[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú veit ég ekki hvað það var sem lét mig byrja að lesa aftur þetta árið. Hvort það var einhver sérstök þörf fyrir meiri vitneskju þar sem ég er ekki lengur í námi, eða kannski vegna þess að allt í einu eru hversdagarnir svo svipaðir að mann langaði…

Nú veit ég ekki hvað það var sem lét mig byrja að lesa aftur þetta árið. Hvort það var einhver sérstök þörf fyrir meiri vitneskju þar sem ég er ekki lengur í námi, eða kannski vegna þess að allt í einu eru hversdagarnir svo svipaðir að mann langaði að kíkja inn í aðra heima? Það er erfitt að segja, en eitthvað kitlaði mig og ákvað ég því að setja mér markmið.

Á þessu ári skyldi ég lesa tvær bækur á mánuði og minnka því þennan ofsakláða innra með mér. Nokkrar mínútur settar til hliðar í morgunsárið, aðrar í strætó og auðvitað fyrir svefninn. Allt telur.

Skrifandi hér heima á náttfötunum, uppi í sófa, get ég með miklu stolti sagt að nú hef ég lokið tíu bókum á þessu ári. Hvorki meira né minna. Og það tíu mjög góðum bókum. Bókum sem ég myndi mæla með, hverri einni og einustu, jú, nema einni. Ekki lesa The Idiot eftir Elif Batuman! Bókin hefur verið þvílíkt lofuð, titluð sem afbragðs lesefni, en Jesús minn heilagur hvað mér leiddist sagan. Ég drattaðist þó fram að síðustu blaðsíðunni og kallaði mig góða að gefast ekki upp. Svo þú, kæri lesandi, skalt ekki eyða tíma þínum í þá bók.

Hins vegar get ég mælt með The Bell Jar. Hún Sylvia Plath skrifar afskaplega fallega og þótt sagan sé svört og efnið erfitt, þá nær hún að fanga hráan veruleika kvenna einstaklega vel.

Næst tók ég upp 21 Lessons from the 21st Century eftir Yuval Noah Harari. Sá lestur reyndist áhugaverður og vakti mig til mikillar umhugsunar, þá sérstaklega því bókin kom út árið 2018 og óþægilegt að sjá hversu margar af framtíðarspám Yuval hafa nú þegar ræst.

Ég ligg svo núna yfir síðustu blaðsíðunum í bókinni Glæp og refsingu eftir Dostojevskí. Mikið sem við getum verið þakklát fyrir að lifa á 21stu öldinni en ekki á myrkum dögum Rússlands 1860. Það er þó áhugavert að skyggnast inn í þann heim og þá sérstaklega eftir glæp Raskolnikovs. Myndi þitt sjálf meika morð ef þú kæmist upp með það? Eða færi samviska þín líka fram úr þér?