Stórstjarna John Legend er meðal dómara.
Stórstjarna John Legend er meðal dómara. — AFP/Michael Tran
Bandaríska útgáfan af the The Voice er sú eina sanna. Alls kyns eftirlíkingar hafa verið gerðar en eru einungis daufur endurómur af þeirri bandarísku. Nú má sjá þáttaröð númer 25 á erlendum sjónvarpsstöðvum

Kolbrún Bergþórsdóttir

Bandaríska útgáfan af the The Voice er sú eina sanna. Alls kyns eftirlíkingar hafa verið gerðar en eru einungis daufur endurómur af þeirri bandarísku. Nú má sjá þáttaröð númer 25 á erlendum sjónvarpsstöðvum. Turtildúfurnar Blake Shelton og Gwen Stefani eru ekki lengur meðal dómara og þeirra er saknað. Þau voru sjarmerandi og fyndin og það sást langar leiðir á þeim hversu glöð þau voru að hafa fundið hvort annað eftir erfiðleika í einkalífi.

Nýir dómarar eru mættir til leiks og meta frammistöðu keppenda og lokka þá í sitt lið. Þar á meðal er John Legend, afar sjarmerandi og fáguð stórstjarna. Þegar líða tekur á keppni mæta gestaþjálfarar til leiks. Fyrir einhverjum árum birtist Taylor Swift í stuttan tíma. Merkilega persónuleikalaus, köld og fjarlæg og gaf ekkert af sér. Hún var meira að segja gervileg þegar hún táraðist yfir frammistöðu eins keppandans. Hún virkaði óekta sem er undantekning í þáttum þar sem persónutöfrar dómaranna eru yfirleitt miklir.

Sú sem þetta skrifar hefur yfirleitt engan áhuga á raunveruleikaþáttum en þessi söngkeppni er öðruvísi því þar eru svo að segja allir glaðir.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir