Á Reykjanesi Fjallið Arnarfell í Krísuvík. Náttúran þar er einstök.
Á Reykjanesi Fjallið Arnarfell í Krísuvík. Náttúran þar er einstök. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óvissa er um framtíð Reykjanesfólkvangs. Sveitarfélögin sem eiga aðild að fólkvanginum, en eiga ekki land innan hans, eru að segja sig úr samstarfinu. Sveitarfélögin sem málið varðar funduðu um málið sl

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Óvissa er um framtíð Reykjanesfólkvangs. Sveitarfélögin sem eiga aðild að fólkvanginum, en eiga ekki land innan hans, eru að segja sig úr samstarfinu.

Sveitarfélögin sem málið varðar funduðu um málið sl. fimmtudag.

Sverrir Bergmann Magnússon situr í stjórn Reykjanesfólkvangs sem fulltrúi Reykjanesbæjar. „Það hefur ekkert verið staðfest enn þá en umræðan er á þann veg að þau sveitarfélög sem eiga ekki landsvæði innan fólkvangsins eru að fara úr honum. Frekari ákvarðanir hafa ekki verið teknar,“ segir Sverrir og bendir á að staðfesta þurfi þessar ákvarðanir í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.

Reykjavík, Kópavogur, Vogar og Reykjanesbær eru meðal sveitarfélaga sem hyggjast segja sig úr samstarfinu.

Stórt friðlýst svæði

Svæði Reykjanesfólkvangs er sýnt á grafinu hér til hliðar.

Á vefsíðu fólkvangsins, visitreykjanes.is, segir að hann sé stórt friðlýst svæði tilvalið til útivistar og náttúruskoðunar.

„Reykjanesfólkvangur er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa sjö sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík og Reykjanesbær.

Fólkvangurinn er um 300 ferkílómetrar að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar. Þar er meiri gróður en víðast hvar annars staðar á Reykjanesskaga og er landið kjörið til útivistar og náttúruskoðunar,“ segir þar m.a.

Fjallað var um málið í Kópavogspóstinum 11. apríl síðastliðinn. Þar var vitnað í umsögn Ásu A. Kristjánsdóttur bæjarlögmanns Kópavogsbæjar sem benti á að landsvæðið væri að mestu í eigu ríkisins og innan staðarmarka annarra sveitarfélaga. „Umhverfisstofnun hefur, þrátt fyrir ítrekanir stjórnar, ekki gert stjórnunar- og verndunaráætlun líkt og henni ber að gera fyrir friðlýst svæði.“

Enginn samningur í gildi

Þá sagði í erindi Reykjanesbæjar á stjórnarfundinum fyrir helgi að enginn samningur væri til „á milli umræddra sveitarfélaga í fólkvangnum um rekstur hans og landvörður svæðisins hefur verið samningslaus síðan árið 2022 en hann hefur starfað frá árinu 2009 sem vörður á svæðinu frá 15. apríl til 15. október“, sagði í erindinu en jafnframt var vikið að útgjöldum vegna svæðisins.

„Ljóst er að mikið af ferðamönnum og heimamönnum fer um þessa fögru náttúru en Seltún og hverasvæðið í Krísuvík er þar vinsælast. Kostnaður Fólkvangsins er um 8,2 milljónir á ári sem skiptist á sveitarfélögin. Hafa þarf í huga að Reykjanesbær tekur þátt í öðru stóru verkefni, Reykjanes Unesco Geopark, sem stofnað var árið 2015. Landsvæðið sem Reykjanesjarðvangur tilheyrir er allur Reykjanesskaginn, alls 829 ferkílómetrar, fyrir utan landsvæðið sem tilheyrir Reykjanesfólkvangi,“ sagði þar jafnframt.

Loks er ítarlega fjallað um tilurð fólkvangsins á vefsíðu samtakanna FERLIR, en sjálfboðaliðar á vegum þeirra hafa unnið að kortlagningu svæðisins. Segir þar að dr. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur hafi átt hugmyndina að stofnum fólkvangsins.