Holuhraun Skjálftinn er sá stærsti sem orðið hefur í Bárðarbungu í níu ár.
Holuhraun Skjálftinn er sá stærsti sem orðið hefur í Bárðarbungu í níu ár. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jarðskjálftinn sem varð í Bárðarbungu í gærmorgun mældist 5,4 að stærð samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands. Hann er sá stærsti sem hefur mælst í Bárðarbungu síðan eldgosinu í Holuhrauni lauk árið 2015 eða í níu ár

Kristján Jónsson

Freyr Bjarnason

Jarðskjálftinn sem varð í Bárðarbungu í gærmorgun mældist 5,4 að stærð samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands. Hann er sá stærsti sem hefur mælst í Bárðarbungu síðan eldgosinu í Holuhrauni lauk árið 2015 eða í níu ár.

Skjálftinn gæti hafa fundist lítillega í flestum landshlutum en ein tilkynning barst veðurstofunni frá Dalvík um að jarðskjálftinn hefði fundist þar. Eftirskjálfti mældist 3 að stærð en eftir það var rólegt í Bárðarbungu í gær.

„Það koma reglulega stórir skjálftar á þessu svæði en tíðnin hefur farið minnkandi. Fyrst eftir gosið í Holuhrauni voru margir stórir skjálftar en þeir koma sjaldnar. Stærstu tíðindin í þessu eru að þetta er stærsti skjálftinn í langan tíma eða síðan í gosinu,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Ekki nýtt af nálinni

Spurður hvort þetta sé vísbending um að þrýstingur sé á svæðinu bendir hann á landrisið.

„Strax í lok eldgossins í Holuhrauni sáum við landris í kringum Bárðarbungu. Reyndar hægði á því fyrir nokkrum árum en það hefur þó haldið áfram. Það er alveg skýrt að það er kvikusöfnun undir Bárðarbungu en það hefur verið viðvarandi og er ekki ný tíðindi. Við þurfum að hafa augun á þessari eldstöð en maður veit ekki hvenær hún er næst tilbúin að gera eitthvað. Ekki fyrr en maður sér eitthvað meira. Þetta er vissulega merki um virkni en þýðir ekki endilega að eitthvað gerist á næstunni.“

Benedikt bendir á að skjálftavirkni sé ekki ný af nálinni í Bárðarbungu. Þar hafi verið löng hrina fyrir nokkrum áratugum.

„Í þessu samhengi er ágætt að hafa í huga að stórir skjálftar voru viðvarandi í Bárðarbungu í kringum 1970 og 1980 minnir mig. Ég man ártölin ekki nákvæmlega en það tímabil stóð í tvo áratugi eða svo. Þetta er því ekki nýtt.“

Viðbragðið ekki aukið

Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir sérfræðinga hafa tekið eftir lítils háttar auknum jarðskorpuhreyfingum á svæðinu síðan í byrjun síðasta árs en þær komu ekki fram í aukinni jarðskjálftavirkni fyrr en í febrúar á þessu ári.

„Þetta gæti verið byrjunin á einhverju margra ára ferli en vísbendingar eru um að það sé þrýstingsaukning á svæðinu,“ segir Hildur María og bætir við að starfsfólk Veðurstofunnar muni fylgjast náið með gangi mála.

Engin ástæða sé þó til að auka viðbragðið, enda ekki gert ráð fyrir að neitt sé að fara af stað núna.