Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Ársreikningur þjóðkirkjunnar fyrir 2023 sýnir að afgangur varð af rekstrinum sem nemur 166 milljónum króna.
Þjóðkirkjan hefur verið rekin með umtalsverðum halla mörg undanfarin ár. Árið 2020 var hallinn 687 milljónir, árið 2021 var hann 307 milljónir og 2022 58 milljónir.
Birgir Gunnarsson framkvæmdastjóri þjóðkirkjunnar segir að einn stærsti sparnaðarliðurinn á síðasta ári hafi verið að skrifstofurnar voru fluttar í annað og ódýrara húsnæði.
„Við vorum áður í húsnæði í Katrínartúni sem við framleigðum til ríkisins og erum nú laus af þeim leigusamningi frá og með síðustu áramótum. Þjónustumiðstöðin er núna tímabundið á tveimur stöðum. Biskupsstofa er í Grensáskirkju og rekstrarstofan er á Suðurlandsbraut og svo förum við í sameiginlegt húsnæði í Borgartúni nú í maí, sem er leiguhúsnæði,“ segir Birgir.
Laun og launatengd gjöld eru langstærsti útgjaldaliðurinn en þessi liður hækkar á milli ára. Launakostnaður er u.þ.b. 70% af heildarútgjöldum. Heildarfjöldi starfsmanna í lok árs 2023 var 163 í 157 stöðugildum. Störfin skiptast þannig að 135 starfsmenn í 132,2 stöðugildum heyra undir vígða þjónustu og 28 starfsmenn í 25 stöðugildum tilheyra þjónustumiðstöð. Samkvæmt sjóðstreymisyfirliti er handbært fé í árslok 1.179,1 m.kr. en var í ársbyrjun 841,3 m.kr. Handbært fé hækkaði því um liðlega 337,8 m.kr. á milli ára og hefur því nánast tvöfaldast á tveimur árum. Handbært fé frá rekstri nam 97,6 m.kr. Hrein eign félagsins í árslok nam 3,9 mö.kr.
Aðrar tekjur upp á rúmlega 140,7 m.kr. eru vegna sölu eigna. Birgir leggur áherslu á að sala fasteigna sé einskiptistekjur og leysi ekki rekstrarvanda þjóðkirkjunnar til framtíðar.
„Við höfum selt prestsbústaði í þéttbýli. Þetta eru breyttir tímar frá því bústaðir voru útvegaðir fyrir lækna, skólastjóra, kennara, bæjarstjóra, sýslumenn og þess háttar. Kirkjuþing mótaði þessa stefnu og það hefur gengið vel að selja þessar eignir.“
Aðspurður um söluna á Kirkjuhúsinu á Laugavegi á sínum tíma segir Birgir: „Það var reyndar fyrir mína tíð og húsið var komið á þann stað viðhaldslega að það þótti skynsamlegt að selja það, enda er búið að endurbyggja það sjálfsagt fyrir mikla peninga.“
Birgir telur heppilegra fyrir þjóðkirkjuna að leigja hagkvæmt húsnæði en að eiga og þá um leið bera ábyrgð á viðhaldi og rekstri bygginganna.
Spurður um skuldastöðu kirkjunnar segir Birgir að handbært fé hafi aukist á milli ára og langtímaskuldir séu engar. Þær skuldir sem koma fram í efnahagsreikningi séu kröfur sem detta yfir áramót.
Eignarhald á kirkjum
Flestar í eigu og rekstri sóknanna
Almennt eru kirkjur landsins ekki í eigu þjóðkirkjunnar. Flestar kirkjur eru í eigu sóknanna og reknar af þeim. Dómkirkjurnar í Reykjavík og á Hólum í Hjaltadal eru í eigu ríkisins. Þjóðkirkjan á hins vegar margar jarðir og kirkjustaði.
Sem dæmi þá á þjóðkirkjan jörðina Reykholt í Borgarfirði en kirkjan er í eigu sóknarinnar. Kirkjuþing hefur mótað þá stefnu að selja prestsbústaði í þéttbýli en eiga áfram jarðirnar.
Breytingar hafa verið gerðar á þann hátt að tekjur af hlunnindum sem áður runnu til viðkomandi sóknarpresta renna nú til þjóðkirkjunnar. Það stendur því ekki til að selja jarðirnar heldur hafa af þeim tekjur.
Skálholtskirkja er eina kirkjan í eigu þjóðkirkjunnar. Á síðasta ári var hitaveitan í Skálholti endurnýjuð og áfram unnið að viðgerð og endurnýjun innandyra.