Því er miður að ekki hefur verið farið að tillögunni um að lögfesta inntak hugtaksins sjálfbær landnýting og kalla þannig fleiri til þátttöku í umræðunum.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Í stefnuskjalinu Ræktum Ísland! sem kom út síðsumars árið 2021 og lagt var til grundvallar landbúnaðarstefnunni sem alþingi samþykkti í byrjun sumars 2023 segir að inntak viðmiða við mat á sjálfbærri landnýtingu eigi að setja í lög. Í því efni verði að finna jafnvægi milli sjónarmiða þeirra sem nálgist viðfangsefnið frá sjónarhóli jarðvegs- og gróðurverndar annars vegar og beitarnýtingar hins vegar. Takist það verði lögfest samhæfð túlkun og beiting á hugtakinu meðal þeirra fjölmörgu stjórnvalda sem fara með valdheimildir í tengslum við nýtingu lands, aðilum landbúnaðarins til hagsbóta.

Bent er á að í lögum um landgræðslu megi finna ákveðnar vísbendingar um hvað felist í sjálfbærri landnýtingu en inntak hennar sé óljóst.

Réttmæti þessarar ábendingar kemur greinilega í ljós þegar lesnar eru ábendingar sem fram koma í umsögnum um drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu frá matvælaráðuneytinu sem lágu inni á samráðsgátt stjórnvalda í nokkrar vikur í janúar og febrúar 2024.

Alls bárust 82 umsagnir og langflestar mjög neikvæðar. Gagnrýnin snýr meðal annars að því að hugtakið sjálfbærni sé skilgreint of þröngt í drögunum. Samtök ungra bænda segja þrjár meginstoðir sjálfbærnihugtaksins (1) efnahagslegar, (2) félagslegar og (3) umhverfislegar. Efni reglugerðarinnar sé best lýst með því að sleppa orðinu sjálfbærni úr heiti hennar og kenna hana aðeins við landnýtingu.

Fjöldi umsagnanna sýnir mikinn áhuga á þessu efni enda snertir það framtíð byggðar í landinu auk margs annars. Því er miður að ekki hefur verið farið að tillögunni um að lögfesta inntak hugtaksins sjálfbær landnýting og kalla þannig fleiri til þátttöku í umræðum um málið á mótunarstigi þess. Væri það gert yrði afgreiðsla þessa máls jákvæðari og ekki alið á tortryggni í garð einstakra ákvæða eins og birtist í umsögnum í samráðsgáttinni.

Breyting hefur orðið á vistun þessa málaflokks í stjórnarráðinu síðan landgræðslulögin voru samþykkt árið 2018. Þá var málaflokkurinn undir forsjá umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Landgræðslan heyrði undir ráðuneytið við gerð reglugerðarinnar. Nú er málaflokkurinn í matvælaráðuneytinu og komin er til sögunnar ný stofnun, Land og skógur, sameinuð Landgræðsla og Skógrækt, sem tekur við reglugerðinni til úrvinnslu úr samráðsgáttinni.

Í reglugerðardrögunum er ekkert fjallað um skógrækt. Dregur þetta verulega úr gildi skjalsins þar sem að því er stefnt að 10% landsins verði skógi vaxin á næstu árum – víðfeðmari landnýting er vandfundin.

Til kynningar á því sem segir í umsögnunum má vitna í það sem fjallskilanefnd Fljótshlíðar í Rangárþingi eystra segir.

Nefndin minnir á að bændur hafi lagt mikið af mörkum við uppgræðslu á afréttum með ómældri sjálfboðavinnu og fjármunum. Reglugerðin ásamt viðaukum setji allt það starf í uppnám. Þess sé krafist að land yfir 600 metra hæð, með 20% æðplöntuþekju (fræplöntur og byrkningar) og 30% halla sé ekki nýtt til beitar. Telur fjallskilanefndin að með þessu einu sé komið í veg fyrir að stór hluti eigenda beitarréttar á afréttum landsins geti nýtt rétt sinn. Ekki sé hægt að girða af svæði sem falli undir þessa skilgreiningu.

Þá sé fjallað um „vistgetu“ eða vistkerfisþjónustu lands þótt óljóst sé hver hún eigi að vera. Talað sé um „viðmiðunarsvæði“, svæði sem endurspegla ástand lands eins og það ætti að vera að teknu tilliti til náttúrulegs rasks, án þess að gerð sé grein fyrir hver þau séu. Engin leið sé fyrir landeigendur að gera sér grein fyrir hvaða áhrif reglugerðin hafi varðandi nýtingu landsins. Þar ráði óljós, matskennd og huglæg sjónarmið sem úttektaraðilar hafi hverju sinni.

Samtök ungra bænda benda á að hófleg beit í halla geti styrkt rótarkerfi þeirra plantna sem þar eru og dregið þannig úr hættu á skriðuföllum og rofi. Þá auki hófleg beit einnig líffræðilega fjölbreytni og ýti frekar undir þekju æðplantna. Víða erlendis séu beitardýr markvisst notuð til að viðhalda ákveðnu landslagi og halda niðri óæskilegum gróðri. Þá kunni hófleg beit að auka bindingu kolefnis í jörðu.

Samtökin vara eindregið við að sett sé reglugerð með óljósan ramma og ómælanleg markmið. Reglugerðir eigi aldrei að vera svo óskýrar og óljósar að einstaklingsbundin túlkun ráði hvernig þeim sé framfylgt.

Við skjóta athugun á úrtaki umsagna sést að markmiðið sem felst í sjálfbærri landnýtingu nýtur stuðnings. Leiðin að því veldur hins vegar ágreiningi. Það er óhjákvæmilegt að stofnað sé til mun meira samráðs um leiðina. Nú birtist hún mörgum sem óvissuferð þar sem umferðinni er stjórnað að geðþótta eftirlitsmanna í krafti viðmiða sem þeir setja sjálfir.

Miðað við viðtökur bænda er með reglugerðinni unnið gegn byggðafestu. Hún er hins vegar hátíðlegt markmið byggðastefnu stjórnvalda, ekki síst þar sem sauðfjárrækt er stunduð.

Þegar opinberum áformum um sjálfbæra landnýtingu er hrundið í framkvæmd er ekki aðeins nauðsynlegt að stilla saman strengi þeirra sem eiga allt sitt undir skynsamlegri landnýtingu eins og bændur heldur verða æðstu stjórnvöld einnig að ganga í takt.

Ný mælitækni og svonefndur nákvæmnisbúskapur auðveldar allt eftirlit með nýtingu lands. Hátæknifjós sýna að bændur óttast ekki nýsköpun. Það ber að hvetja til hennar af meiri þunga í sauðfjárrækt með stafrænum girðingum og GPS-ólum. Í stað þess að setja landbúnaðinn í meiri reglufjötra á að nýta sveigjanleika og frelsi sem tæknin veitir.