Gunnar Hrafn Birgisson
Gunnar Hrafn Birgisson
Órökleg viðhorf geta virkað truflandi á sjálfstraust og mest áhrif hafa kröfusemi og sjálfsniðrun.

Gunnar Hrafn Birgisson

Áhugi rannsakenda í sálfræði hefur beinst að áhrifum viðhorfa á sjálfstraust íþróttafólks og þaðan á keppniskvíða, óholla reiði og einkenni þunglyndis. Sjálfstraust vísar til trúar persónu á eigin getu til þess að ná settu marki (self-confidence) og til sömu trúar í sérstökum aðstæðum (self-efficacy).

Sjálfstraust hefur sínar flækjur. Til dæmis heyrist stundum eftir sigra að leikmenn hafi þá öðlast sjálfstraust og búast megi við áframhaldandi velgengni. Svo kannski tapast næsti leikur. Þá gæti tapið verið útskýrt með of litlu sjálfstrausti leikmanna. Sveiflast sjálfstraust svona mikið eftir sigrum eða töpum?

Öflugt hugarfar íþróttamanna er mikilvægt enda fást þeir við áskoranir, mótlæti og stundum áföll, t.d. alvarleg slys. Í þeim tilgangi að styrkja það hefur kenning um rökræna tilfinninga- og atferlismeðferð (REBT), sem sálfræðingurinn Albert Ellis (1913-2007) setti fram árið 1955, verið til skoðunar. Hún kom fyrst af mörgum kenningum um hugræna atferlismeðferð. Kenningin er gagnreynd og hundruð gæðarannsókna í yfir hálfa öld sýna stöðugt árangur í fremstu röð, m.a. við kvíðaröskun og þunglyndi. Það gildir á mörgum sviðum, bæði fyrir börn og fullorðna.

Samkvæmt REBT er mannshuganum það náttúrulegt að skapa annars vegar rökleg viðhorf og hins vegar órökleg viðhorf, sem hafa mjög ólíkar afleiðingar. Þessi viðhorf eru ekki föst heldur er hægt að vinna með þau.

Rökleg viðhorf tengjast sálrænu heilbrigði. Þau einkennast af því að vera sveigjanleg og öfgalaus. Til dæmis: „Ég vil sigra en það verður ekki að gerast.“ Helst þeirra er valsemi (preferences) sem vísar til vilja fólks og valkosta, óska þess, langana, ætlana o.fl. Til röklegra viðhorfa teljast m.a. samþykki (acceptance) á sig sem manneskju, samþykki á annað fólk og á lífið sjálft, og mikið þol fyrir óþægindum og mótlæti.

Órökleg viðhorf tengjast sálrænum og félagslegum vanda. Þau eru fjögur og tengjast innbyrðis. Þau finnast helst undir yfirborði vitundar, sem þýðir að við áttum okkur oft ekki á tilvist þeirra eða virkni. Þetta eru metandi viðhorf sem einkennast af ósveigjanleika og öfgum. Til að sjá við þeim þarf iðulega að gá betur að.

Helst óröklegu viðhorfanna er kröfusemi (demandingness). Hún á við absolútt kröfur í eigin garð, kröfur til annarra eða til lífsins og tilverunnar. Þær einkennast af ýktu mati og stífni, t.d. „ég verð að vinna“ eða „ég á að sigra“. Kröfusemi telst lykilhugtak í skýringum sálmeina. Hún finnst mitt við rætur þunglyndis. Færsla úr kröfusemi yfir í valsemi léttir á þunglyndi og getur breytt því t.d. í heilbrigð vonbrigði eða sorg sem grær.

Hin þrjú óröklegu viðhorfin eru altæk sjálfsniðrun, t.d. „ég er algjör aumingi“, lítið mótlætisþol, t.d. „þetta er alltof erfitt og alveg óþolandi fyrir mig“, og hörmungarhyggja, t.d. „þetta er alveg ömurlegt, algjör hryllingur“.

Órökleg viðhorf geta virkað truflandi á sjálfstraust og mest áhrif hafa kröfusemi og sjálfsniðrun. Í íþróttum getur þessu fylgt keppniskvíði og önnur óþægindi. Það á við bæði í einstaklings- og hópgreinum, s.s. hlaupum og fótbolta. Í hópum fá meðlimir aðeins vernd en það er ekki algilt.

Þó að það geti stundum verið erfitt að breyta óröklegum viðhorfum þá virka ýmsar aðferðir til þess. Þar gildir að þjálfa sig líkt og í svo mörgu. Breytingar má gera hugrænt, tilfinningalega eða með virku atferli.

Rökleg viðhorf virðast styrkja sjálfstraust fólks, gera samskipti þess lipurri og stuðla að lífsánægju. Þau virka líka sem forvörn við sálmeinum, m.a. einkennum áfallastreitu. Þetta úrræði hefur verið mjög vanmetið á fræðasviðum, m.a. í sálfræði, líkt og gildir um fleiri karakterstyrkleika sem jákvæð sálfræði lýsir en hún skarast vel við REBT.

Heimildir:

Bandura, A. (1997). Self-efficacy: The exercise of control. W. H. Freeman.

Bernard, M.E., Froh, J.J., Digiuseppe, R.A., Joyce, M.R., & Dryden, W. (2010). Albert Ellis: Unsung hero of positive psychology. The Journal of Positive Psychology, 5, 302-310.

Ellis, A. (1994). Reason and emotion in psychotherapy (2. útg.). Secaucus, NJ: Carol Publishing Group.

David, D., Cotet, C., Matu, S., Mogoase, C., & Stefan, S. (2018). 50 years of rational-emotive and cognitive-behavioral therapy: A systematic review and meta-analysis. Journal of Clinical Psychology, 74(3), 304-318.

Hyland, P., Maguire, R., Shevlin, M., & Boduszek, D. (2014). Rational beliefs as cognitive protective factors against posttraumatic stress symptoms. Journal of Rational-Emotive & Cognitive-Behavior Therapy, 32(4), 297-312.

Szentagotai-Tâtar, A., Cândea, D.M., & David, D.O. (2019). REBT and positive psychology. Í M.E. Bernard & W. Dryden (ritstj.), Advances in REBT: Theory, practice, research, measurement, prevention and promotion (pp. 247-266).

Turner, M.J., Carrington, S., & Miller, A. (2019). Psychological distress across sport participation groups: The mediating effects of secondary irrational beliefs on the relationship between primary irrational beliefs and symptoms of anxiety, anger, and depression. Journal of Clinical Sport Psychology, 13(1), 17-40.

Höfundur er sálfræðingur.