Bilun Flutningaskipið Treville fer hvergi næstu vikuna að sögn umboðsmanns þess á Íslandi, Sigurðar Kristins Sigtryggssonar hjá Atlantic Shipping.
Bilun Flutningaskipið Treville fer hvergi næstu vikuna að sögn umboðsmanns þess á Íslandi, Sigurðar Kristins Sigtryggssonar hjá Atlantic Shipping. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
„Þetta hefur gengið ágætlega en ætlar þó að taka lengri tíma en við bjuggumst við í fyrstu,“ segir Sigurður Kristinn Sigtryggsson, umboðsmaður og skipamiðlari hjá skipaumbjóðandanum Atlantic Shipping, í samtali við Morgunblaðið og er inntur eftir…

„Þetta hefur gengið ágætlega en ætlar þó að taka lengri tíma en við bjuggumst við í fyrstu,“ segir Sigurður Kristinn Sigtryggsson, umboðsmaður og skipamiðlari hjá skipaumbjóðandanum Atlantic Shipping, í samtali við Morgunblaðið og er inntur eftir gangi mála hvað snertir hollenska flutningaskipið Treville sem varðskipið Freyja dró til Húsavíkur í síðustu viku. Sigurður segir viðgerðina líklega munu taka alla vikuna sem nú er að hefjast þrátt fyrir að bilunin í Treville hafi ekki verið talin alvarleg í fyrstu.

„Þeir losuðu á Akureyri og voru svo á leið út aftur þegar bilunin kom upp,“ segir Sigurður frá en hlutverk fyrirtækis hans, sem umboðsaðili erlendra sjófara, er að vera erlendum áhöfnum og útgerðum innan handar við að skipin fái alla þá þjónustu sem þörf er á í íslenskum höfnum auk þess að útvega þeim pláss við bryggju og vera innan handar um aðrar nauðsynjar sem erlendar áhafnir vanhagar um.

„Við erum líka tengiliðir við Landhelgisgæsluna og aðra viðbragðsaðila,“ heldur Sigurður áfram og kveður aðspurður að sjaldgæft sé að aðstoða þurfi erlend skip vegna bilana. „Yfirleitt er það bara eitthvað sem gerist á meðan skipið er í höfn og við þurfum að tengja það við einhverja sérfræðinga í landi, ég held að þetta sé í fyrsta skiptið sem svona lagað kemur upp síðan ég hóf störf þarna.“

„En svona kemur auðvitað upp og þá er það okkar mál að leysa það,“ segir Sigurður, tryggingafélög skipanna sjái svo um fjárhagshlið málsins, hún komi hvergi nálægt starfi íslenska umboðsaðilans.