Forstöðumaðurinn Úlfar á skrifstofu Stofnunar Sigurðar Nordals.
Forstöðumaðurinn Úlfar á skrifstofu Stofnunar Sigurðar Nordals. — Ljósmynd/Jóhanna Ólafsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úlfar Bragason fæddist 22. apríl 1949 í Bjarkastíg 7 á Akureyri og ólst þar upp. „Ég var stundum hjá föðursystkinum mínum á Laugum í Reykjadal um tíma á sumrin, aðallega hjá Halldóru Sigurjónsdóttur, skólastjóra Húsmæðraskólans á Laugum, eftir …

Úlfar Bragason fæddist 22. apríl 1949 í Bjarkastíg 7 á Akureyri og ólst þar upp.

„Ég var stundum hjá föðursystkinum mínum á Laugum í Reykjadal um tíma á sumrin, aðallega hjá Halldóru Sigurjónsdóttur, skólastjóra Húsmæðraskólans á Laugum, eftir að börn hennar voru flutt að heiman og barnabörnin ekki komin til sögunnar. Ég fór annars snemma að vinna að sumarlagi, við skógrækt, garðyrkju, byggingarvinnu, í Síldarverksmiðjunni í Krossanesi og á pósthúsinu á Akureyri. Var í Skátafélagi Akureyrar á unglingsárum og fékk forsetamerki fyrir störf mín þar.“

Úlfar var í smábarnaskóla hjá Elísabetu Eiríksdóttur, kennara og formanni Verkakvennafélagsins Einingar á Akureyri. Hann gekk í Barnaskóla Akureyrar, Gagnfræðaskólann og Menntaskólann á Akureyri og tók stúdentspróf úr máladeild 1969. Úlfar stundaði nám í íslensku og sagnfræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan BA-prófi 1973. Hann lauk mag. art.-prófi í bókmenntafræði frá Háskólanum í Ósló 1979, tók próf í kennslufræði til kennsluréttinda við Háskóla Íslands 1981 og lauk doktorsprófi í norrænum fræðum frá Kaliforníuháskóla í Berkeley 1986.

Úlfar kenndi íslensku og sagnfræði í framhaldsskólum 1973-1974 og 1979-1983 og var gistilektor í norsku og norrænu við Chicagoháskóla 1986-1987. Hann var skipaður forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordals við Háskóla Íslands í ársbyrjun 1988 og gegndi því starfi til ágústloka 2006. Við sameiningu fimm stofnana í íslenskum fræðum í september 2006 varð Úlfar rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og stofustjóri og gegndi þeim störfum þar til hann fór á eftirlaun í apríllok 2019.

„Samkvæmt reglugerð um Stofnun Sigurðar Nordals var hlutverk hennar „að efla hvarvetna í heiminum rannsóknir og kynningu á íslenskri menningu að fornu og nýju og tengsl íslenskra og erlendra fræðimanna á því sviði“. Starfsemin afmarkaðist af fjárveitingum á fjárlögum og beindist einkum að því sem aðrar stofnanir í íslenskum fræðum sinntu ekki – svo sem upplýsingamiðlun, ráðstefnum, málþingum og styrkveitingum en ekki síst að stuðningi við kennslu í íslensku við háskóla erlendis og sumarnámskeiðum í íslensku fyrir erlenda stúdenta hér á landi.“

Úlfar sat í samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis 1992-2019, í stjórn Snorrastofu í Reykholti, úthlutunarnefnd styrkja Snorra Sturlusonar, úthlutunarnefnd styrkja menntamálaráðuneytis til náms í íslensku við Háskóla Íslands og í stjórnarnefnd sumarnámskeiða í Norðurlandamálum um árabil. Hann sá um sumarnámskeið í íslensku við Háskóla Íslands 1989-2019 og kenndi í stundakennslu við skólann um íslenska menningu, einkum bókmenntir. „Ég var í teymi kennara og nemenda sem vann námsefnið Icelandic Online, sem er einkum ætlað erlendum stúdentum til náms í íslensku, og stjórnaði gerð þess með Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessor í ensku og annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands.“ Icelandic Online fékk sérstaka viðurkenningu á Degi íslenskrar tungu 2014.

„Doktorsritgerð mín fjallaði um frásagnarfræði Sturlungusamsteypunnar og rannsóknir mínar hafa beinst að miðaldabókmenntum, einkum samtíðarsögum, og flutningum Íslendinga til Vesturheims á árunum 1870-1914.“ Úlfar hefur flutt fjölda fyrirlestra um þessi efni, birt greinar og gefið út bækur, síðast bókina Reykjaholt Revisited: Representing Snorri in Sturla Þórðarson's Íslendinga saga (2021). Á síðasta ári kom út greinasafnið Icelandic Heritage in North America sem hann ritstýrði með Birnu Arnbjörnsdóttur og Höskuldi Þráinssyni, fv. prófessorum við Háskóla Íslands.

„Nú er ég að vinna að tveimur bókum, önnur þeirra er safn bréfa Ingunnar Sigurjónsdóttur frá berklahælum og er ætlunin að hún komi út í haust, hin mun fjalla um niðurstöður svokallaðs Staðarhólsverkefnis, þverfaglegrar rannsóknar um Staðarhól í Dölum, sem margir hafa komið að, og er ætlunin að sú bók komi út á ensku á næsta ári.

Vegna náms míns var ég langdvölum erlendis og vegna starfa minna á Stofnun Sigurðar Nordals og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hef ég farið víða um lönd og heimsótt óteljandi háskóla. Eftir að ég fór á eftirlaun er ég ýmist í Reykjavík eða Finnlandi, aðallega í Helsinki og Täkter, þar sem Roger, maðurinn minn, á hús. Ég hef alltaf lesið mikið vegna starfs míns og mér til ánægju og sótt menningarviðburði.

Þegar ég var strákur ferðaðist ég um allt land með foreldrum mínum. Á þessum ferðum kynntist ég landinu, náttúru þess og sögu og mannlífinu til sjávar og sveita, ekki síst til sveita því að faðir minn var úr sveit og foreldrar móður minnar voru sveitafólk sem hafði flutt á mölina á Akureyri. Nú gef ég mér allt of lítinn tíma til að ferðast um landið. En Akureyri á mikil ítök í mér og ég reyni að fara þangað einu sinni eða tvisvar á ári og sleppi þá auðvitað ekki að fara austur í Þingeyjarsýslu þar sem rætur mínar liggja. Undanfarin sumur hef ég aðallega notið þess að vera í sveitinni á Nygård í Täkter.

Annars hef ég alltaf stundað sund frá því ég var strákur, bæði á Akureyri og Laugum. Nú sæki ég laugarnar í Vesturbæ og á Seltjarnarnesi og víðs vegar um Suður-Finnland þegar ég hef tækifæri til.

Í tilefni dagsins ætlum við Roger að skoða sýningu á abstraktverkum Lars-Gunnars Nordströms (1924-2014) í Helsingfors Konsthall og borða á Michelin-veitingastaðnum Finnjävel sem þar er til húsa.“

Fjölskylda

Maki Úlfars er Roger Westerholm, f. 27.11. 1952, búfræðingur og löggiltur skjalaþýðandi. Þeir eru búsettir í Helsinki í hverfinu Berghäll. Foreldrar Rogers voru hjónin Helge Westerholm, f. 12.7. 1920, d. 6.11. 2004, bóndi í Nygård, Täkter, og Valborg Westerholm, f. 15.11. 1923, d. 7.5. 2018, húsfreyja.

Systkini Úlfars: Sigurjón Bragason skrifstofumaður, f. 24.4. 1937, d. 4.2. 1976; Hrafn Bragason, fv. hæstaréttardómari, f. 17.6. 1938; Þórunn Bragadóttir, fv. sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, f. 13.7. 1940; Gunnhildur Bragadóttir sjúkraliði, f. 5.12. 1941; Ragnhildur Bragadóttir skrifstofumaður, f. 1.2. 1944, d. 7.10. 2010. Hálfbræður samfeðra eru Helgi Ómar Bragason, f. 30.7. 1954, kennari og fv. skólameistari, og Kormákur Þráinn Bragason, f. 24.11. 1955, kennari.

Foreldrar Úlfars voru hjónin Helga Jónsdóttir, f. 28.1. 1909, d. 18.8. 1996, húsmóðir, og Bragi Sigurjónsson, f. 9.11. 1910, d. 29.10. 1995, bankaútibússtjóri, alþingismaður og rithöfundur á Akureyri.