Seiðaeldisstöð Seiðaeldisstöð Laxeyjar við Friðarhöfn í Vestmannaeyjum.
Seiðaeldisstöð Seiðaeldisstöð Laxeyjar við Friðarhöfn í Vestmannaeyjum. — Morgunblaðið/Óskar Pétur
Fiskeldisfyrirtækið Laxey í Vestmannaeyjum hefur tryggt sér 40 milljóna evra hlutafjáraukningu sem jafngildir ríflega sex milljörðum króna og koma bæði innlendir og erlendir aðilar að fjárfestingunni

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fiskeldisfyrirtækið Laxey í Vestmannaeyjum hefur tryggt sér 40 milljóna evra hlutafjáraukningu sem jafngildir ríflega sex milljörðum króna og koma bæði innlendir og erlendir aðilar að fjárfestingunni. „Það er ánægjulegt að klára þennan áfanga,“ segir Lárus Ásgeirsson stjórnarformaður Laxeyjar í samtali við Morgunblaðið.

„Það er ánægjulegur viðburður að landeldi á Íslandi fái alþjóðlega fjármögnun,“ segir hann.

Að sögn Lárusar koma nokkrir fjárfestar að verkefninu, bæði innlendir og erlendir, þýska fyrirtækið Blue Future Holding er stærsti einstaki fjárfestirinn. Það fyrirtæki veltir um sex milljörðum evra á ári. Blue Future Holding er í eigu þarlendrar fjölskyldu og umfangsmikið á sviði kjúklingaræktar, bæði í eldi sem og í framleiðslu stofnkjúklinga og genetískri þróun á alidýrum.

Meðal annarra fjárfesta er hollenska fyrirtækið Nutreco sem er einn stærsti fóðurframleiðandi í heimi. Norska fyrirtækið Seaborn er einnig í fjárfestahópnum, en það er einn stærsti seljandi lax í heiminum. Næststærsti fjárfestirinn er hollenskt útgerðarfyrirtæki sem er stórt í veiðum á uppsjávarfiski.

„Síðan er líka í hópnum franskt fyrirtæki sem er sölu- og dreifingaraðili í Frakklandi og svo koma íslenskir aðilar að þessu, bæði einstaklingar og lífeyrissjóðir,“ segir Lárus. Lífeyrissjóðurinn Festa er í hópnum, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja sem og Almenni lífeyrissjóðurinn.

„Allir þessir sjóðir koma myndarlega að þessari fjármögnun,“ segir Lárus.

Meðal innlendra fjárfesta eru Snæból í eigu Finns R. Stefánssonar, en stærsti einstaki hluthafinn í Laxey er útgerðarfélagið Ós og tengdir aðilar.

Lárus segir að eftir þessa hlutafjáraukningu sé Laxey að 80% í eigu innlendra aðila en 20% hluthafa eru erlend.

„Við erum búnir að sækja yfir 80 milljónir evra í hlutafé og uppbygging fyrirtækisins er nær eingöngu með eigin fé, hlutafé, en ekki með lánsfé. Með þessu gerum við ráð fyrir að geta klárað að byggja upp seiðastöð fyrirtækisins og alla innviði í Viðlagafjöru fyrir áframhaldandi uppbyggingu þar og byggja upp fyrsta áfangann til að framleiða 4.500 tonn af slægðum laxi,“ segir Lárus og bætir við að ætlunin sé að hefja laxaslátrun á síðasta ársfjórðungi 2025. „Þetta er stærsti áfanginn, þá verðum við farnir að framleiða fisk og sýnum fram á að áætlanir okkar ganga eftir. Þetta er gríðarlega mikilvægur áfangi og gefur okkur færi á að hefja framleiðslu, fá tekjur og auðvelda aðkomu banka að rekstrinum,“ segir hann og bætir því við að áform séu uppi um að sækja 160 milljónir evra til viðbótar í nýtt hlutafé.