Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Dísella Lárusdóttir sópran verður sérstakur gestur Karlakórs Reykjavíkur á árlegum vortónleikum í Langholtskirkju 24., 25. og 27. apríl í næstu viku. „Ég hef ekki áður sungið með kórnum en það er mjög gaman að syngja með karlakórum og ég er sérlega spennt.“
Tónlist hefur verið ríkur þáttur í lífi Dísellu. Hún segir að faðir sinn, Lárus Sveinsson trompetleikari, hafi samt ekki viljað að hún fetaði sömu braut. „„Ekki verða tónlistarmaður, gerðu það fyrir mig,“ sagði hann ítrekað við mig,“ segir hún. Hann hafi varað sig við harkinu sem fylgdi tónlistinni og því hafi hún aldrei ætlað sér að fara út í þennan undarlega tónlistarheim. „Ég ætlaði að finna mér eitthvað „skynsamlegra“ að gera.“
Fjölhæf
Málin þróuðust samt á annan veg. Díesella spilaði á píanó og trompet og var einstaka sinnum meðleikari á píanó hjá blönduðum kór sem faðir hennar stjórnaði. „Þegar sungið var án undirleiks bað hann mig stundum að syngja með sópraninum með þeim orðum að ég væri „með helvíti góða rödd“, afsakið orðbragðið en hann orðaði þetta svona. Það var svo hann sem sagði mér að fara í söngnám.“
Þrátt fyrir þessa stöðu segist Dísella hafa reynt að verða ekki tónlistarmaður. Eftir stúdentspróf hafi hún tekið sér ársfrí frá frekara námi og farið að vinna. „Allt í einu stóð ég mig að því í einu hádegishléinu að slá inn númerið hjá Söngskólanum í Reykjavík og biðja um inntökupróf. Stuttu seinna var ég farin að syngja popplög með Gunnari Þórðarsyni á Broadway og þegar pabbi féll frá skömmu síðar ætlaði ég mér að verða söngkona og gerði það.“
Til nánari útskýringar segir Dísella að Gunnar hafi eiginlega tekið sig að sér. „Þegar ég missti pabba var Gunni verndarengill fyrir mig. Mér fannst svo gott að vera í því umhverfi og hugsaði með mér að ég vildi verða poppsöngkona.“ Í þeim heimi hafi hún samt verið hvött til að fara í klassíkina. „„Það er svo töff,“ var sagt við mig. Nú hljóma ég eins og ég geti aldrei tekið ákvarðanir og það er frekar nákvæmt. Ég er fiskur og fylgi mikið straumnum, á erfitt með að taka ákvarðanir en þetta bara gerðist.“
Eftir útskrift úr Söngskólanum 2002 fór Dísella í meistaranám í Bandaríkjunum og útskrifaðist 2005. Hún stóð sig vel vestra og fékk meðal annars samning hjá Metropolitan-óperunni í New York. Hún hefur sungið víða, meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands og í undankeppni Júróvisjón. Fyrir tveimur árum fékk hún Grammy-verðlaunin fyrir bestu óperuupptökuna. „Mér finnst skemmtilegast að syngja í hverju verkefni á þeim tíma sem ég tekst á við það. Það er svo gaman þegar maður er kominn í nýtt verkefni og þá set ég hug og hjarta í það. Mjög gaman er að syngja eitthvað krefjandi á óperusviði. Munurinn er sá að þar þarf ég að vera einhver annar, en nú fæ ég að vera ég sjálf með þessum skemmtilegu körlum og Lenku Mátéóvá stjórnanda. Það finnst mér skemmtilegast núna.“