Forstjóri <o:p></o:p> &bdquo;Framleiðsla á veiðarfærum byggist á góðri samvinnu við skipstjórnarmenn sem vita hvað virkar,&ldquo; segir Hjörtur Erlendsson.
Forstjóri „Framleiðsla á veiðarfærum byggist á góðri samvinnu við skipstjórnarmenn sem vita hvað virkar,“ segir Hjörtur Erlendsson. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ábyrg umhverfisstefna og rétt auðlindanýting eru mikilvægir þættir í þróun og framleiðslu Hampiðjunnar á veiðarfærum. Fyrirtækið er 90 ára um þessar mundir en ber aldurinn vel. Þróunin er hröð og forskot Íslands skýrt, í eina landinu í heiminum þar…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ábyrg umhverfisstefna og rétt auðlindanýting eru mikilvægir þættir í þróun og framleiðslu Hampiðjunnar á veiðarfærum. Fyrirtækið er 90 ára um þessar mundir en ber aldurinn vel. Þróunin er hröð og forskot Íslands skýrt, í eina landinu í heiminum þar sem haldið er úti formlegri menntun í veiðarfæragerð.

„Starfsemi okkar og framleiðsla byggist á verkþekkingu en ekki síður góðri samvinnu við skipstjórnarmenn, sem hafa sínar skoðanir og vita hvað virkar,“ segir Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar. „Trollin sem við framleiðum eru í flestum tilvikum sérsniðin fyrir hvert og eitt skip og þá þarf að hafa í huga búnað þess, togkraft, á hvaða mið er sótt og fleira slíkt. Margt þarf að fara saman og því er samtalið mikilvægt.“

Fyrirtækið sexfaldast að stærð frá 2013

Stofndagur Hampiðjunnar var 5. apríl 1934. Guðmundur S. Guðmundsson, vélvirki og verkstjóri í Héðni, hafði þá kallað saman 12 manna hóp úr sjávarútvegi til þess að stofna fyrirtæki sem framleiddi garn og net úr náttúrulegum hamptrefjum. Á Íslandi þótti skorta efni til veiðarfæragerðar og því kalli var svarað. Svo fór líka að ári eftir stofnun Hampiðjunnar voru framleiðsluvörur fyrirtækisins – þá einkanlega línur og net – orðnar allsráðandi á íslenskum skipum.

Á langri vegferð hefur starfsemi Hampiðjunnar farið í gegnum dýfur og krefjandi aðstæður oft á tíðum. Því hefur kalli tímans hverju sinni verið svarað eins og gerðist upp úr 1960 þegar farið var að nota ný efni í botnvörpur og önnur veiðarfæri sem gerðu vélar Hampiðjunnar úreltar. Því var hins vegar svarað með endurnýjun á tækjakosti og hönnun nýrra garntegunda og kaðla; vara sem seldar voru til netaverkstæða víða um landið.

Upp frá þessu hófst svo framleiðsla Hampiðjunnar á eigin veiðarfærum og kaup á fyrirtækjum í veiðarfæragerð erlendis. Sókn var hafin og Hampiðjan varð með tímanum alþjóðlegt fyrirtæki. Frá 2013 hefur Hampiðjan raunar rúmlega sexfaldast að stærð. Í samstæðunni eru nú alls 62 starfsstöðvar og 48 fyrirtæki sem starfa í 21 landi. Lengst í austri er Hampiðjan með starfsemi á Nýja-Sjálandi og í vestri í Alaska. Tímamismunur milli þessara staða er 20 klukkustundir og segja má að veröldin öll sé undir.

Starfsstöðvar taka mið af atvinnuháttum

Á Íslandi eru höfuðstöðvar Hampiðjunnar við Sundahöfn og þar er stórt netaverkstæði. Einnig er fyrirtækið með starfsemi á Ísafirði, Akureyri, í Neskaupstað og Vestmannaeyjum. Taka áherslur og framleiðsla mið af útgerð og atvinnuháttum á hverjum stað, sbr. að fiskeldið er vaxandi vegur á Vestfjörðum og fyrirtæki á Austurlandi eru umsvifamikil í veiðum á uppsjávartegundum. Segja má þó að hjartað slái í verksmiðjunni Hampidjan Baltic í Litháen, þar sem framleiddir eru þræðir, hnýtt net og fléttaðir ofurkaðlar ásamt framleiðslu á fullbúnum veiðarfærum.

„Fyrirtækið hefur stækkað mikið á síðustu árum, bæði með innri vexti og kaupum á félögum sem eru í veiðarfæragerð eða þjónustu við fiskeldið. Í hinu síðarnefnda komum við sterk inn með kaupum á norska fyrirtækinu Mørenot á síðasta ári, en með því jókst velta samstæðunnar um 66%. Varð samanlagt um 48 milljarðar íslenskra króna,“ segir Hjörtur. Bætir við að kaup á fyrirtækjum erlendis hafi gefist Hampiðjunni vel og það verið haft sem leiðarljós að fyrri eigendur haldi eftir 20-30% hlut að minnsta kosti fyrst um sinn til að halda festu og þekkingu.

Koma sterkir inn í laxeldið

Óskir útgerðar í dag eru meðal annars að fá betri yfirsýn yfir hvaða fiskur er að koma í trollin svo stýra megi betur hvað í þau ratar. Með stærð og lagi möskva sem þróaðir hafa verið er hægt að stýra kjörhæfni veiðarfærisins, það er hvaða stærð af fiski er haldið eftir í trollpokanum. Þá hafa verið hannaðir ljósleiðarastrengir sem gefa möguleika á að hafa myndavélar á trollinu svo hægt sé að sjá hvað rennur þangað inn. Með myndgreiningartækni sem er í þróun verður hægt að skrá upplýsingar um fisktegundir og stærð og fylgjast með í rauntíma uppi í brú. Með því getur nýting auðlindarinnar orðið betri og markvissari.

Endurvinnsla og ímynd

„Bolfiskur veiddur á línu er að jafnaði besta hráefnið en veiðar með trolli eru að þessu leyti orðnar sambærilegar. Fiskurinn sem veiðist næst jafnvel lifandi um borð og fer svo beint í vinnslulínur um borð í togurunum. Með þessu fæst frábært hráefni og virði þess er mikið. Í þjónustu við fiskeldið komum við svo sífellt sterkar inn, svo sem með framleiðslu á nótapokum og fleiru. Fiskeldið á Norður-Atlantshafi er í vexti og sóknarfæri þar,“ segir Hjörtur.

Endurvinnsla á gömlum veiðarfærum og öðru slíku er áherslumál Hampiðjunnar. Á síðasta ári féllu til tæplega 1.000 tonn af slíku; plastefni og fleira sem safnað var saman og sent til verksmiðju félagsins í Litháen. „Við erum að flytja meira út af veiðarfæraefnum en er flutt hingað til vinnslu. Þetta er sjálfbærni af hæstu gráðu og í þessum efnum höfum við beinlínis sóst eftir samstarfi við keppinauta okkar; svo mjög er okkur í mun að þarna takist vel til fyrir veiðarfæraiðnaðinn. Þessi umhverfisstefna hefur líka mikið að segja fyrir ímynd greinarinnar,“ segir forstjórinn.

Styrkja tengslin

Afmæli Hampiðjunnar verður haldið hátíðlegt í haust í tengslum við sjávarútvegssýninguna Ice Fish sem er í Smáranum í Kópavogi. Þá mun Hampiðjan bjóða viðskiptavinum sínum til hófs sem haldið verður í veiðarfæragerðinni við Skarfabakka.

„Við viljum hitta okkar fólk og styrkja tengsl. Samtöl við sjómennina skipta miklu, þannig fáum við upplýsingar og út frá þeim eru veiðarfærin hönnuð. Við horfum bjartsýn fram á veg til þeirra tækifæra sem blasa við og höldum áfram nýsköpun og vöruþróun sem er stór þáttur í starfi okkar,“ segir Hjörtur Erlendsson.

Hver er hann?

Hjörtur Erlendsson er fæddur árið 1958 og hefur verið forstjóri Hampiðjunnar frá 2014. Hann er vélstjóri og rekstrartæknifræðingur að mennt og kom til starfa hjá Hampiðjunni fyrir um 40 árum. Var lengi m.a. yfir neta- og kaðlaframleiðslu Hampiðjunnar og var staðgengill forstjórans sem hann tók svo við af.