Alma Eir Svavarsdóttir fæddist 11. ágúst 1963. Hún lést 15. mars 2024.

Útför Ölmu fór fram 5. apríl 2024.

Á kveðjustundu streyma minningarnar fram. Þær vekja hjá okkur hlýju, hlátur og söknuð. Það er ekki einfalt að skrifa minningargrein um svo stórbrotna konu eins og Ölmu. Alma var vinnufélagi okkar og yfirmaður þar til hún veiktist. Hún hætti aldrei í vinnunni og þrátt fyrir að hún væri komin í meðferð fylgdist hún vel með öllu og öllum. Hugur hennar var oft hjá okkur og hugur okkar hjá henni.

Það geislaði af henni gleðin, hún var jákvæð og hugmyndarík. Aldrei var lognmolla í kringum hana. Við minnumst hláturs hennar, hlýju og óþrjótandi umhyggju fyrir öðrum. Það eru ótal minningar en gaman er að nefna föstudagskaffið sem var henni mjög mikilvægt, það mátti enginn missa af því. Þegar hún sá um föstudagskaffið var ekki létt að vera næstur, því hún var með svo mikið í boði, eins og um fermingarveislu væri að ræða.

Fyrir henni var hagur okkar og líðan mikilvæg; fólksins hennar, hvort sem það var fjölskyldan, samstarfsfólkið eða skjólstæðingarnir, allir skiptu hana máli. Fjölskyldan var það dýrmætasta sem hún átti. Hún fékk tækifæri til að eignast ömmustráka sem gladdi hana mjög.

Viku fyrir andlátið hringdi hún í Efstaleitið til að koma til okkar kveðju. Hún vildi láta okkur vita að hún hugsaði alltaf til okkar og henni þætti svo vænt um okkur og stöðina. Þetta var Alma í hnotskurn. Við starfsfólk heilsugæslunnar Efstaleiti viljum þakka Ölmu fyrir samfylgdina innan sem utan vinnu. Við sendum Guðjóni, Magnúsi, Svavari og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Ölmu verður sárt saknað og minnumst við hennar með mikilli hlýju.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

(Bubbi Morthens)

F.h. starfsfólks heilsugæslunnar Efstaleiti,

Sigríður Davíðsdóttir.