— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ágætu borgarstjórar, þótt búið sé að prímsigna þetta skemmdarverk í stofnunum borgarinnar, þá er enn ekki of seint að hverfa frá verknaðinum.

Sundhöll Reykjavíkur er meðal merkustu bygginga borgarinnar. Hún hefur ekki bara glæsilegt klassískt ytra útlit heldur er innri gerð hennar samgróin þeirri heild sem blasir við úti sem og inni í lauginni sjálfri.

Hún er ein af fyrstu og fáum byggingum frá fyrri helmingi liðinnar aldar þar sem gætt er fullkomins samræmis í stíl og hönnun ytra sem innra, milli stórra sem smæstu eininga og einstakra hluta. Hún er samþætt heildarlistaverk þar sem hver hannaður kimi, stallur eða sylla er hluti af órjúfanlegri samofinni heild, enda sögð og skrásett sem alfriðuð, þótt sú vernd virðist eigendum ekki íþyngjandi. Við byggingu nýrrar útilaugar voru gerðar breytingar í inngangs- og afgreiðslurými hallarinnar sem breyttu útliti og andrými hússins, sem mörgum þótti miður og að mestu óþarfar. Aðrar lausnir voru í boði. Fyrrnefndar breytingar snertu þó ekki kjarnann, sjálft laugarhúsið.

Nú skal reitt að nýju til höggs. Breyta skal laugarbökkunum og endurgera í samræmi við nútímakröfur, eyðileggja laugarbakkana sem eru órjúfanlegur hluti af heildinni og endurhanna þá eftir kröfum um nútímasundlaugar.

Engin knýjandi þörf er á þessari breytingu enda ekki gerð með þarfir sundgesta að leiðarljósi heldur samkvæmt óskilgreindum nútímakröfum. Gangi þetta fram verður þessu einstæða listaverki Guðjóns Samúelssonar spillt varanlega, til frambúðar. Óþarfi að minna á þá sóun almannafjár sem fylgir. Sundhöllin þarfnast vissulega viðgerða. Látið þar við sitja. Notið peningana í þarfari hluti.

Ágætu borgarstjórar, þótt búið sé að prímsigna þetta skemmdarverk í stofnunum borgarinnar, þá er enn ekki of seint að hverfa frá verknaðinum.

Látið þessar breytingar daga uppi og ónýtast. Gerið þetta fyrir borgarbúa í virðingarskyni við einstakt listaverk á reykvískri grund.

Þröstur Ólafsson, Holberg Másson, Hjörleifur Stefánsson, Helgi Hjálmarsson, Leifur Breiðfjörð, Helgi Gíslason, Magnús Gunnarsson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Sigurður Gísli Pálmason, Lárus Halldórsson og fjölmargir aðrir velunnarar og gestir Sundhallarinnar.