Brynhildur Bjarnadóttir fæddist 26. mars 1946. Hún lést 25. mars 2024.

Útför Brynhildar fór fram 16. apríl 2024.

Brynhildur og Guðmundur bjuggu við hlið okkar hjóna í raðhúsi í Hafnarfirði í tæp tíu ár. Þau voru góðir nágrannar.

Strax við fyrstu kynni fundum við að þar var góðu fólki að mæta. Eftir að við höfðum komið okkur fyrir var yngsti sonur okkar, 4 ára snáði, mættur á bílaplanið við hliðina til skoða bátinn sem þar stóð og spjalla við hinn haga Guðmund sem þar nostraði við þessa eign sína. Auðvitað fékk hann að fara um borð og skoða allt og marga stundina átti hann með Guðmundi við þennan bát. Brynhildur hafði gaman af og segir ekki nánar frá því en að Brynhildur og Guðmundur urðu miklir vinir okkar; til þeirra gátum við leitað með alls konar aðstoð eins og gerist milli nágranna og Brynhildur fól okkur að passa kisu sína þegar þau hjónin stigu upp í húsbíl sinn og óku út í sumarið. Kaffisopar voru drukknir hvort hjá öðru og öll nutum við samvistanna. Oft barst talið að lífinu í sveitinni eins og það var áður fyrir vestan í Arnarfirði eða norður á Melrakkasléttu. Handtak hjá öðru hvoru okkar skilaði sér í því sama og deilur eða missætti öllu fjarri.

Þegar litli strákurinn, sem skoðaði bátinn hjá Guðmundi fermdist bauðst Brynhildur til að hjálpa til við matreiðsluna, sagðist hafa ákveðið það löngu áður. Við þáðum það með miklum þökkum. Við vissum að Brynhildur var einstök matmóðir, jafnt í eigin eldhúsi sem í stórum mötuneytum þar sem hún vann til margra ára. Allt gekk þetta eftir svo sómi var að. Þegar við fluttum úr Hafnarfirði þótti okkur hvað sárast að kveðja þessa nágranna okkar – vissum að lengra yrði á milli og tæki fyrir dagleg samskipti. Brynhildur bauð í mat er við héldum á brott með síðustu kerruna og tilfinningar brutust fram.

Það var ánægjulegt er þau hjónin birtust á húsbíl sínum norður í Nýhöfn eitt sumarið. Þótt stansið væri stutt gátum við sýnt þeim staðinn okkar þar og umhverfið sem við erum svo stolt af.

Elskulegum dætrum þeirra kynntumst við að sjálfsögðu. Með þessum fáu orðum viljum við votta Guðmundi, dætrum þeirra og fjölskyldum okkar einlægustu samúð vegna andláts Brynhildar og þökkum af alhug öll kynni og samverustundir.

Guð blessi og varðveiti Brynhildi og minningu hennar.

Kristjana og Níels Árni.