. Þá var gott að vera tryggir vinir og enginn okkar kannaðist við neitt!

Þegar ég kom í heimsókn á sjúkrahúsið til pabba lá Kitti í rúmi við hliðina. Ég greip um fótinn á honum: „Komdu blessaður Ármenningur!“ „Nei, ert það þú elskulegur,“ sagði Kitti, „ég er nú ekki sofnaður,“ sagði hann og hló! Þótt tíminn síðan í bæjarvinnunni væri orðinn langur og samneytið ekki mikið, þá þekktumst við ennþá vel.

Samveran með bæjarkörlunum gleymist aldrei og vinskapur okkar og traust þróaðist út yfir að vera bara félagar! Nú er Kitti sofnaður, ekki á verðinum, heldur að eilífu. Ég kveð kæran Ármenning með þökk fyrir ráðin sem enn eru við lýði. Fjölskyldu og ættingjum votta ég dýpstu samúð frá mér og bæjarkörlunum!

Halldór Jónsson jr.

Kristján Rafn Guðmundsson, Kitti Muggs, var skíðamaður af hinni miklu skíðaætt frá Grænagarði og steig fyrst á skíði fjögurra ára gamall. Eftir það varð ekki aftur snúið. Keppni, æfingar og ýmislegt skíðastúss var stór hluti af lífi hans alla tíð síðan.

Kitti átti glæstan feril sem afreksmaður í skíðagöngu. Hann vann Íslandsmeistaratitla og keppti oft erlendis, meðal annars um tuttugu sinnum í frægasta skíðagöngumóti heims, Vasagöngunni í Svíþjóð. Hann þótti harður í horn að taka sem keppnismaður en var jafnframt hlýr og glaðsinna og alveg sérlega fús til að rétta yngra skíðafólki hjálparhönd. Eftir að keppnisferlinum var að mestu lokið fór Kitti ótal ferðir sem fararstjóri og áburðarmeistari á skíðagöngumót innan lands og utan enda stóð honum líklega enginn framar í þeirri oft flóknu kúnst að smyrja gönguskíði rétt. Þegar aðstæður voru snúnar, til dæmis gamall snjór og nýr í bland, snjókoma við frostmark eða færið í brautinni breytilegt, þá var okkar maður í essinu sínu og átti það til að draga fram fágæta áburði úr sínum stóru og oft yfirfullu áburðartöskum. Það var einstök gæfa fyrir ungt skíðagöngufólk að fá að njóta aðstoðar Kitta í þessum efnum.

Kitti á skráðar 42 Fossavatnsgöngur og hafa einungis fimm menn gengið hana oftar. Enginn hefur þó unnið gönguna oftar, eða 12 sinnum, og eru þá ekki teknir með sigrar í aldursflokkum sem voru miklu fleiri. Þessar 42 göngur eru þó sennilega vanmat. Þannig gekk hann gönguna árið 1956, þá aðeins 12 ára gamall, gegn öllum aldursreglum. Tími hans var af þessum sökum ekki skráður og því telst sú ganga ekki með í opinberum bókum göngunnar, né aðrar þær göngur sem hann gekk „undir aldri“.

Kitti gekk á skíðum daglega þegar færi gafst, og oft tvisvar á dag, og kom þar sér vel að lengi var hann ökukennari og gat stjórnað vinnutímanum að nokkru sjálfur. Þegar menn horfðu úr bænum uppi á dal á kvöldin og sáu brautaljósin kveikt, þá sögðu þeir alltaf „jæja, Kitti er farinn á skíði“. Hann gekk á skíðum lengri fram eftir aldri og eins lengi og hann gat, en að lokum fór sjónin helst að trufla hann og þurfti hann þá að fækka skíðaferðunum.

Hann fór ítarlega yfir skíðaferil sinn í Skíðablaðinu árið 2008 sem hægt er að lesa á vef Skíðafélags Ísfirðinga. Í öðru viðtali, frá árinu 2001, sagði hann meðal annars: „Ég held að allir hafi gott af því að æfa gönguskíði eða íþróttir yfirleitt. Menn verða að prófa að verða almennilega þreyttir. Það skiptir miklu máli í lífinu að kunna að gera eitthvað eftir að maður er orðinn þreyttur, sama hvort það er á líkamlega eða andlega sviðinu. Það er eitt af því sem maður lærir af því að ganga á skíðum.“

Í gær fóru fram 25 km Fossavatnsskautið og styttri göngur ætlaðar börnum. Á morgun, 20. apríl, fer Fossavatnsgangan fram, 89 árum eftir að hún var fyrst gengin. Það er táknrænt að útför Kitta fari fram daginn þar á milli. Hann er með okkur í anda í skíðasporinu.

Takk fyrir alla kílómetrana.

F.h. stjórna Skíðafélags Ísfirðinga og Fossavatnsgöngunnar,

Gylfi Ólafsson.

Í dag kveðjum við Kristján Rafn Guðmundsson, sem lést 5. apríl síðastliðinn.

Ég er búinn að þekkja og umgangast Kristján Rafn, eða Kitta Muggs eins og hann var oftast kallaður, alla mína ævi. Á Grænagarði, í Netagerðinni og eins þegar hann var við vinnu hjá Gunnari og Ebeneser. Einnig vorum við nágrannar í mörg ár, fyrst í Túngötu 20 og svo í Kjarrholtinu, hann númer 1 og ég númer 3. Hann var sonur Helgu og Muggs sem bjuggu á neðri Grænagarði en Muggur var alinn upp hjá ömmu minni sem bjó á efri Grænagarði.

Kristján var skíðamaður af lífi og sál og á veturna komst ekkert annað að en skíðaganga, keppnir og æfingar. Á árum áður var hann einnig mjög góður í marki í fótbolta en fann fljótt að skíðaganga átti best við hann. Fyrirmyndir hans í skíðagöngu voru sjálfsagt móðurbræður hans, Magnús og Gísli, og svo bræðurnir á Grænagarði, þeir Gunnar og Oddur.

Ég sagði einu sinni við Kristján að ég teldi menn sem stunduðu skíðagöngu skrítna. Hann svaraði því til að sumir þroskuðust seinna en aðrir. Enda átti það eftir að koma á daginn að ég fór að æfa skíðagöngu og við æfðum og kepptum saman í mörg ár.

Kristján reyndi lítið við aðrar greinar skíðaíþróttarinnar en göngu en eitt sinn prófaði hann þó að keppa í stökki. Eftir fyrstu umferð kom dómarinn að tali við hann og spurði hvort honum væri ekki sama þótt hann færi ekki aftur. Kitti sagði mér að margir hefðu haldið að honum hefði verið bannað að fara aftur en það væri ekki rétt. Mikill munur væri á orðunum sama og bannað.

Í raun má segja að æfingatímabil okkar Kristjáns hafi verið tvö því þegar við vorum orðnir eldri byrjuðum við, ásamt fleiri skíðamönnum, að fara saman á skíði alla laugar- og sunnudaga klukkan 10. Á þessum æfingum var mikið rætt, dægurmál krufin og sagðar sögur. Einhver sagði að þessi hópur væri bannaður innan 16.

Eitt var það sem Kristján kunni betur en aðrir og það var að bera undir skíði. Fyrir mót var oft mannmargt í bílskúrnum í Kjarrholti 3 þegar verið var að undirbúa skíðin og þurfti oft að hafa skúrinn opinn svo reykskynjarinn í húsinu færi ekki í gang. Nú þegar líður að Fossavatnsgöngunni sakna eflaust einhverjir þess að geta ekki sótt ráð til Kristjáns. Hann hafði gengið 42 Fossavatnsgöngur og unnið 12 sinnum. Fossavatnsleiðina gekk Kitti mun oftar en bara í keppninni, við tveir gengum hana til dæmis oft saman á jóladag við misjafnar aðstæður.

Kristján var ótrúlega minnugur og skemmtilegur í tilsvörum. Þegar pabbi fékk fyrsta vörubílinn með skipi og Kristján var spurður hvernig honum litist á hann var svarið: „Þetta er mjallahvítur andskoti!“ Þarna var Kristján sex ára.

Það verða skrýtnir laugardagar hjá mér nú þegar Kristján er farinn. Það var fastur punktur hjá mér að heimsækja hann á Eyri og taka gott spjall. Ég óska Kristjáni góðrar ferðar, kannski getum við tekið upp þráðinn þegar ég kem.

Að lokum sendi ég fjölskyldu Kristjáns innilegustu samúðarkveðjur.

Sigurður
Gunnarsson.

Kær vinur minn Kitti Muggs er látinn. Margs er að minnast eftir áralöng kynni.

Mín elsta minning er þegar ég hitti hann á gangi í miðbæ Ísafjarðar veturinn 1982. Fyrsta stóra mótið sem ég tók þátt í var fram undan en Unglingameistaramót Íslands var haldið á Ísafirði þetta árið. Kitti spurði mig hvort hann ætti ekki að taka skíðin mín og undirbúa fyrir keppnina. Ég þáði þetta góða boð sem var upphafið að áratugalangri samvinnu okkar en Kitti sá til þess að ég væri alltaf með besta mögulega færið. Síðasta keppni sem hann bar undir fyrir mig var Fossavatnsgangan 2016.

Um árabil þjálfaði ég skíðagöngulið Ísfirðinga og var Kitti efstur á óskalistanum sem aðstoðarmaður og þannig tryggði ég besta möguleikann fyrir skíði minna iðkenda. Ekki spillti það fyrir að Kitti var frábær bílstjóri enda ökukennsla hans aðalstarf og kenndi hann mér að sjálfsögðu að keyra bíl. Hann tók bílstjórahlutverkið oft að sér samhliða öðrum verkefnum sem fylgja keppnisferðum í skíðagöngu. Það skipti ekki máli hvort við vorum að fara á Andrésar andar-leikana, bikarmót eða Íslandsmeistaramót, Kitti var alltaf klár í slaginn. Þær eru ófáar ferðirnar sem við höfum keyrt saman á skíðamót víðs vegar um landið og alltaf var mikið spjallað og skemmtilegar sögur rifjaðar upp.

Skíðagöngukappinn Kitti Muggs var daglegur gestur á Seljalandsdal yfir vetrartímann meðan heilsan leyfði. Ég heimsótti hann á hjúkrunarheimilið Eyri um páskana. Ekki átti ég von á því að kallið kæmi svona fljótt og er ég þakklát fyrir okkar síðasta fund.

Elsku Muggur, Jóna Lind, Helga Bryndís, Birgir og fjölskyldur. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra. Megi Guð og góðir vættir gefa ykkur styrk og frið.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(Valdimar Briem)

Elsku Kitti, takk fyrir vináttuna, tryggðina og kærleikann sem þú sýndir mér alla tíð.

Stella Hjaltadóttir.

Í dag kveð ég kæran skíðavin og fyrirmynd, Kristján Rafn Guðmundsson, „Kitta Muggs“ eins og hann var oftast kallaður. Þegar ég var að alast upp í Fljótunum voru Fljótamenn farnir að láta til sín taka í skíðagöngu og orðnir frambærilegir á landsvísu. Ég var mikill áhugamaður og alæta á allar íþróttir og fylgdist að sjálfsögðu vel með þegar skíðalandsmótin fóru fram. Í þá daga var lýsing frá keppninni í útvarpinu og mikil spenna að fylgjast með. Á þessum árum einokuðu Siglfirðingar nánast skíðagönguna en þó var þarna ungur Ísfirðingur sem var farinn að vekja mikla athygli og farinn að skáka Siglfirðingunum, þetta var Kitti Muggs. Strax og ég hóf minn keppnisferil kynntist ég þessari goðsögn Ísfirðinganna. Mér varð strax ljóst að þarna var mikill keppnismaður á ferð, sem gaf sig aldrei í harðri keppni, eins og ferill hans ber vott um. Þegar ég fór í mína fyrstu Vasagöngu árið 1997 átti ég því láni að fagna að komast inn í hóp skíðamanna sem Kristján var hluti af. Hann var þá þegar búinn að fara í þrjár Vasagöngur og ekki slæmt að hafa slíkan kappa til að leiðbeina mér og þiggja góð ráð af. Ekki grunaði mig þá að ég ætti eftir að fara yfir tuttugu ferðir með þessum hópi sem seinna var nefndur Vinir Kitta, honum til heiðurs. Síðasta ganga Kitta var árið 2017 og var það hans 21. ganga. Þá var hann farinn að tapa mikilli sjón vegna glákusjúkdóms, sem olli honum blindu fljótlega eftir það. Þessi síðasta ganga reyndist honum erfið en með frábærri aðstoð vinar síns og sveitunga Þrastar Jóhannessonar, sem fylgdi honum af sinni einstöku þolinmæði og umhyggju, tókst honum að ljúka henni. Þrátt fyrir að geta ekki lengur gengið Vasagönguna fór hann tvær ferðir til viðbótar með okkur.

Kristján var alltaf hrókur alls fagnaðar í þessum frábæra hópi þar sem margar skemmtilegar sögur voru sagðar. Þar var hann á heimavelli og sagði skemmtilega frá og var mikið hlegið og skemmt sér. Eins og áður er sagt var Kitti mikill keppnismaður og átti alltaf frábærar Vasagöngur og þrátt fyrir að hann væri farinn að eldast var hann alltaf í fremstu röð okkar Íslendinga sem þátt tóku og skaut mörgum yngri keppendum ref fyrir rass. Ein af sterkum hliðum Kitta var hversu snjall hann var í smurningu skíða. Það má segja að hann hafi verið sjálflærður sérfræðingur á því sviði enda fór hann margar ferðir á skíðamót, sem fararstjóri og smurningsmeistari, með ungum skíðamönnum frá Ísafirði. Hann var alltaf boðinn og búinn að aðstoða og alltaf hægt að treysta á að hann fyndi rétta færið.

Ég vil senda öllum aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

(Bjarni Jónsson frá Gröf)

Magnús
Eiríksson.

Þegar fregnir af andláti Kristjáns Rafns Guðmundssonar (Kitta Muggs) berast fer ekki hjá því að margar minningar rifjist upp. Kristján Rafn byrjaði snemma að starfa við ökukennslu og gerði hann starfið mjög fljótt að sínu aðalstarfi. Hann þótti natinn við skjólstæðinga sína og laginn við að laða það besta fram í fari hvers og eins. Hann átti auðvelt með að byggja upp traust milli sín og nemenda sinna en slíkt er nauðsynlegur þáttur í starfi ökukennarans. Hann var fagmaður góður í starfi sínu og lagði sig sérstaklega fram við að fylgjast með nýjungum og framþróun á sviði ökukennslu. Hann var óþreytandi við að afla sér fróðleiks, eins og nauðsynlegt er einyrkjum, sérstaklega þeim sem búa og starfa í hinum dreifðu byggðum landsins.

Lengi vel var Kristján Rafn umsvifamesti ökukennarinn í Ísafjarðarsýslu og nágrenni en auk almenns ökunáms til B-réttinda fékkst hann einnig af og til við kennslu í akstri bifhjóla. Við sem tengdumst félagsstörfum innan ökukennarastéttarinnar fyrir þremur áratugum eða svo munum vel eftir þessum myndarlega manni sem lagði það í vana sinn, þegar hann átti leið til höfuðborgarinnar, að líta við á skrifstofu félagsins, brennandi af áhuga á að bæta sig og efla í starfi. Í okkar augum var Kristján Rafn hinn dæmigerði trausti félagsmaður sem lét ætíð áhugann fyrir starfinu og metnaðinn til að gera enn betur ráða för.

En eins og kunnugt er þá var Kristján Rafn afburða gönguskíðamaður og átti sú íþrótt hug hans allan. Hann var sigursæll með afbrigðum á mótum hérlendis en auk þess tók hann margoft þátt í Vasagöngunni í Svíþjóð, oftast með prýðis árangri. Hann leiðbeindi og kenndi öðrum í þessari íþrótt og í viðræðum við hann leyndi sér ekki hve háan sess gönguskíðaíþróttin skipaði í huga hans alla tíð.

Meðal annarra starfa sem Kristján Rafn tók sér fyrir hendur var starf í slökkviliði Ísafjarðarbæjar. Þar var ekki starfrækt eiginlegt slökkvilið heldur voru fengnir til vaskir og vel gerðir menn af svæðinu sem skipuðu úthringihóp sem kallaður var til þegar vá bar að. Það taldist eftirsóknarvert meðal ungra manna á Ísafirði að fá inngöngu í þessa vösku sveit og þar var Kristján Rafn svo sannarlega á heimavelli.

Með þessum fátæklegu orðum viljum við kveðja vin okkar og góðan félagsmann, Kristján Rafn Guðmundsson. Jafnframt sendum við fjölskyldu hans og öðrum nákomnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Ökukennarafélags Íslands,

Arnaldur Árnason,

Guðbrandur Bogason.