Höfundur Mishka Ben-David í húsi sínu í Ramat Raziel í Ísrael. Hann skrifaði spennusögu þar sem atburðarásinni svipar til atburða síðustu mánaða.
Höfundur Mishka Ben-David í húsi sínu í Ramat Raziel í Ísrael. Hann skrifaði spennusögu þar sem atburðarásinni svipar til atburða síðustu mánaða. — AFP/Gil Cohen-Magen
Vopnaðir Hamas-liðar gera árás á samyrkjubú í Ísrael skammt frá landamærum Gasasvæðisins. Ísraelsmenn bregðast við með hernaðaraðgerðum sem Íranar blandast í og gera flugskeytaárás á Ísrael sem svarar í sömu mynt

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Vopnaðir Hamas-liðar gera árás á samyrkjubú í Ísrael skammt frá landamærum Gasasvæðisins. Ísraelsmenn bregðast við með hernaðaraðgerðum sem Íranar blandast í og gera flugskeytaárás á Ísrael sem svarar í sömu mynt.

Þetta er atburðarás síðasta hálfa ársins við botn Miðjarðarhafs og í Mið-Austurlöndum í hnotskurn en þetta er einnig söguþráður spennusögu sem nefnist Hákarlinn og fyrrverandi starfsmaður ísraelsku leyniþjónustunnar, Mishka Ben-David, sendi frá sér fyrir sjö árum

Ben-David, sem er 72 ára að aldri, tekur undir það í samtali við AFP-fréttastofuna að staðan nú sé ekki ólík því sem hann sá fyrir sér þegar hann skrifaði bókina.

Í upphafi bókarinnar ráðast Hamas-liðar á samyrkjubúið Kfar Aza í suðurhluta Ísraels. Sjö árum eftir að bókin kom út, 7. október sl., gerðu Hamas-liðar árás á þetta samyrkjubú og drápu tugi manna.

Ben-David sagðist hafa heimsótt samyrkjubú meðfram Gasasvæðinu þegar hann var að undirbúa bókarskrifin og hugsað: Hver væri heppilegasti staðurinn fyrir Hamas að ráðast á. „Mér fannst (Kfar Aza) ekki nægilega vel varið ef slíkir atburðir gerðust,“ segir hann.

Misheppnuð morðtilraun

Ben-David, sem starfaði í Mossad, ísraelsku leyniþjónustunni, í 12 ár, þekkir vel að upplýsingaöflun hersins eða leyniþjónustunnar getur brugðist.

Árið 1997 tók hann þátt í misheppnaðri tilraun til að ráða Khaled Meshaal, þáverandi pólitískan leiðtoga Hamas-samtakanna, af dögum í Jórdaníu.

Í júlí það ár bar Hamas ábyrgð á sprengjuárás á helsta markaðstorginu í Jerúsalem þar sem 16 létu lífið og yfir 160 særðust. Á þessum tíma var Benjamín Netanjahú nýlega tekinn við embætti forsætisráðherra Ísraels í fyrsta skipti og ákveðið var að ráðast gegn leiðtogum Hamas til að hefna fyrir sprengjuárásina.

En þessi áform fóru gersamlega út um þúfur og Ben-David, sem þá var yfirmaður aðgerðadeildar Mossad, komst í þá einkennilegu aðstöðu að þurfa að bjarga lífi Meshaals.

Ben-David segir að leyniþjónstumenn hafi stungið upp á ýmsum leiðum til að ráða Meshaal af dögum, þar á meðal að koma sprengju fyrir í bíl hans, láta leyniskyttu skjóta hann eða ráðast að honum á götu. En Netanjahú hafi viljað að Meshaal yrði ráðinn af dögum með leynd því ef augljóst væri að Ísrael stæði að baki tilræðinu myndi það skaða samband landsins við Jórdaníu.

Svo útsendarar Mossad ákváðu að nota eitur, sem síðar kom í ljós að var fentanyl. Tveimur leyniþjónustumönnum tókst að úða því á fórnarlambið en vegna ýmissa ófyrirséðra atburða voru þeir handsamaðir, að sögn Ben-Davids.

Málið vakti alþjóðlega athygli. Hussein Jórdaníukonungur hótaði að rifta friðarsamkomulagi við Ísrael yrði lífi Meeshals ekki bjargað og Bill Clinton þáverandi Bandaríkjaforseti blandaðist í málið. Ben-David, sem var í Jórdaníu þegar þessir atburðir gerðust, segist hafa verið með móteitur á sér ef ske kynni að leyniþjónustumenn yrðu fyrir eitrun. Og á endanum gaf hann Meshaal móteitrið eftir að Jórdanía samdi um að leyniþjónustumennirnir tveir, sem höfðu verið handteknir, yrðu látnir lausir. Ísraelsmenn féllust einnig á að láta Ahmed Yassin stofnanda Hamas lausan úr fangelsi.

Tuttugu bækur

Ben-David yfirgaf Mossad árið 1999 en staða hans innan leyniþjónustunnar varð opinber í kjölfar tilræðisins misheppnaða. Síðan hefur hann skrifað 20 bækur á hebresku um ýmis málefni og sumar þeirra hafa verið þýddar á önnur tungumál en hann lagði stund á nám í hebreskum bókmenntum áður en hann gekk til liðs við Mossad.

Nú leitar Ísraelsher Hamas-leiðtogans Yahya Sinwar, sem talinn er hafa skipulagt árás samtakanna á Ísrael í október. En Ben-David hefur efasemdir um gagnsemi þess að ráða leiðtoga af dögum því alltaf komi einhverjir í þeirra stað.

Og hann segist vera hugsi yfir framtíð Ísraelsríkis. „Ísraelska þjóðin hefur þegar verið til í þrjú þúsund ár og kannski lengur,“ segir hann við AFP. „Rómverska keisaradæmið og veldi Djengis Khan liðu undir lok á endanum. Mér segir svo hugur að Ísrael verði ekki til um alla framtíð.“