Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er enginn aðdáandi ríkisstjórnarinnar en vantrauststillaga sem hún stóð að var vanhugsuð og skilaði engu.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er enginn aðdáandi ríkisstjórnarinnar en vantrauststillaga sem hún stóð að var vanhugsuð og skilaði engu. — Morgunblaðið/Eggert
Vantrauststillagan gaf líka nýjum forsætisráðherra landsins, Bjarna Benediktssyni, tækifæri til að koma fram í sjónvarpsfréttum, yfirvegaður og rólegur, og lýsa því yfir að brýn mál biðu úrlausnar.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Það skiptir sennilega engu máli hvaða starfi fólk gegnir, allir gerast einhvern tíma sekir um að dunda sér í vinnunni við eitthvað sem engu máli skiptir og skilar engu. Aðferð viðkomandi til að sannfæra aðra um að hann sé raunverulega að vinna og gera gagn er þá venjulega að fara fram með bægslagangi. Hafa hátt og breiða úr sér. Þannig getur viðkomandi auðveldlega sannfært sjálfan sig um að hann sé að vinna að merkilegu verkefni, þótt hann eigi að vita betur.

Ekki er laust við að manni þyki Flokkur fólksins og Píratar hafa haft þennan háttinn á þegar þeir lögðu fram á Alþingi vantraust á ríkisstjórnina. Eitt einkenni á þingmönnum þessara flokka er að þeir leggja mikið upp úr því að hafa afar hátt og það sem oftast. Það er eins og þeir óttist að ekki verði tekið mark á þeim nema þeir séu sem reiðastir. Að þessu leyti minna þeir allnokkuð á æsta fólkið á netinu sem er stöðugt reitt og önugt, sér spillingu í hverju horni og hefur óendanlega þörf fyrir að rausa um skoðanir sínar, ansi mörgum til leiðinda.

Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, varð í umræðum um vantrauststillöguna tíðrætt um handónýta ríkisstjórn. Ekki var annað á Ingu að skilja en að ríkisstjórnin væri full af skálkum og spillingarpésum. Þarna var mikill hávaði á ferð, en óneitanlega hvarflaði að manni að þetta væri mestan partinn innistæðulaust glamur og algjörlega tilgangslaust. En sjálfsagt finnst Ingu gaman að heyra sjálfa sig tala. Hún hafði raunar hvatt almenning til að mæta á þingpalla til að hlusta á sig. Ekki fara neinar sérstakar sögur af því að það hafi gerst, þótt einhverjir hafi látið sjá sig. Það var reyndar notalegt að sjá að enginn hafði fundið hjá sér þörf til að mæta á þingpalla og hrópa í ofsafenginni bræði: Vanhæf ríkisstjórn! – og koma sjálfum sér í leiðinni í sjónvarpsfréttir.

Sumir finna kannski tilgang í því að leggjast í vegferð sem skilar engu. Þannig var með þessa vantrauststillögu Flokks fólksins og Pírata. Það var engin von til að hún fengist samþykkt. Ef tilgangurinn með henni var að reyna á samstöðu stjórnarliða þá var tímasetningin afleit. Það er nýbúið að uppfæra ríkisstjórnina og koma þar á sáttum, sem eru sennilega bara á yfirborðinu en munu samt halda í einhvern tíma. Einmitt þetta vita þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Miðflokksins, enda var vantrauststillagan ekki lögð fram í þeirra nafni, þótt þeir hafi auðvitað ekki getað annað en samþykkt hana í atkvæðagreiðslu. Þingmenn þessara flokka vita mætavel að ríkisstjórnin er handónýt og máttvana. Þeir vissu líka að ríkisstjórnin myndi ekki liðast í sundur þennan miðvikudag þegar mælt var fyrir vantrausti á hana.

Tillagan skilaði því kannski helst að leyfa ríkisstjórninni að grípa óvænt tækifærið og láta eins og hún væri samhent og samstiga. Vantrauststillagan gaf líka nýjum forsætisráðherra landsins, Bjarna Benediktssyni, tækifæri til að koma fram í sjónvarpsfréttum, yfirvegaður og rólegur, og lýsa því yfir að brýn mál biðu úrlausnar og stjórnarandstaðan væri að tefja fyrir þeim. Hann var merkilega landsföðurlegur á þessari stundu, manni fannst nánast eins og honum hefði tekist að snúa óþægilegri stöðu sér í hag. Ekki í fyrsta sinn sem það gerist.

Þetta langdregna leikrit hélt áfram fram á kvöld. Stjórnarliðar tóku vitanlega engum sinnaskiptum þótt messað væri yfir þeim um fólsku þeirra og erindisleysi. Meirihluti stjórnarandstöðunnar vissi að þessar umræður væru tilgangslausar og hrein tímaeyðsla. Þingmenn Flokks fólksins og Pírata voru fjarska stoltir af frammistöðu sinni og því að hafa tekið sér stöðu með kjósendum gegn óvinsælli ríkisstjórn. Þetta kvöld lagði almenningur hins vegar alls ekki við hlustir.

Allt hefur sinn tíma. Þessi vantrauststillaga var vanhugsuð, sett fram af hluta stjórnarandstöðunnar til þess eins að vekja athygli á sjálfri sér. Þetta var slæmt feilskot því nánast öllum öðrum stóð nákvæmlega á sama.