Andrés Kristinsson fæddist 17. mars 1939. Hann lést 15. mars 2024. Útför Andrésar fór fram 27. mars 2024.

Elsku afi.

Þegar komið er að því að kveðja þig með orðum, þá verð ég hálforðlaus. Því hvar á ég að byrja. Að eiga sambandið sem við áttum, dótturdóttir og afi, er mjög einstakt.

Við tvö vorum bestu vinir og gátum grínað svo mikið saman og gert grín hvort að öðru.

Ætli þú hafir ekki kennt mér að hafa húmor fyrir sjálfri mér, sem er mjög dýrmætt að geta gert.

Að fá að sitja í stofunni hjá þér og drekka kaffibolla saman og fara yfir málin. Hvort sem það voru gamlir tímar, þú að segja mér frá ævintýrum þínum í þá daga, eða fara yfir daginn í dag, sem var ansi ólíkur hjá mér og þér.

Þú elsku besti vinur orðinn áttræður og allt gekk sinn vanagang, en ég oftar en ekki á hlaupum, með þrjú ung börn. En við mættumst alltaf í samtali og fyrir það er ég afar þakklát. Við skildum hvort annað svo vel.

Bæði frekar kaldhæðin og gátum gert grín að lífinu saman.

Takk fyrir að nenna alltaf með mér með börnin öll á pítsudeit, taka á móti okkur með borgara eða ís. Þú varst alltaf til og alltaf jafn glaður að sjá okkur.

Takk fyrir að nenna með mér og þá tveimur ungum börnum mínum í sólarfríið okkar góða. Það reyndust vera margar af okkar dýrmætustu stundum.

Sitja saman á svölunum í kvöldsólinni og fara yfir málin. Kannski einn, kannski tveir kaldir með.

Takk fyrir að sýna mér gönguleiðina þína í Fossvoginum. Sýna mér bekkina sem þú tylltir þér á til að njóta veðursins og hlusta á fuglana.

Þú barst mikla virðingu fyrir náttúrunni. Rósirnar þínar þær fallegustu og trén mátti varla snerta. Elsku afi, þú kunnir að njóta lífsins. Ferðalög þín voru mörg og mun ég halda áfram að taka þig til fyrirmyndar.

Ferðast og skoða heiminn.

Þú vissir oft hvert ég var að fljúga í vinnunni og þótti mér svo vænt um það.

Ég mun sakna þín mjög elsku gamli minn en mikið rosalega er ég þakklát fyrir allt okkar.

Þangað til við hittumst aftur mun ég alltaf minnast þín og fallega brossins þíns og smitandi hlátursins með gríni, súkkulaði og dansi.

Við lofuðum hvort öðru að hugsa hvort til annars þegar við hlustum á fuglana syngja og þegar skærustu stjörnur heims skína. Það gerum við.

Takk fyrir allt og allt, elsku besti vinur.

„Love you always!“

Þín afastelpa,

Aðalheiður
(Heiða).