Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson
Á sama tíma sjóðhitnar fasteignamarkaðurinn og kerfið reynist máttlaust.

Sveinn Óskar Sigurðsson

Eftir langa bið og umtalsverðar tafir, m.a. vegna framboðsáforma fyrrverandi forsætisráðherra til forseta, birti nýr fjármálaráðherra fjármálaáætlun. Þetta er þriðji fjármálaráðherrann frá því í október sl. Hafði þáverandi fjármálaráðherra og nú nýskipaður forsætisráðherra sagt af sér og „stigið til hliðar“ vegna mats umboðsmanns Alþingis (UA) á hæfni hans við söluna á Íslandsbanka.

Í janúar sl. fór matvælaráðherra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í veikindaleyfi og er nú kominn í stól innviðaráðherra sem núverandi fjármálaráðherra, formaður Framsóknarflokksins, sat í. UA hafði í upphafi ársins skilað áliti sínu varðandi bann við hvalveiðum og sagt að ákvörðun þáverandi matvælaráðherra hefði ekki samræmst kröfum um meðalhóf og ekki átt sér skýra stoð í lögum.

Eftir þessi ósköp öll er nú loksins komið á daginn að fjármálaráðherra getur horft fram holóttan veginn úr sínu fyrra ráðuneyti og metið hvaða grýttu götu ný ríkisstjórn ætlar að rata með almenning í fjármálum. Hér eru flestir ráðamenn hinir sömu um borð, reyndar í öðrum ráðuneytum, og nýr matvælaráðherra sem veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Í fjármálaáætlun til næstu fimm ára er sagt að þar sé mörkuð stefna sem ætlað er að lækka verðbólgu sem stendur nú í 6,8%. Er það svo? Stórir kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum hafa verið gerðir og stýrivextir Seðlabanka Íslands (SÍ) standa enn í 9,25%.

Í frétt á mbl.is 20. mars sl. áréttar aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) mikilvægi þess að opinberi vinnumarkaðurinn semji í anda almenna vinnumarkaðarins. Því er ekki lokið. Í sömu frétt kemur fram mikilvægi þess einnig að stjórnvöld sýni aðhald í rekstri enda ekki séð að peningastefnunefnd SÍ sjái sér fært að hefja vaxtalækkanir fyrr en sjá megi með skýrari hætti hver áhrif gerðra samninga verða og hvort ríkisfjármálin gætu aukið eftirspurn og valdið verðbólguþrýstingi.

Nú 1. apríl losnuðu kjarasamningar aðildarfélaga Bandalags háskólamanna (BHM) og í frétt á visir.is 25. mars sl. kemur fram hjá formanni BHM að ólíklegt sé að öll 24 aðildarfélögin gangi saman til viðræðna. Í frétt frá 14. desember sl. á vef Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, www.bsrb.is, er fjallað um kjaramál, launaþróun og kjaratölfræði í tengslum við útgáfu skýrslu kjaratölfræðinefndar (KTN), sem heyrir undir félags- og barnamálaráðherra. Þar kemur fram, sem SA hefur m.a. fjallað ítrekað um, að hækkun grunntímakaups hafi í heild numið 27,2% á tímabilinu mars 2019 til nóvember 2022. Hækkunin var minnst á almenna vinnumarkaðnum eða 25,9%. Hjá ríkinu hækkaði grunntímakaup hins vegar um 27,9%. Hækkunin reyndist svo mest hjá sveitarfélögum þar sem grunntímakaupið hækkaði um 35,9%, hjá Reykjavíkurborg 33,7%. Samfylkingin er ekki saklaus af því.

Þegar Íslendingar búa sig undir veturinn þekkja þeir það flestir að líta verður til baka, læra af reynslunni og meta bæði menn og náttúru til að kunna að bregðast við hinu fyrirséða enda hið óvænta ávallt afbrigði frá því. Hvað ríkisstjórnina áhrærir virðist engu að treysta og skiptir litlu hvort fulltrúar þessara flokka sitji þar eða í sveitarstjórnum. Verðbólgan varð til í tíð þeirra ráðherra sem nú sitja í ríkisstjórn, er af þeirra völdum, og ekki séð að ný fjármálaáætlun geti snúið þar við blaðinu.

Sé litið til heildartekna og -gjalda hins opinbera 2023 og árin þar á undan hafa gjöld verið umfram tekjur. Á síðasta ári námu tekjur 43,1% af vergri landsframleiðslu en gjöld 45,1%. Hið opinbera eyðir því meiru en það aflar. Hvað þýðir það? Það þýðir ósjálfbærni í rekstri hins opinbera, ábyrgðarleysi við stjórn efnahagsmála og engin fyrirhyggja í peningamálum. Skuldum er velt áfram á komandi kynslóðir. Á sama tíma sjóðhitnar fasteignamarkaðurinn og kerfið reynist máttlaust. Athugið að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn stýra landsmálunum ásamt VG sem og fjölda sveitarstjórna.

„Aðhaldið“ sem boðað er í þessari ólánsömu fjármálaáætlun er sagt nema einum 25 milljörðum króna. Þrátt fyrir það virðist ekkert lát vera á ríkisútgjöldunum enda ekki séð að hallarekstri verði hætt fyrr en árið 2028 samkvæmt áætluninni.

Hver og einn ráðherra, m.a. vegna samstöðu- og samráðsleysis í þriggja flokka hræðslubandalagi, kafar ofan í vasa skattgreiðenda og telur að endalaust sé hægt að segja almenningi ósatt um óráðsíuna. Hvers vegna er t.a.m. ætlunin að fara í fokdýra framkvæmd við borgarlínu? Þessi framkvæmd er ekki tímabær, hún tefur umferð og skapar bæði almenningi og atvinnulífi beinan og óbeinan kostnað. Annar kostur er í boði. Þessi áform öll eru ekki aðhaldsáform heldur geta beinlínis reynst fjárhags- og efnahagslega skaðleg.

Gerð fjárlaga var breytt með lögum um opinber fjármál nr. 123/2015 og tóku gildi 1. janúar 2016. Umgjörðin öll var þá talin til bóta og m.a. reiknað með aðhaldi svo ekki þyrfti að setja fjáraukalög því það yrði „nóg til“ ef eitthvað alvarlegt bjátaði á. Var svo m.a. þegar tveimur milljörðum króna var ráðstafað úr galopnum varasjóði án reglugerðar í rándýran leiðtogafund Evrópuráðsins?

Höfundur er oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ.