[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þrátt fyrir að margir hafi gefið sig fram til leiks í komandi forsetakjöri virðist óhætt að fullyrða að fylgið hafi nú þegar stokkast þannig að greina megi hverjir eigi þar raunhæfa möguleika og erindi og hverjir ekki

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Þrátt fyrir að margir hafi gefið sig fram til leiks í komandi forsetakjöri virðist óhætt að fullyrða að fylgið hafi nú þegar stokkast þannig að greina megi hverjir eigi þar raunhæfa möguleika og erindi og hverjir ekki.

Það er augljóst af súluritinu efst hér á síðunni.

Þannig má segja að skipta megi frambjóðendum í þrjár deildir; þá tvo sem berjast um toppsætið í könnunum, þá tvo sem koma þar á eftir með sæmilegt fylgi, og svo hina sem brekkan virðist óðum að verða of brött fyrir.

Varlegt er þó að slá nokkru slíku föstu, Halla Tómasdóttir hefur minnt á þann árangur sem hún náði nokkuð óvænt í forsetakjöri 2016, en nafna hennar, Halla Hrund Logadóttir, hefur á undanförnum vikum reist sig hraðar en nokkur átti von á.

Miðað við könnun Prósents, sem hér er lögð til grundvallar, hefur Halla á aðeins einni viku aukið fylgi sitt um helming, farið úr 12% í 18%, og kosningabaráttan ekki formlega hafin.

Það er hins vegar einnig auðsætt að breytingar á fylgi annarra frambjóðenda hafa ekki verið jafndramatískar, svona ef litið er hjá þessum með allra minnsta fylgið og smæsta breyting getur verið hlutfallslega mikil án þess að skipta nokkru máli.

Mikill munur á könnunum

Á súluritinu efst á síðunni má sjá að það er nokkur munur á efstu mönnum, Baldur er þar mældur með rúm 27% en Katrín með tæp 24%.

Nákvæmni fylgismælinga af þessu tagi er hins vegar ekki fullkomin, svo reikna má vikmörk á þeim. Þau eru töluverð og svo mikil að hvorki telst tölfræðilega marktækur munur á Baldri og Katrínu annars vegar og Höllu Hrund og Jóni hins vegar.

Kannanir eru ekki heldur fullkomnar að því leyti að úrtakið getur aldrei speglað þjóðarlíkamann fullkomlega, það er t.d. afar ósennilegt að svo hittist á að hlutfallsleg aldursskipting svarenda sé hin sama og hlutfallsleg aldursskipting þjóðarinnar.

Reynt er að sjá við þessu með því að vigta svörin til þess að leiðrétta fyrir slíkum mun hvað varðar kyn, aldur og búsetu. Vitaskuld mætti nefna fleiri lýðfræðiega þætti á borð við tekjur, menntun og annað slíkt, en ekki verður við öllu séð.

Ofan á það bætist svo að þótt reikna megi með 75-85% kjörsókn, þá er hún nokkuð mismunandi eftir hópum. Eldra fólk er þannig mun líklegra til þess að kjósa en hið yngsta, svo vilji menn gera góða kosningaspá þyrfti að reikna með því líka. Það er ekki gert í könnunum alla jafna.

En það er athyglisvert að bera saman mismunandi kannanir, sem gerðar eru af ýmsum rannsóknarfyrirtækjum. Í súluritinu hér fyrir miðri grein má þannig sjá niðurstöður efstu frambjóðenda í síðustu könnunum, en sem sjá má getur munurinn verið mikill. Hann má að hluta til skýra með því, að þær eru ekki gerðar á sama tíma og fylgið á hreyfingu, en ugglaust ræður mismunandi aðferðafræði og þá sérstaklega mismunandi úrtök og svörun miklu.

Að því leyti má segja að kannanir gefi vísbendingar, ekki síst um fylgishreyfingar, en þær gefa ekki nákvæma forsögn um úrslitin enn og því næg spenna eftir í kosningabaráttunni.

Prósent

Framkvæmd könnunar

Könnun Prósents var framkvæmd með netkönnun dagana 16. til 21. apríl 2024. Úrtakið var 2.300 manns, 18 ára og eldri, en svarhlutfall var 53,3% í heildina.

Gögn eru vegin til þess að úrtakið endurspegli betur lýðfræðilega þætti og þannig álit þjóðarinnar með tilliti til kyns, aldurs og búsetu.