Teitur Björn Einarsson
Teitur Björn Einarsson
Efnahagshorfur eru jákvæðar og miðar örugglega í rétta átt þrátt fyrir gífurleg áföll innanlands vegna yfirstandandi náttúruhamfara á Reykjanesi.

Teitur Björn Einarsson

Í umræðu á Alþingi um fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029 hefur stjórnarandstaðan haldið því fram að óstjórn ríki í efnahagsmálum. Það er málflutningur sem stenst ekki skoðun eins og hér verður rakið.

Útlit er fyrir að hagvöxtur verði 1,5% í ár og tvöfaldist á næsta ári. Atvinnuleysi hér á landi er lítið í alþjóðlegum samanburði og gera spár ráð fyrir að það verði að meðaltali 4,2% á árinu. Þá er skuldastaða íslenskra heimila traust og hefur ekki verið lægri í um tvo áratugi, í hlutfalli við hvort heldur ráðstöfunartekjur eða eignir.

Í þessu samhengi er rétt að benda á að efnahagsbatinn eftir heimsfaraldurinn hefur verið mjög hraður og sterkur. Árið 2022 var hagvöxtur á Íslandi 8,9%. Það er mesti hagvöxtur sem mælst hefur í rúma hálfa öld. Á síðasta ári var hagvöxtur 4,1% á meðan efnahagsumsvif á evrusvæðinu hafa síðustu ár svo gott sem staðið í stað.

Staðan er því traust þótt vitanlega séu blikur á lofti; aukin óvissa vegna eldsumbrota á Reykjanesi og óvissa um áhrif óstöðugleika og aukinnar spennu á alþjóðavettvangi á þróun verðlags. Til að sporna gegn mikilli og viðvarandi verðbólgu hefur Seðlabankinn þurft að hækka stýrivexti og standa þeir nú í 9,25%. Það eru háir vextir og þeir bíta fast. Heimili og fyrirtæki hafa sannarlega fundið fyrir áhrifum vaxtastigsins.

Þrátt fyrir þetta hefur kaupmáttur ekki dregist saman, líkt og í mörgum nágrannalandanna, og er útlit fyrir 1,5% kaupmáttaraukningu á þessu ári, en hún nam 1% í fyrra. Lífskjarasókn síðustu 10 ára hefur þannig verið varin.

Öguð og ábyrg hagstjórn

Efnahagshorfur eru jákvæðar og miðar örugglega í rétta átt þrátt fyrir gífurleg áföll innanlands vegna yfirstandandi náttúruhamfara á Reykjanesi. Þar munar mest um taumhald peningastefnunnar sem hefur hægt á efnahagsumsvifum innanlands og dregið úr verðbólguþrýstingi samhliða því að verðbólga hefur hjaðnað nokkuð hratt í helstu viðskiptalöndum. Það er því útlit fyrir að verðbólga hjaðni hægt en örugglega og verði að meðaltali 5,2% í ár og um 3,2% á næsta ári.

Öguð og ábyrg stjórn ríkisfjármála samferða auknum fyrirsjáanleika, sem fylgir nýgerðum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, mun skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta. Áherslur nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Bjarna Benediktssonar, eins og þær birtast í fjármálaáætlun næstu fjögurra ára, benda til að svo geti vel orðið. Það er því tilefni til bjartsýni.

Til framtíðar litið

Til að auka megi hag allra landsmanna til framtíðar litið skiptir mestu máli að fólki og fyrirtækjum sé búið umhverfi til að nýta tækifærin. Fjölga þarf stoðum hagkerfisins, ryðja veg atvinnuuppbyggingar og tryggja áframhaldandi vöxt atvinnugreina um land allt. Til að svo megi verða þarf að efla samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs, einfalda regluverk og beisla meiri orku.

Á Alþingi er tekist á um réttu leiðina fram á við. Áframhaldandi lífskjarasókn grundvallast ekki á aukinni miðstýringu og hærri sköttum á fólk og fyrirtæki. Hún grundvallast á umhverfi sem ýtir undir frumkvæði og atorkusemi fólks svo auka megi hag allra landsmanna til framtíðar enn frekar. Það skiptir nefnilega máli hverjir fara með stjórn landsins og hvernig haldið er á málum. Árangur síðustu ára, þrátt fyrir margvísleg áföll, staðfestir það.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Höf.: Teitur Björn Einarsson