Heilbrigðisráðherra hefur boðað Félag íslenskra heimilislækna (FÍH) á fund á morgun vegna skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu. Í könnun sem vitnað var í í Læknablaðinu í mars kom fram að 59% heimilislækna höfðu upplifað einkenni kulnunar stundum, oft eða mjög oft undanfarna 12 mánuði

Heilbrigðisráðherra hefur boðað Félag íslenskra heimilislækna (FÍH) á fund á morgun vegna skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu.

Í könnun sem vitnað var í í Læknablaðinu í mars kom fram að 59% heimilislækna höfðu upplifað einkenni kulnunar stundum, oft eða mjög oft undanfarna 12 mánuði. Ástæðurnar sem minnst var á voru of mikið álag en einnig oft og tíðum óhófleg pappírsvinna. Á fundi heilbrigðisráðherra og heimilislækna verður meðal annars rætt um hvernig hægt sé að draga úr fjölda vottorða og fækka tilvísunum.

Einnig er von um að tilvísanir til barnalækna verði að einhverju leyti afnumdar, að sögn Margrétar Ólafíu Tómasdóttur formanns FÍH. Misflókið getur verið að leysa þennan vanda að sögn Margrétar.

„Með vottorðin þá ríkir áratugalöng hefð. Eins og með vinnuveitendavottorð í atvinnulífinu, þar þyrfti að fá inn í samtalið Samtök atvinnulífsins,“ segir Margrét. Einnig þurfi að koma skýr fyrirmæli frá ráðherra um hvers kyns vottorð eigi heima undir hatti heimilislækna.

„Varðandi tilvísanir kemur það inn á borð Sjúkratrygginga líka. Þá þyrfti reglugerðarbreytingu í rauninni. Sama með fjölda skipta sem eru niðurgreidd hjá sjúkraþjálfara vegna beiðna.“ Vandamálið snertir afskaplega marga fleti heilbrigðiskerfisins og atvinnulífsins, sem gerir málið svolítið flókið að sögn Margrétar. Hins vegar séu þetta í rauninni auðleysanleg verkefni sem ætti að vera hægt að hreinsa til á einfaldan hátt „ef maður bara tekur af skarið og gerir eitthvað í því“. anton@mbl.is