Vinnuskólinn Fjölbreytt störf bíða nemenda skólans í sumar.
Vinnuskólinn Fjölbreytt störf bíða nemenda skólans í sumar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Borgarráð hefur samþykkt hækkun á tímakaupi nemenda Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2024. Vinnuskólinn í Reykjavík er stærsti vinnuveitandi ungs fólks á landinu. Meginhlutverk hans er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg…

Borgarráð hefur samþykkt hækkun á tímakaupi nemenda Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2024.

Vinnuskólinn í Reykjavík er stærsti vinnuveitandi ungs fólks á landinu. Meginhlutverk hans er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg sumarstörf og fræðslu í öruggu starfsumhverfi, segir í kynningu.

Laun nemenda Vinnuskólans eru fest við launaflokk 217 (grunnlaunaflokkur í kjarasamningi Sameykis og Reykjavíkurborgar), dagvinnukaup 2.555 kr. á klst.

Nemendur í 8. bekk fá greidd 30% af launaflokki 217, nemendur í 9. bekk 40% af launaflokki 217 og nemendur í 10. bekk 50% af launaflokki 217:

• Tímakaup nemenda úr 8. bekk hækkar úr 711 kr. í 766,5 kr.

• Tímakaup nemenda úr 9. bekk hækkar úr 947 kr. í 1.022 kr.

• Tímakaup nemenda úr 10. bekk hækkar úr 1.184 kr. í 1.277,5 kr.

Hækkunin á tímakaupi nemur um 7,9%. Í fjárhagsáætlun eru rúmlega 268 milljónir á launalið nemenda en með hækkun launataxta og áætluðum fjölda nemenda fyrir sumarið 2024, 3.000 nemendur, þarf að sækja um hækkun á launalið um 21 milljón.

„Þessar hækkanir sem hér eru lagðar til fylgja sömu aðferðafræði og notast er við í æ fleiri sveitarfélögum/vinnuskólum í dag, þ.e. hlutfallstengingu við lægsta launaflokk í kjarasamningi sveitarfélags og viðkomandi stéttarfélags. Með þessum hætti verða laun nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur sambærileg við laun í flestum vinnuskólum höfuðborgarsvæðisins,“ segir í greinargerð skólastjóra Vinnuskólans. sisi@mbl.is