Pálhildur Sumarrós Guðmundsdóttir fæddist 30. maí 1935 í Reykjavík. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 9. apríl 2024.

Foreldrar Pálhildar voru Finnborg Helga Finnbogadóttir, f. 29.4. 1903, og Guðmundur Pálsson, f. 28.9. 1900. Pálhildur átti tvær systur og þrjá bræður, Ólöfu Erlu, Engilráð Ólínu, Jóhann, Anton og Sigurð. Hún var sú síðasta af systkinunum sem lést.

Hinn 24.12. 1953 giftist Pálhildur eiginmanni sínum, Jóni Inga Júlíussyni, f. 24.12. 1932, d. 2.8. 2020, og eignuðust þau sex börn. Þau eru: 1) Erla Lóa, f. 29.6. 1952, gift Jóhannesi Georgssyni og eiga þau einn son, Jónas Atla. Erla var gift áður Magnúsi Indriðasyni (látinn) og eignuðust þau tvo syni, Pál Inga og Magnús Braga (látinn). Hún á þrjú stjúpbörn, sjö barnabörn og sex stjúpbarnabörn. 2) Lúðvík Júlíus, f. 11.11. 1953, og á hann tvo syni, Guðmund Brynjar og Magnús Má. Hann á fjögur barnabörn. 3) Finnborg Laufey, f. 23.12. 1954, gift Eysteini Haraldssyni og eiga þau fjögur börn, Kristin Jón, Axel Þór, Bjarka Pál og Eydísi Lilju. Þau eiga ellefu barnabörn. 4) Jón Ingi Guðmundur, f. 22.8. 1961, giftur Ástbjörgu Lilju og eiga þau þrjú börn, Erlend Inga, Davíð Örn og Jón Inga. Þau eiga átta barnabörn. 5) Halldór Pálmar, f. 19.1. 1968, giftur Þóru Möller og eiga þau fjögur börn, Sigrúnu Ósk, Anton Bjarna, Árna Þórð og Hildi Rós. Þau eiga tvö barnabörn. 6) Sigrún Stefanía, f. 22.7. 1969, gift Oddgeiri Má Sveinssyni (látinn). Þau eignuðust þrjú börn, Eystein Fannar, Írisi Önnu og Stefán Má. Hún á fjögur barnabörn.

Pálhildur vann ýmis störf, bæði sem húsmóðir og verslunarmaður. Árið 1969 hófu þau hjónin sinn eigin rekstur á kjötversluninni Kjöthúsinu Ásgarði fram til ársins 1985.

Hún starfaði einnig á kaffistofu Kjarvalsstaða og sem barþjónn í Glaumbæ um helgar. Þau héldu áfram með kjötvinnslu og prjónastofu í húsnæðinu í nokkur ár eftir að þau hættu með verslunina. Hún starfaði ásamt eiginmanni sínum í kjötborðinu í Miklagarði og svo til starfsloka í kjötborðinu í versluninni Nóatúni.

Útför hennar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 22. apríl 2024, klukkan 11.

Á hverjum degi heimurinn á fætur ætíð fer

hversdagslegur vaninn lætur ekki hæða að sér.

Vanabundin hringrás lífsins veitir okkur skjól

venjan okkar öryggi er förum
við á ról.

Lífsklukkan í brjóstum okkar tifar hægt og hljótt

við vitum það að eftir bjartan daginn kemur nótt.

Enginn væri regnboginn ef ekkert félli regn

engin litafegurð brytist sólin ekki í gegn.

Þannig er víst tilveran og þannig þrífumst við

þekkjum okkar takmörk vel og lífsins mörgu svið

sorg og gleði systurnar sem fylgjast alltaf að

órjúfanleg heild sem hvorki spyr um stund né stað.

Í vantrú meltum það að mamma fallin sé nú frá

um stund þá staðnar tilveran og verður dimm og grá

því einmitt þessi mamma sem að kvaddi um óttubil

í þessu lífi hefur bara alltaf
verið til.

Sálin verður auð og tóm og tíminn staldrar við

stundin myrka þykk og þung en svo fer allt á skrið.

Tárin streyma niður kinn og kökkurinn er sár

með eftirsjá í huga þökkum öll
hin góðu ár.

Minningarnar sækja á og margt um hugann fer

myndir birtast endalaust í hugum okkar hér.

Tregablandnar tilfinningar togast á um stund

tárvot augun myndrænt skoða margan gleðifund.

Nú aldan brotnar mjúklega við Sumarlandsins strönd

sólarlagið litar birtu nýja
sjónarrönd

um sveitina ber golan hljóðlát fréttina um það

að nú sé pabbi kominn heim á æskudraumastað.

(Bergljót Hreinsdóttir.)

Hún mamma okkar er lögð af stað í ferðina sem við öll förum, ferðina í sumarlandið þar sem ríkir eilíft sumar og þar sem engin veikindi eða erfiðleikar eru til. Nú er hún komin til pabba sem hefur tekið vel á móti henni og þau loksins sameinuð á ný. Mamma fæddist í Reykjavík 30. maí árið 1935 og var hún á áttugasta og níunda ári þegar hún lést.

Nú er hún komin með prjónana í hendurnar og farin að prjóna og hlustar á pabba spila á nikkuna sína. Henni þótti mjög notalegt að sitja og hlusta á pabba spila og samdi hann lag til hennar sem heitir Kveðja til Pöllu.

Mamma var við hlið pabba á mörgum harmonikkuæfingum og þá var hún oft búin að baka og laga kaffi eða fór með honum á harmonikkuböll og harmonikkuhitting með þjóðdansafélaginu þar sem hún skartaði íslenska þjóðbúningnum sínum.

Við Apavatn reistu hún og pabbi sér fallegan bústað árið 1995 þar sem við dvöldum löngum stundum og þar voru ræktaðar kartöflur og stutt í berjamó.

Alltaf var mamma tilbúin að baka pönnukökur eða ömmukökur eins og barnabörnin sögðu alltaf, þegar við komum í heimsókn.

Mamma vann með pabba í kjötversluninni Kjöthúsinu í Ásgarði og voru yngstu börnin Halldór og Sigrún meira og minna með þeim í búðinni, hún í burðarrúminu í kompunni, hann í kassa á búðargólfinu! Að þessu höfum við oft hlegið en þau mamma og pabbi voru vinnusöm og verkglöð svo uppeldið fór bara fram þar sem þau voru stödd hverju sinni!

Alltaf var mamma mjög gjafmild og vildi alltaf öllum vel. Hún var alltaf í góðu samabandi við systrabörn sín í Bandaríkjunum og þau tóku henni eins og sinni eigin móður.

Elsku besta mamma, okkar frábæra fyrirmynd og vinur, takk fyrir allt, við sjáumst öll seinna, í Sumarlandinu góða.

Við viljum senda okkar þakklæti til starfsfólksins á hjúkrunarheimilinu Ási fyrir sérstaklega góða umönnun síðustu mánuðina.

Erla Lóa, Lúðvík, Finnborg, Jón Ingi, Halldór og Sigrún Jónsbörn.

Nú hefur elsku amma mín loksins hvíldina sem hún átti skilið.

Ég og amma mín vorum ekki blóðskyldar en hún var amma bræðra minna og tók mér alltaf sem barnabarninu sínu. Ég upplifði aldrei að hún elskaði mig minna en þá. Jafnvel þegar ég var á slæmum stað í lífinu og leiddist út á ranga braut hefði hún alveg getað lokað á mig en hún var alltaf til staðar og í gegnum mína baráttu vorum við reglulega í símasambandi. Amma var ekkert að spá í hvernig ástandið á mér var, fyrir henni var ég bara barnabarnið hennar og það breyttist aldrei.

Oft áttum við símtöl þar sem ég sagði henni frá því þegar lífið var ekki beint dans á rósum en hún studdi mig.

Alveg eins og ég reyndi eftir bestu getu síðustu mánuðina hennar. Við áttum alltaf heiðarleg samtöl og ég sagði henni allt á milli himins og jarðar og hún bara hlustaði og gaf mér svo ráð. Hún varð aldrei leið á að hlusta á mig og í hvert skipti sem ég hringdi í hana sagði hún „mikið svakalega er gott að heyra í þér“ þó svo að síðasta símtal hefði átt sér stað tveimur dögum áður.

Amma mín var einstök kona, hún var alltaf að segja mér hversu stolt hún væri af mér og börnunum mínum.

Mér þykir svo leiðinlegt að hún fái ekki að sjá litla drenginn minn vaxa og þroskast hérna hjá okkur en ég veit að hún fylgist með. Ég mun svo halda minningunni á lofti, segja honum frá henni. Allar skemmtilegu sögurnar sem ég á af henni, afa og okkur saman.

Skyldleiki skiptir ekki alltaf máli, amma Palla var amma mín og að hafa fengið þann heiður að vera barnabarnið hennar er ómetanlegt. Hún bar engar skyldur gagnvart mér en alltaf fékk ég að vera barnabarnið hennar.

Ég er fullviss um það að hún sé með afa núna sem hún hafði saknað svo mikið og það veitir mér hlýju að hugsa til þess hvernig hann hefur tekið á móti henni.

Elsku amma Palla, takk fyrir að vera amma mín, takk fyrir öll símtölin, takk fyrir öll samtölin sem við áttum við eldhúsborðið, takk fyrir að hafa alltaf trú á mér sama hvað og takk fyrir að vera alltaf heiðarleg við mig og skafa ekkert af hlutunum þegar ég var á leið inn á ranga braut en að gera það samt með svo miklum kærleika.

Ég veit að hún er hvíldinni fegin en tárin eru búin að leka niður stanslaust síðan ég fékk fréttirnar.

Ég elska þig og ég veit að þú elskar mig líka. Ég mun sakna þín.

Þitt barnabarn,

Inga Hrönn.

Amma Palla var mögnuð kona. Amma vildi öllum svo vel og þótti svo ótrúlega vænt um sitt fólk. Amma var sú allra ljúfasta sem ég hef kynnst í mínu lífi og tel ég það forréttindi að hafa fengið að kalla hana ömmu mína. Amma var ótrúleg, hún var með magnaðasta minni sem ég veit um, hún vissi allt um alla og það var svo gaman að tala við hana því hún gat tengt allt saman.

Amma var ótrúlega stolt af sínu fólki og var alltaf svo gaman að segja henni frá því hvað var að gerast í lífinu því maður fann það svo sterkt að hún var svo stolt. Ég á svo margar minningar og það er mér svo mikils virði. Allar heimsóknirnar til ömmu og afa hvort sem það var á Hraunbrautinni eða í Hveragerði, allar útilegurnar, ferðirnar á Apavatn og símtölin okkar á milli. Fyrir þessar minningar er ég þakklát.

Mér þykir svo vænt um allar ferðirnar okkar afa Lúlla til ömmu og afa í Hveragerði. Ég man hvað það var alltaf notalegt að koma í Réttarheiðina til þeirra. Amma tók alltaf á móti manni með hlýju faðmlagi. Hún vildi alltaf gefa manni að borða og þótt maður afþakkaði leið ekki á löngu þar til hún var búin að finna eitthvað til og setja á borðið.

Mér fannst alltaf svo gaman að koma inn í litla tölvuherbergið, þar var svo margt að skoða; eftirgerðin af sumarbústaðnum á Apavatni, allar myndirnar af fjölskyldunni í hillunum, úrklippurnar úr dagblöðunum sem amma safnaði, allt fína föndurdótið sem amma var svo dugleg að gera og svo margt margt fleira. Það verður skrítið að koma í Hveragerði núna og stoppa ekki hjá ömmu Pöllu fyrir knús og spjall. En minningarnar ylja og ég mun hugsa til ömmu í Hveragerði.

Elsku amma Palla mín, mér þykir svo vænt um þig og mun sakna þín mikið. Ég veit að nú ertu komin til afa og ég efast ekki um það að það hafi orðið miklir fagnaðarfundir þegar þið hittust aftur. Ég mun alltaf minnast þín sem ofboðslega ljúfrar og góðrar konu og ég mun segja börnunum mínum frá þér.

Ég lofa þér að ég mun halda áfram handavinnu eins og við töluðum um þegar ég hitti þig seinast.

Ég vil líka lofa þér því að vera alltaf góð við fólkið mitt eins og þú sagðir mér að gera þegar við kvöddumst í síðasta skipti. Elsku amma mín ég elska þig, hvíldu í friði.

Þín

Embla Líf.