Guðrún Kristinsdóttir fæddist 12. október í Fljótum í Skagafirði. Hún lést á bráðamóttöku LSH 15. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru sr. Kristinn Stefánsson, f. 22. nóvember 1900, d. 2. mars 1976, skólastjóri í Reykholti í Borgarfirði og síðar fríkirkjuprestur í Hafnarfirði og áfengisvarnarráðunautur ríkisins, og Dagbjört Jónsdóttir, f. 20. september 1906, skólastjóri við hina ýmsu húsmæðraskóla, en lengst af kennari við Húsmæðraskólann í Reykjavík. Þau hjónin áttu bæði ættir að rekja í N-Fljót og ólust þar upp.

Albróðir Guðrúnar var Stefán Reynir viðskiptafræðingur, d. 10. desember 2005. Systkini Guðrúnar samfeðra voru Þráinn skipstjóri, d. 30. ágúst 2012, Kristinn, Disti, húsasmíðameistari og Þóra Björk hjúkrunarfræðingur.

Guðrún giftist Sigurði Hauki Sigurðssyni 30. ágúst 1958, kennara. Sigurður var fæddur 24. júlí 1926 en hann lést 12. október 2009. Synir þeirra eru: 1) Sigurður Þorri tryggingaráðgjafi, kona hans er Guðrún Elva Arngrímsdóttir kennari. Börn þeirra eru Sigurður Atli, í sambúð með Helgu Jónsdóttur, María Sif, gift Steinari Huga Sigurðarsyni, Andri Hrafn, í sambúð með Kolbrúnu Björk Jensínudóttur, og Arnór Þorri, í sambúð með Hildi Árnadóttur. 2) Kristinn Rúnar byggingatæknifræðingur, giftur Sigurveigu Grímsdóttur viðskiptafræðingi. Börn þeirra eru: Grímur Freyr, Steinunn, í sambúð með Brynjari Frey Þórðarsyni, og Guðrún Auður, unnusti hennar er Edgar Stepanov. 3) Trausti viðskiptafræðingur, giftur Ingibjörgu Jónsdóttur. Börn þeirra eru Sigurður Haukur, Jón Ari, Trausti og Einhildur María. Barnabörnin eru 14.

Guðrún lauk stúdentsprófi frá MR 1948. Árið 1951 stundaði hún nám við húsmæðraskólann í Lysaker í Noregi. 1954 lauk hún námi frá Ankerhus Husholdingsseminarium í Sorø. Framhaldsnám í hússtjórnarkennarafræðum stundaði hún síðan við Háskólann í Árósum og var þar meðal annars aðstoðarkennari við læknadeild skólans. Eftir komuna til Íslands árið 1955 starfaði Guðrún sem hússtjórnarkennari við Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Kvennaskólann í Reykjavík. Nokkur sumur ferðaðist hún um landið á vegum fræðsludeildar SÍS. Lengstan kennsluferil átti Guðrún í Árbæjarskóla en þar starfaði hún til ársins 1995 eða í rúm 20 ár. Í námsleyfi frá Árbæjarskóla, 1982-1983, stundaði Guðrún nám í næringarfræði við matvælafræðiskor Háskóla Íslands.

Fjölskyldan stundaði skíðaíþróttina af miklum krafti og lét Guðrún ekki sitt eftir liggja og var farið til fjalla allar helgar sem aðstæður leyfðu. Guðrún var ein af stofnendum Soropimistaklúbbs Árbæjarhverfis hausið 2018 og mætti hún á fundi allt fram á 94. aldursár. Þátttaka í starfi Soroptimista gaf henni mikið.

Guðrún verður jarðsett frá Árbæjarkirkju í dag, 22. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku mamma er látin.

Mamma giftist föður mínum, Sigurði Hauki Sigurðssyni, 1958 (dó 2009) og frumburðurinn Sigurður Þorri fæðist 1959, Kristinn Rúnar 1960 og ég ári síðar eða 1961. Eins og gera má ráð fyrir var oft mikið líf og fjör á heimili okkar á Eiríksgötu 4 á uppvaxtarárum okkar. Bræður mínir fóru ungir í sveit á sumrin og fékk ég þá alla athygli móður minnar, en pabbi starfaði sem vegamælingamaður á Vestfjörðum á sumrin og við mamma vorum því ein í kotinu, en nutum þess að eiga góðar stundir saman. Bræður mínir gerðu þó stundum gys að mér, sem örverpinu, í pilsfaldinum hjá mömmu. Tel mig hafa kært mig kollóttan, enda takmarkaður áhugi hjá mér á sveitamennskunni.

Skíðamennskan átti hug fjölskyldunnar öll okkar unglingsár og lítill tími var fyrir annað. Oft var námið látið sitja á hakanum, sem var nú ekki vel séð af mömmu, sem sjálf var alla tíð mjög metnaðarfullur námsmaður og gerði því ákveðnar kröfur til okkar sona sinna. Okkur tókst nú að klára þetta ágætlega og mamma gat haldið andlitinu, þótt stundum hafi kannski verið tæpt á því.

Mamma elskaði að ferðast og fóru hún og Dagbjört amma í margar sólarferðirnar saman og svo tóku við borgarferðir með vinahópum. Mamma hélt yfirleitt dagbók, þar sem nákvæmlega var skráð hvað var aðhafst þann daginn, hvaða söfn og viðburðir voru heimsóttir og hverjir voru með í för. Þess utan var mamma dugleg að taka myndir á ferðalögum, sem hún hafði gaman af að sýna okkur fjölskyldunni og rifja upp ánægjulegar stundir með vinafólki.

Mamma lenti í áföllum á lífsleiðinni, t.d. þurfti að fjarlægja bæði brjóstin með fimm ára millibili vegna krabbameins og nokkrum árum síðar var fjarlægður gúlpur í heila. Mamma náði að vinna úr þessum áföllum af miklu æðruleysi og dugnaði og náði góðri heilsu. Þegar ég hélt upp á 60 ára afmæli mitt í Noregi í eða á miðju covid-tímabili í bústað í efstu hlíðum Norefjells mætti móðir mín óvænt í afmælið ásamt Kidda bróður og Sivu konu hans. Mamma var keik og óhrædd og lét ekki ferðalagið á sig fá, þegar margir létu ferðalög eiga sig. Mamma 93 ára vildi hins vegar samgleðjast syni sínum og hafði litlar áhyggjur, sem lýsir vel hugrekki hennar, dugnaði og væntumþykju til sinna nánustu.

Ekki er hægt að skrifa um mömmu án þess að minnast á vinkonuhópinn, sem kallaði sig „Saumaklúbbinn sísaumandi“. Þær vinkonurnar héldu hópinn stóran hluta lífs síns og gerðu sér margt til gamans eins og t.d. að ferðast um okkar fallega land o.s.frv.

Mamma var einn af stofnendum Soroptimistaklúbbsins í Árbæ árið 1980, en mamma hreifst af því göfuga starfi sem unnið var innan klúbbsins og vildi láta gott af sér leiða. Vil ég nota tækifærið og þakka Soroptimstasystrum fyrir hve vel þær hugsaðu um hana móður mína og þá sérstaklega síðustu árin þegar halla fór undan fæti og mamma átti erfiðara með að komast á fundi, þá var nú lítið mál að sækja hana.

Minning um ástríka móður, sem allt vildi gera fyrir syni sína, lifir.

Trausti Sigurðsson.

Það er erfitt að kveðja. Erfitt að sjá á eftir elskulegri tengdamóður minni, ömmu barnanna minna, langömmu og góðum vini. Saga okkar hefst í október 1982 er ég kynnist syni hennar, hún var rúmlega fimmtug og ég rétt rúmlega tvítug. Hún opnar faðminn, opnar heimili sitt, býður mig velkomna, býður mér hressingu, kynnir mig fyrir fjölskyldunni, stórfjölskyldunni, vinum og samferðafólki sínu næstu árin. Og ég eignast hlutdeild í hennar fólki. Nú rúmum fjörutíu árum síðar lýkur sameiginlegri sögu okkar. Og þegar ég kveð þessa nettu, dagfarsprúðu og góðu tengdamóður mína, hana Guðrúnu, er mér efst í huga þakklæti. Ég hugleiði hve lánsöm ég hafi verið að fá að kynnast henni, að eignast hlutdeild í lífi hennar og verða henni samferða um hríð. Síðustu tvo áratugina höfum við búið í sama húsi, deilt sögum og eignast sameiginlegar minningar. Nærvera hennar setti mark á líf mitt sem aldrei verður afmáð, orð hennar og gerðir sitja í huga mér og munu ylja mér um ókomin ár. Mannkostir hennar eru mér fyrirmyndir og sögurnar hennar lifa með okkur sem bárum gæfu til að hlusta. Sumar sögur voru sagðar oft, sumar frá námsárunum og ferðalögunum eru ógleymanlegar. Síðustu sögu hennar var erfitt að skilja en brosið, blikið í augunum og strokan á vanga Trausta var merki um ást og væntumþykju. Og svona vil ég muna hana Guðrúnu. Vil dvelja við þessa hlýju og fallegu mynd af henni strjúka vangann á syni sínum er hún sá hann í fyrsta sinn eftir hans erfiðu veikindi og þá var okkur báðum ljóst að hún var tilbúin að sleppa takinu og kveðja þetta jarðneska líf. Góða ferð, mín kæra, þú ert nú í góðum höndum.

Þín tengdadóttir,

Sigurveig Grímsdóttir.

Þá er komið að kveðjustund elsku amma mín. Ég er þakklát fyrir að hafa setið hjá þér, haldið í hönd þína og talað við þig um síðustu helgi. Það hjálpar mér að vita af þér á betri stað, þar sem þú situr með Hauki afa og vakir yfir okkur þar til við hittumst á ný.

Takk Guðrún amma fyrir allar góðu minningarnar, kleinubaksturinn og kartöflutínsluna í Hábæ, Ítalíuferðina með ykkur afa og áramótapartíin í Hábæ þegar öll stórfjölskyldan kom saman. Ég man ekki eftir jólum né áramótum án þín og er mér það dýrmætt að þú varst heima hjá mér með fjölskyldunni minni síðastliðin áramót. Sögustundirnar frá því í gamla daga og allar samverustundirnar í Eyktarási. Einstaka sambandið sem þú áttir við Björn og Sylvíu Siv en þau fóru ekki í heimsókn til afa Kidda og ömmu Sivu nema kíkja einnig í heimsókn til ömmu Guðrúnar og Sylvía tók ekki annað í mál en að fara niður og knúsa ömmu Guðrúnu bless í hvert einasta sinn.

Elsku amma, þegar ég settist niður við tölvuna til að skrifa nokkur orð til þín komst ég að þeirri niðurstöðu að við eigum margt sameiginlegt. Þú varst algjört hörkutól og lést ekkert slá þig út af laginu. Að eignast og ala upp þrjá vel virka stráka sem fæddir eru með árs millibili er heljarinnar verkefni og hugsa ég oft til þín þegar börnin mín þrjú reyna á þolinmæðina. Þú varst hreinskilin og heiðarleg, hæglát og róleg en félagslynd og með mikið keppnisskap. Ég er gríðarlega þakklát fyrir stundina sem við áttum saman rétt áður en þú kvaddir. Þú varst eldklár og skýr allt til hinstu stundar en við ræddum þar að líklega hefði ég keppnisskapið og þrautseigjuna frá þér sem þú samþykktir. Þú varst stolt af okkur systrum en við fetuðum báðar í fótspor þín og fórum í nám til Danmerkur en það var alls ekki sjálfgefið á þínum tíma og þótti merkur áfangi.

Elsku amma þú varst alltaf vel tilhöfð og glæsileg en þú hugsaðir vel um þig bæði hvað varðar hreyfingu og mataræði. Þú baðst mig daginn áður en þú kvaddir að panta tíma fyrir þig í hárgreiðslu daginn eftir. Ég vona að það séu hárgreiðslumeistarar þarna uppi sem hafi tekið vel á móti þér og gert þig fína fyrir Hauk afa. En ég trúi því að maðurinn sem þú sást standa fyrir aftan rúmið þitt á spítalanum hafi verið afi kominn til að sækja þig.

Takk fyrir allt elsku amma mín, hvíldu í friði og ég veit að við hittumst aftur einn daginn.

Nú stöðvar ekkert tregatárin,

og tungu vart má hræra.

Þakka þér amma, öll góðu árin,

sem ótal minningar færa

Já, vinskap þinn svo mikils ég met

og minningar áfram lifa.

Mót áföllum lífsins svo lítið get,

en langar þó þetta að skrifa.

Margt er í minninganna heimi,

mun þar ljósið þitt skína.

Englar hjá Guði þig geymi,

ég geymi svo minningu þína.

(Höf. ók.)

Elska þig amma mín.

Þín

Steinunn Kristinsdóttir.

Bréf til ömmu.

Elsku amma mín, það eru fáir jafn heppnir og ég að fá að alast upp í sama húsi og þið afi. Það voru forréttindi að hafa aðgang að þér í húsinu og að geta skotist niður til þín ef mig langaði í gott kaffi, góðar kleinur eða bara að spjalla. Við vorum ætíð góðar vinkonur. Ég mátti gera allt fyrir þig og helst vildir þú að það væri ég sem aðstoðaði þig síðustu árin. Við skildum vel hvor aðra. Báðar vorum við rólegar og tókum okkar tíma í að gera hlutina. Sama hvað þú baðst mig um var svar mitt yfirleitt „við finnum út úr því“. Þegar ég heimsótti þig á fimmtudaginn síðastliðinn sagðir þú við mig að þetta væru orðin mín og að þau væru sönn því yfirleitt fyndi ég út úr hlutunum. Nú þegar ég hleyp upp tröppurnar í húsinu okkar sé ég þig ennþá fyrir mér sitjandi við borðstofuborðið með útvarpið í botni, volgan kaffibolla við hönd að leysa krossgátur. Ég sakna þín elsku amma mín.

Við finnum út úr því.

Guðrún Auður.

Fjölskyldumynd tekin jólin 1969. Eldri hjón, virðuleg. Afi minn og amma. Glæsileg kona stendur milli ömmu og afa. Virðuleg, í kjól, með hárið lagt. Fyrir framan þrír fallegir drengir. Allir í eins vesti. Hægra megin er svo ungt par, konan með sítt hár og lítið barn í fanginu. Karlinn með alskegg og bítlahár. Glæsilega konan er Guðrún, föðursystir mín. Unga parið eru foreldrar mínir og litla barnið er ég sjálf. Tveggja ára gömul.

Guðrún frænka var elst barna Kristins afa míns. Stefán Reynir, faðir minn, var hins vegar langyngstur. Þau voru í raun og veru sitt af hvorri kynslóðinni eins og sést vel á myndinni sem ég lýsti hér að ofan.

Guðrún var að verða 17 ára þegar faðir minn fæddist. Það var því ekki að undra að móðir mín upplifði að þau hjónin, Guðrún og Haukur, hefðu verið eins og aðrir tengdaforeldrar og að þau hefðu verið henni og pabba mjög mikilvæg. Sambandið var enda alltaf mjög náið milli systkinanna tveggja og fjölskyldna þeirra. Heimilið í Hábænum stóð okkur alltaf opið og gilti þá einu hvort við vorum boðin eða mættum bara allsendis óboðin. Alltaf var tekið á móti manni með kostum og kynjum. Ég á líka góðar minningar um gönguferðir úr Fossvoginum, þar sem við áttum heima, gegnum Elliðaárdalinn og alla leið í Hábæinn til Hauks, Guðrúnar og bræðranna sem ég átti til að kalla bræður mína þegar ég var lítil. Þegar árin liðu og ég gerðist blaðamaður var Guðrún frænka svo stolt þegar greinar eftir mig fóru að birtast og geymdi greinarnar.

Guðrún frænka var glæsileg kona, grönn og fíngerð. Hún var dugleg að hreyfa sig og hélt sér í góðu formi alveg fram á síðustu ár. Það er alveg í stíl við þann mikla áhuga á útivist og íþróttum sem er eins og rauður þráður í gegnum líf þeirra hjóna og sonanna þriggja. Nokkuð sem ég er sannfærð um að þeir Þorri, Kiddi og Trausti búa að enn þann dag í dag. Haukur fylgdi þeim eftir í skíðaþjálfuninni og húsmæðrakennarinn Guðrún sá til þess að nóg væri af hollum og góðum mat.

Guðrún hafði gaman af því að taka á móti gestum og það gerði hún alveg fram á síðustu ár. Hún bauð heim systkinum sínum og mökum, Soroptimistasystrum, börnum og barnabörnum og þannig mætti áfram telja. Á 94 ára afmælinu sínu tók hún á móti gestum á heimili sínu, jafnglæsileg og alltaf en hafði mögulega ekki bakað alveg eins mikið sjálf og í boðunum góðu í Hábæ forðum daga.

Blessuð sé minning Guðrúnar frænku minnar.

Ingibjörg Stefánsdóttir.

Með nokkrum orðum langar mig að minnast vinkonu minnar Guðrúnar Kristinsdóttur sem látin er í hárri elli. Elli var þó það síðasta sem kom í hug manns þegar maður hitti hana, svo spræk sem hún var alla tíð, grönn og stelpuleg. En ákveðin. Sem sýndi sig best í því þegar hún þurfti að kljást við alvarlega sjúkdóma. Á þeim skyldi sigrast.

Já hún Guðrún breyttist lítið í gegnum árin, allt frá því að við urðum nágrannar í Hábænum fyrir rúmlega hálfri öld. Það var þegar Árbærinn var að byggjast upp og Elliðaárdalurinn smám saman að breytast í þá gróðurvin sem hann er í dag. Þar lögðu nágrannarnir allir hönd á plóg því ekki var stoppað við að gróðursetja eingöngu í eigin garði. En grænmetisgarði þurftu allir að koma sér upp sem allra fyrst og var garðurinn hennar Guðrúnar sérstaklega eftirminnilegur því uppskeran úr honum var alltaf meiri og betri en hjá öðrum. Nutum við góðs af því.

Saman fórum við í ófá skipti í berjamó eða sveppatínsluferðir en upp úr standa daglegu gönguferðirnar okkar um dalinn og kaffisopinn á eftir, oftast hjá henni. Þau voru góð árin okkar saman í Hábænum.

Að leiðarlokum langar mig að þakka Guðrúnu áratugalanga vináttu og tryggð. Við Þórir sendum börnum og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Renate og Þórir.

Kær samstarfskona okkar, Guðrún Kristinsdóttir, hefur kvatt og haldið í sína hinstu ferð, 95 ára að aldri. Leiðir okkar lágu saman í Árbæjarskóla en þar var hún fyrsti heimilisfræðikennarinn. Guðrún var mikil heiðurskona og góður félagi. Hún hafði til að bera einstaklega létta og glaða lund og lét fátt koma sér úr jafnvægi, var prúð í fasi, hógvær í orðum og hlý í viðmóti við alla. Guðrún var falleg kona, grönn og fínleg eins og álfamær, alltaf snyrtileg og vel tilhöfð. Hún var dama í orðsins bestu merkingu.

Guðrún og Sigurður Haukur, maður hennar, bjuggu í Hábænum á bökkum Elliðaánna. Garðurinn þeirra var unaðsreitur. Þar ræktuðu þau bæði blóm og grænmeti. Annað hefði ekki verið í anda heimilisfræðikennarans. Á hverju sumri bauð Guðrún samstarfskonum sínum í hverfinu í morgunkaffi á sólpallinum. Þá var veisla á borðum og fuglasöngur og niðurinn í ánni mynduðu bakraddir. Lengi var venja að kennararnir kæmu saman í Hábænum að lokinni hátíðarstund í skólanum fyrir jólafríið. Þar var sungið og spilað og slegið á létta strengi. Það er til marks um gestrisni og höfðingsskap þeirra hjóna að leggja á sig að taka á móti hópi fólks rétt fyrir jólin eftir annasaman tíma á vinnustað.

Guðrún var virk í félagslífi skólans. Þau hjón fóru á árshátíðir og í leikhús með kennarahópnum og Guðrún tók þátt í fyrstu námsferð skólans til útlanda. Þá var haldið til Glasgow en nokkrar í hópnum lengdu ferðina og fóru suður til York á slóðir norrænna manna og var Guðrún ein þeirra. Þetta voru einstaklega skemmtilegir dagar og þar sem Guðrún var elst í hópnum hlaut hún þau forréttindi að velja svefnpláss á gististaðnum. Hún valdi efri koju og þar sat hún á kvöldin, dinglaði fótunum fram af kojubríkinni og skrifaði dagbók eins og unglingsstúlka. Geri aðrar hálfsjötugar konur betur.

Þegar Árynjuhópurinn, fyrrverandi kennarar við Árbæjarskóla, fór að hittast lét Guðrún sig sjaldan vanta, glöð og jákvæð eins og hennar var vandi. Heimsfaraldur og samkomutakmarkanir settu strik í þann félagsskap eins og annað og þegar aftur mátti taka upp þráðinn var heilsu Guðrúnar tekið að hraka.

Guðrún átti góða fjölskyldu og hóp afkomenda sem hún var afar stolt af. Á níræðisafmæli hennar hélt fjölskyldan henni glæsilega veislu og þar gladdist hún með gömlum vinum og félögum. Við sendum sonum hennar og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur og óskum þeim alls góðs.

Við kveðjum Guðrúnu með söknuði og virðingu og þökkum henni áratuga góð kynni. Sumarið nálgast og birtan tekur völdin. Það var alltaf bjart í kringum Guðrúnu og nú er þessi smávaxna, ljúfa kona sem enn til þessa hefur náð hæstum aldri af kennarahópnum gengin inn í endalausa vorbirtuna.

F.h. Árynjanna,

Ásta, Bára, Guðrún B., Halldóra og Kristín.

Það er komið að kveðjustund. Systur í Soroptimistaklúbbi Árbæjar kveðja í dag kæra systur, Guðrúnu Kristinsdóttur, sem var ein af þeim 18 konum sem tóku þátt í að stofna nýjan Soroptimistaklúbb í Árbænum 18. október 1980. Guðrún var mjög stolt af því að vera Soroptimisti sem hún taldi vera lífsstíl og sagði að það hefði gefið lífi sínu gildi. Guðrún var greind kona og mikil félagsvera. Hún var afar dugleg, röggsöm og ósérhlífin og naut þess að starfa í klúbbnum og taka þátt í viðburðum á vegum Soroptimistasamtakanna innan lands sem utan. Vildi helst ekki missa af neinum fundi í Árbæjarklúbbnum og fylgdist með starfinu þó að aldurinn væri orðinn hár. Létt í skapi, nákvæm og skipulögð leysti hún þau verkefni sem henni voru fengin. Aðspurð sagði hún að starfið með Soroptimistum hefði bæði þroskað sig og jafnframt gefið sér tækifæri til að gera gagn. Guðrún var mjög virk í Árbæjarklúbbnum og gegndi mörgum embættum fyrir hann og var m.a. formaður árin 1995-1997. Heiðursfélagi varð hún í klúbbnum árið 2008. Umhverfismál voru henni hugleikin og gróðurlundur efst í Árbænum, sem klúbburinn plantaði í og annast nú, varð að veruleika að mestu leyti fyrir hennar tilstilli.

Systur í klúbbnum minnast margra skemmtilega stunda með Guðrúnu.

Hana munaði ekki um að skipuleggja og hafa yfirumsjón yfir matargerð og bakstri fyrir yfir hundrað Soroptimistasystur þegar klúbburinn hélt landssambandsfund og hún vílaði ekki fyrir sér, komin á áttræðisaldur, að sofa í efri koju á haustfundi í Munaðarnesi þótt hinar sem yngri voru treystu sér ekki til þess. Einnig muna systur eftir því þegar Guðrún dansaði uppi á borði sjötug að aldri í ferð klúbbsins til Haarlem í Hollandi en þar átti ein klúbbsystir heima.

Það er alltaf söknuður eftir góðan félaga. Því kveðjum við Guðrúnu Kristinsdóttur með trega og þökkum henni samfylgdina.

Við systur vottum fjölskyldu Guðrúnar okkar dýpstu samúð. Guð blessi minningu hennar.

F.h. systra í Soroptimistaklúbbi Árbæjar,

Kristjana Jónsdóttir.