Svart Kvikmyndin Back to Black segir af Amy Winehouse, ástum hennar og örlögum.
Svart Kvikmyndin Back to Black segir af Amy Winehouse, ástum hennar og örlögum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laugarásbíó og Sambíóin Back to Black ★★½·· Leikstjórn: Sam Taylor-Johnson. Handrit: Matthew Greenhlagh. Aðalleikarar: Marisa Abela, Jack O'Connell, Eddie Marsan og Leslie Manville. Bretland, 2024. 122 mín.

kvikmyndir

Helgi Snær

Sigurðsson

Enska tónlistarkonan Amy Winehouse var á tímabili ein þekktasta og umtalaðasta kona heims, mjög svo hæfileikarík söng- og tónlistarkona með einkennandi og sérstakan söngstíl og fatasmekk, auk þess að vera vinsælt umfjöllunarefni slúðurmiðla. Dökkmáluð augun og uppsett, kolsvart hárið vöktu athygli sem og óvenjulegur fatastíllinn sem einkenndist af gallastuttbuxum af stystu gerð, þröngum toppum og hinum ýmsu „retro“-flíkum. Augnmálningin var ekki síður áberandi, líkt og fjölmörg húðflúrin sem hún hafði sérstakt dálæti á og skreytti líkama sinn með. Þeirra á meðal var nafnið á unnusta hennar, Blake Fielder-Civil, en ástir þeirra og á köflum stormasamt samband eru helsta viðfangsefni kvikmyndarinnar Back To Black eftir enska leikstjórann Sam Taylor-Johnson.

Kvikmyndin hefur verið gagnrýnd og það nokkuð harðlega fyrir að fara of mjúkum höndum um umfjöllunarefnið og þá sérstaklega samband Winehouse og Fielder-Civils, gera furðulítið úr ábyrgð þeirra á eigin hegðun og eiturlyfjaneyslu og þætti annarra í þeirri neyslu. Þeir sem muna þá tíma er Winehouse og Fielder-Civil voru í slúðurmiðlum svo til daglega, einkum þó breskum, vita að þau glímdu við mikla fíkn í áfengi og vímuefni. Winehouse var auk þess með átröskun eins og sást greinilega á henni og endaði samband þeirra á því að Fielder-Civil hlaut tveggja ára fangelsisdóm fyrir líkamsárás. Hversu stóran þátt hann átti í eiturlyfja- og áfengisfíkn Winehouse er erfitt að segja en vitað er að bæði glímdu við mikla fíkn til fjölda ára sem tók mikinn toll af þeim, líkamlega sem andlega. Winehouse lést langt fyrir aldur fram, aðeins 27 ára, í júlí árið 2011.

Borið í bakkafullan lækinn?

Fjallað hefur verið ítarlega um samband Winehouse og Fielder-Civils, feril Winehouse og óumdeilda tónlistarhæfileika hennar í fjölmörgum blaðagreinum, sjónvarps- og heimildarþáttum og -heimildarmyndum. Því finnst líklega mörgum borið í bakkafullan lækinn með þessari kvikmynd, Back to Black, og spurning hvort hún bæti einhverju við það sem þegar hefur komið fram um ævi Winehouse og einkalíf. Það er heldur ólíklegt.

Á móti mætti segja að viðburðarík og átakanleg ævi Winehouse og tónlistin sem hún skildi eftir sig réttlæti enn eina umfjöllunina, að þessu sinni leikna kvikmynd. Því ekki? Sérstaklega fyrir þá sem þekkja ekki til Winehouse og verka hennar.

Það eru því vonbrigði hversu stór hluti myndarinnar fer í mörg og löng tónleikaatriði sem virðist fyrst og fremst ætlað til að sýna færni aðalleikkonu myndarinnar, Marisu Abela, í því að líkja eftir Winehouse. Jú, Abela er sannarlega góð í hlutverkinu og lík Winehouse í hreyfingum og söng, sem betur fer. Tónlistin er að sama skapi vönduð og grípandi, nema hvað, lögin kunnugleg þeim sem eitthvað hafa fylgst með dægurtónlist það sem af er öldinni. En það er ekki leikstjóranum að þakka heldur Winehouse heitinni. Hvaða tilgangi það þjónar að verja stórum hluta leikinnar kvikmyndar í tónleikaatriði, líkt og raunin er hér, mætti spyrja og þau hefði gjarnan mátt stytta til að gefa öðrum hlutum sögunnar meira vægi.

Það hefði líka mátt sleppa óþarflega löngum atriðum sem gera lítið sem ekkert fyrir framvinduna og bæta frekar við þann hluta sem snýr að sálarlífi Winehouse og þeirri skelfilegu fíkn sem hún glímdi við og sást greinilega á henni, sérstaklega þó undir ævilokin. Þá var hún skugginn af sjálfri sér, grindhoruð og veikluleg en leikkonan Abela er vægast sagt frísklegri. Það er dálítið klúðurslegt hjá leikstjóranum því urmull er til af ljósmyndum og upptökum af Winehouse frá þessum tíma. Á móti má þakka fyrir að Abela grennti sig ekki hættulega mikið fyrir hlutverkið. Fleira má gagnrýna, til dæmis hversu frísklegur og „fit“ Jack O'Connell er, sá sem leikur Blake Fielder-Civil. Ekki mikið heróín-útlit þar, ekki frekar en á Abela sem er alltaf jafnsæt, meira að segja þegar hún á að vera við dauðans dyr af áfengisdrykkju og heróínneyslu.

Síðan er það faðir Winehouse heitinnar, Mitch, leikinn af Eddie Marsan. Tekið er á honum með silkihönskum sem vekur furðu. Í heimildarmyndinni Amy, frá árinu 2015, kemur fram að Mitch hafi meðal annars stutt þá ákvörðun dóttur sinnar að fara ekki í meðferð þegar augljóst var að hún þurfti bráðnauðsynlega á henni að halda. Mitch hefur þvertekið fyrir þetta og spurning hvað er rétt í því máli, líkt og fleirum sem snerta Winehouse.

Leiksigur Abela

Kvikmyndinni til varnar mætti segja að líklega hafi verið tími til kominn að leggja áherslu á það sem þó var gott í lífi Winehouse, á ástina og tónlistina og leyfa því það slæma að mæta afgangi án þess þó að sleppa því. Aðalleikarar myndarinnar halda athygli manns, sem betur fer, og vekja samúð með persónum. Þetta er ungt og fjörugt fólk í blóma lífsins og þau Jack O'Connel og Marisa Abela eru
sannfærandi í hlutverkum Winehouse og Fielder-Civils. Atriði sem sýnir fyrstu kynni þeirra á knæpu einni í London er skemmtilegt og trúverðugt og sýnir hvað það var, að öllum líkindum, sem laðaði þau hvort að öðru. Hvort þetta atriði og nokkur svipuð eru trú sannleikanum er þó vafamál. Gamalreyndir leikarar, þau Mann og Marsan, eru fín í sínum hlutverkum þótt heldur þunn séu.

Back to Black er bönnuð börnum undir 12 ára aldri því eiturlyf, ofbeldi og kynlíf koma við sögu en 12 ára og yngri ættu ekki alveg að ráða við það í fylgd með fullorðnum. Það er óhætt að fara í bíó með ungmennin og sýna þeim hversu hættulegt það getur verið að fikta með eiturlyf og áfengi, dauðans alvara. Back to Black er hvorki eftirminnileg né áhrifarík kvikmynd en fínir leikarar bjarga miklu og þá sérstaklega hin hrífandi Abela sem á framtíðina fyrir sér í leiklistinni.