Lilli Tígur er mættur aftur til leiks í seríu tvö hjá hjá Þórhildi Stefánsdóttur og syni hennar Gretti Thor, en þeim hefur borist liðsauki. Vinkona Þórhildar, Fanný Ragna Gröndal, og fjögurra ára dóttir hennar Elma Örk eru nú hluti af teyminu sem lætur Lilla Tígur lifna við á ný.
Grettir sá um söguna
Mörg börn og foreldrar þekkja Lilla Tígur úr fyrstu seríu en fyrir ykkur sem þekkið hann ekki rifjar Þórhildur upp upphaf sögunnar.
„Ég var í fæðingarorlofi með dóttur okkar þegar Grettir var fimm ára. Hún svaf svo vel og lengi að mér datt í hug að byrja á barnaefni, en Grettir var alltaf að leika sér með dýr í gluggakistunni og bjó til alls konar sögur. Hann hefur alltaf verið skýr krakki með mikið ímyndunarafl,“ segir Þórhildur sem hófst handa við að búa til litla hreyfimynd gerða úr ljósmyndum.
„Ég hafði aldrei notað „stop motion“-aðferðina við gerð myndbanda áður svo það er pínu tilviljunarkennt hvernig þetta byrjaði allt saman og hefur þróast,“ segir hún og útskýrir að með því að taka hundruð mynda og skeyta saman verði til hreyfimynd. Í einum þætti eru um 700 ljósmyndir.
„Grettir byrjaði að búa til sögu sem varð mjög skemmtileg. Það endaði með því að mamma og pabbi Lilla Tígurs dóu á annarri mínútu, en lifnuðu reyndar við í fimmta þætti. Gretti fannst allt í einu leiðinlegt að Lilli Tígur væri að ferðast um allan heiminn foreldralaus þannig að hann ákvað að hýenan hefði bjargað þeim, þótt það sæist ekki í mynd,“ segir Þórhildur og hlær.
„Mér fannst mjög gaman að leika með dýr þegar ég var fjögurra ára og fimm,“ segir hinn sex ára gamli Grettir Thor Árnason.
„Nú finnst mér eiginlega mest gaman að gera vídeó. Ég fæ hugmyndirnar og læt Lilla Tígur lenda í ævintýrum. Stundum er pínu erfitt að talsetja,“ segir Grettir, sem hefur ákveðið að verða fótboltastjarna hjá Breiðabliki þegar hann verður stór, auk þess að halda áfram að búa til myndbönd.
„Ég deildi þessu fyrsta myndbandi á Facebook og fékk mjög góð viðbrögð. Ég frétti að þessu hefði verið deilt inn í alls konar hópa og fólk spurði hvort það kæmi ekki meira,“ segir Þórhildur og segist þá hafa fengið þá hugmynd að sækja um styrki á Karolina Fund til að geta búið til heila seríu.
Fólk hafði trú á okkur
Þórhildur segir mestu vinnuna fólgna í eftirvinnslunni.
„Ég hef gert mikið af myndböndum, tekið myndir og unnið á ýmis forrit í gegnum tíðina, hef unnið á auglýsingastofu og í markaðsteymi hjá fyrirtækjum og stofnunum svo ég þekki þennan heim vel,“ segir Þórhildur og bætir við að á bak við hvert atriði og vídeó um Lilla Tígur sé mikill tími og vinna sem fólk geri sér ekki alltaf grein fyrir.
„Við náðum settu marki á Karolina Fund og söfnuðum sex hundruð þúsund krónum, sem varð til þess að ég gat farið af stað þótt tímakaupið væri hrikalegt,“ segir hún og brosir.
„En það var gaman að sjá að fólk hafði trú á okkur og vildi leggja okkur lið því annars hefði ég ekki gert þetta, en í fyrstu seríunni eru tíu þættir. Snemma í ferlinu hafði Stöð 2 samband og vildi kaupa sýningarréttinn þegar serían yrði tilbúin. Og þau vildu alltaf hafa Gretti með á öllum fundum, sem mér þótti sérstaklega vænt um og er eftirminnilegt fyrir hann,“ segir Þórhildur, en þættirnir eru nú í línulegri dagskrá og á vefsjónvarpi Stöð 2 og á YouTube.
„En svo þegar ég var að klára seríuna var ég alveg að fá nóg því það er svo leiðinlegt að vera einn í skapandi starfi,“ segir Þórhildur, en þá kom Fanný til skjalanna, ásamt Elmu, sem þykir, eins og Gretti, óskaplega gaman að vinna við gerð myndbandanna um Lilla Tígur.
Fræðsla og boðskapur
Þórhildur og Fanný, sem er hjúkrunarfræðingur, eru bestu vinkonur en þær kynntust á Þjóðhátíð 2012 og smullu saman. Síðar fæddust börnin sem nú vinna með mæðrum sínum að gerð þáttanna um Lilla tígur.
„Bæði Grettir og Elma eru mjög skapandi,“ segir Þórhildur og segir þær Fanný strax hafa hafið aftur söfnun á Karolina Fund fyrir seríu tvö. Söfnunin gekk glimrandi vel og náðist takmarkið undir lok söfnunarinnar og hófust þær þá handa við gerð seríunnar, en tæp milljón safnaðist.
„Lilli Tígur er enn í aðalhlutverki og Grettir, Elma og aðrir áhugasamir krakkar sem eiga foreldra sem styrktu á Karolina Fund talsetja með okkur,“ segir Þórhildur og segir Lilla Tígurs-þættina hafa slegið í gegn hjá yngstu kynslóðinni. Þær segjast báðar hafa heyrt að foreldrar séu mjög ánægðir.
„Þarna er verið að nota raunverulegt dót og krökkunum finnst svo gaman að nota leikföngin sín til að skapa,“ segir Fanný.
„Við vinnum söguþráðinn í samvinnu við börnin okkar og í hverjum þætti kennum við krökkum leiki; inni- og útileiki,“ segir Þórhildur og segir að kveikjan að því að sýna leiki í þáttunum hafi meðal annars verið að útivera barna hefur minnkað með meiri skjátíma barna og afþreyingu innandyra en áður.
„Í þáttunum leggjum við þess vegna áherslu á að hafa einn eða tvo leiki og hugmyndir í hverjum þætti, sem kennir og minnir börnin á alla skemmtilegu leikina sem hægt er að fara í,'' segir Þórhildur.
„Munurinn á þessari seríu og þeirri fyrstu er að núna erum við að reyna að koma leikjum, fræðslu og boðskap inn í hvern þátt og það er alveg toppurinn ef við fréttum af því að einhverjir krakkar vilji slökkva á Lilla Tígri því hann hafi verið að kenna þeim leik sem þau vilja fara í. Hugmyndafræðin að baki þáttunum er svolítið þessi; að virkja börn í leik og kenna þeim leiki frekar en að halda þeim við skjáinn og að þau horfi á hvern þáttinn á fætur öðrum,“ segir Fanný.
„Grettir er kominn í skóla þannig að við erum líka með lestur. Grettir segir aðeins frá orðunum og stafar til dæmis orð litanna,“ segir Þórhildur og nefnir að vinsældir þáttanna séu mestir hjá aldurshópnum tveggja til fjögurra ára en þeir ættu einnig að höfða til eldri barna.
„Í þessari seríu er því margslunginn boðskapur. Við erum að kenna leiki, litina og það er verið að lesa fyrir þau,“ segir Þórhildur og Fanný bætir við að komið sé inn á flokkun rusls til dæmis í næsta þætti. Vinnan gengur vel og segjast þær hálfnaðar með seríuna.
Að búa til barnaefni
Vinkonurnar vita fátt skemmtilegra en að vinna saman að þessari listsköpun og gætu vel hugsað sér að vinna saman að fleiri verkefnum.
„Það væri draumurinn; að vinna að eilífu við að skapa,“ segir Fanný og hvetur aðra foreldra til að búa til barnaefni með börnum sínum.
„Fanný er í raun miklu meiri listakona en ég. Hún heklar dýr og teiknar og málar myndir þannig að við erum komnar með ýmsar hugmyndir. Fanný kemur sterk inn í leikmyndina því ég er enginn föndrari í mér. En grunnurinn að þessu öllu er sá að okkur finnst ekki nógu mikið til af góðu og vönduðu barnaefni,“ segir Þórhildur.
„Við erum komnar með hugmynd að seríu þrjú sem er kannski aðeins flóknari og dýrari. Okkur langar að hafa Lilla tígur og starfsheitin, þannig að hver þáttur sé um ákveðið starf. Einn þáttur gæti verið um bónda, annar um hjúkrunarfræðing og svo framvegis og Lilli Tígur forvitnast um störfin og fær að vita ýmislegt sem börnin geta lært og skemmt sér yfir og jafnvel víkkað út hugmyndir þeirra um það hvað þau vilja verða þegar þau verða stór,“ segir Fanný.
„Við erum alltaf að fá nýjar hugmyndir!“ segir Fanný og segir þær báðar dreyma um að gera þáttagerðina að aðalstarfi.
„Að búa til barnaefni væri draumurinn, og þá jafnvel í stærra teymi,“ segir Þórhildur.
Yngra barn Þórhildar, Gríma, tveggja ára, er farin að leggja þeim lið.
„Hún er farin að talsetja smávegis og veit alveg hvað það þýðir þegar ég set upptökutækið fyrir framan hana, hún veit að það fer inn á vídeó sem við horfum svo á í sjónvarpinu. Ég hugsa að Baldvin sonur Fannýjar detti inn í talsetningu núna þegar hann verður orðinn tveggja ára, sem er einmitt í lok apríl.“
Þegar Lilli Tígur týndist
Lilli Tígur er greinilega kominn til að vera og verður örugglega áfram aðalpersóna sem gleður litlu börnin með uppátækjum sínum. Þórhildur segir að þau eigi aðeins einn Lilla Tígur og eitt sinn hafi hann týnst. Allir voru í sjokki, en hann fannst ekki aftur fyrr en eftir langa leit.
„Við fengum létt áfall og ég svaf ekkert sérstaklega vel í nokkrar vikur. Lilli Tígur var það fyrsta og síðasta sem ég hugsaði um þegar ég sofnaði og vaknaði. Svo fann Árni Thor pabbi Grettis hann á botninum í perluboxi einn daginn eftir að hann gerði markvissa leit um allt hús. Hann týndist rétt áður en RÚV kom í heimsókn og ef vel er að gáð má sjá að það er ekki Lilli Tígur sem sést þar í mynd,“ segir Þórhildur sposk á svip.
„Ef einhver á alveg eins plastdýr værum við til í að kaupa hann af viðkomandi, en Lilli Tígur er tígrisplastdýr frá þýska framleiðandanum Schleich. Og hann verður auðvitað að hafa sama andlitið og okkar Lilli tígur. Við höfum leitað logandi ljósi að öðrum en finnum ekki.“
Verður Lilli Tígur alltaf lítill eða verða seríur þar sem hann er orðinn fullvaxta tígur?
„Þú ert kannski búin að gefa okkur hugmynd að fjórðu seríu!“ segir Fanný og hlær.
„Lilli Tígur verður einhvern tímann stór eins og öll lítil tígrisdýr,“ segir Grettir að lokum.