Guðmundur Bachmann fæddist 12. júní 1942 í Borgarnesi. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 12. mars 2024.

Foreldrar Guðmundar voru Geir Guðjónsson Bachmann bifreiðaeftirlitsmaður í Borgarnesi, f. 23. september 1908, d. 27. desember 1987, og Jórunn Guðmundsdóttir Bachmann kaupmaður, f. 6. september 1913, d. 18. ágúst 1998.

Systkini Guðmundar eru: Þóra Guðrún, f. 22. mars 1933, d. 10. febrúar 1934. Sigríður, f. 1. september 1934, og Haukur Guðjón, f. 16. apríl 1940.

Guðmundur giftist Gerðu Arnleif Sigursteinsdóttur ljósmóður, f. 21. júlí 1944, d. 18. mars 1999, og bjuggu þau í Borgarnesi til dánardags. Börn Gerðu og Guðmundar eru: 1) Geir Bachmann, f. 23. mars 1973, maki Carmen Mihael Pal. 2) Sigurður Örn Bachmann, f. 18. febrúar 1977, búsettur á Miami í Flórída, maki Leah Solomon. Sonur þeirra er Sævar Etienne Bachmann, f. 22. desember 2010. 3) Unnar Þór Bachmann, f. 4. mars 1980, maki Rósa Hauksdóttir. Dóttir þeirra er Gerða Arnleif Bachmann, f. 19. júní 2021. Guðmundur kynntist síðar Guðbjörgu Dagmar Sigmundsdóttur, f. 17. júlí 1945, d. 16. júní 2012, og átti við hana samband um 10 ára skeið.

Guðmundur Bachmann fæddist og bjó nær alla ævi í Borgarnesi. Hann lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1964 og rafmagnsiðnfræði 1970-1971 frá Tækniskóla Íslands. Guðmundur vann ýmis störf tengd rafvirkjun og rafmagni hjá Rafbliki, Rafveitu Borgarness og víðar. Árið 1973 hóf hann störf hjá Rafmagnsveitum ríkisins (Rarik) og vann þar allan sinn starfsferil, aðallega við rafmagnseftirlit. Guðmundur var á yngri árum liðtækur í íþróttum og keppti í frjálsum íþróttum og knattspyrnu fyrir Skallagrím. Hann tók þátt í starfi björgunarsveitarinnar og fór sem slíkur til Vestmannaeyja 1973 vegna eldgossins í Heimaey. Guðmundur var mikið náttúrubarn og stundaði hestamennsku auk skot- og stangveiði en færði sig yfir í golf síðustu árin. Þá tók hann þátt í ýmsum félagsstörfum og var í Oddfellowreglunni um áratugaskeið til dánardags.

Útför Guðmundar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 22. apríl 2024, klukkan 15.

Í dag kveðjum við Guðmund Bachmann sem reyndist móður okkar og tengdamóður góður félagi. Þau studdu hvort við annað, hann ekkill sem bjó einn, því synirnir voru fluttir að heiman, hún fráskilin og nýfarin að búa ein í miðbænum. Eftir að þau kynntust skiptust þau á að fara í helgarferðir í Borgarnes eða til borgarinnar. Þau fundu hvort í öðru ferðafélaga og fóru víða saman bæði innanlands og utan. Guðmundur kynnti mömmu golf sem hún hafði gaman af og saman fóru þau margan golfhringinn á Hamarsvelli og víða um landið. Þau skemmtu sér saman, hann var alltaf til í að dansa við hana. Guðmundur reyndist okkur og börnunum okkar vel. Þegar mamma veiktist reyndist hann henni stoð og stytta. Hann þreyttist ekki á því að dást að henni, sem gladdi okkur. Það er hlý minning þegar við fjölskyldan og fjölskylda Guðmundar fögnuðum með þeim sjötugsafmæli hans í setustofunni á líknardeildinni því þar var hún á þessum tímamótum í lífi hans. Við þökkum góð kynni og vottum fjölskyldu Guðmundar innilega samúð.

Bergur og Adeline, Hildur og Guðrún Jarþrúður, Snorri og Telma Rós.

Nú er Guðmundur okkar Bachmann, vinur og félagi, fallinn frá og okkur hjónin langar að senda ofurlitla kveðju. Hann var samstarfsmaður minn frá 1995 í Rarik, hann eftirlitsmaður og ég nýlega keyptur verkstjóri frá Rafveitu Borgarness. Skemmst er að segja frá því að okkar samstarf var alla tíð mjög gott. Guðmundur var mjög vandvirkur og nákvæmur í öllum sínum störfum, traustur og ágætur félagi.

Svo var alveg nýr Guðmundur sem birtist okkur hjónum í mörgum skemmtilegum Rarik-ferðum til útlanda. Þá var hún Gerða hans með og ekki spillti það nú samkvæminu. Hún var hæglát kona og lét ekki fara mikið fyrir sér, ljúf og vel látin af öllum. Við fórum oft fjögur saman út að borða, sem var mjög skemmtilegt. Guðmundur lék við hvern sinn fingur og hafði alltaf sérlega góða matarlyst. Því deildi hún Anna alltaf með honum svo Gerðu ofbauð og kættist mikið yfir þessari græðgi.

Guðmundur varð fyrir þeirri miklu sorg að missa sína elskuðu eiginkonu á besta aldri. Gerða var ljósmóðir við Heilsugæsluna í Borgarnesi og lést í hræðilegu slysi við ungbarnaeftirlit hér vestur á Mýrum.

Seinna áttum við eftir að ferðast með honum Guðmundi og kærri vinkonu hans Guðbjörgu og náðum vel saman.

Alveg nýr kafli tók við eftir starfslok okkar þegar við, ég, Anna og Guðmundur, fengum áhuga á því að spila golf og síðar enn meira að pútta með félögum í góðum hópi sem enn er á fullu í starfi og eitt fjölmennasta tómstundafélag í Borgarnesi. Þarna hittumst við í áravís tvisvar í viku allan ársins hring. Hópurinn stækkaði frá því að hann byrjaði í Eyjunni okkar líklega 10 manns og telur nú vel yfir þrjá tugi. Þarna naut hann sín vel og meðfæddur agi og nákvæmni fleytti honum vel áfram í leiknum.

Guðmundur stríddi mörg síðustu árin við bölvaðan sjúkdóm, sem að lokum hafði sigur.

Við vottum ykkur Geiri, Siggi og Unnar innilega samúð okkar og þökkum Guðmundi Bachmann fyrir samfylgdina.

Anna og Björn (Bubbi).

Ég hrökk við þegar ég frétti af andláti Guðmundar Bachmanns árla morguns 12. mars. Nokkrum dögum áður hafði ég talað við hann og þótt hann væri sjúkur benti ekkert til þess að líf hans meðal okkar væri brátt á enda. En í dag verður hann til moldar borinn. Ég kynntist honum ekkert að ráði fyrr en hann hóf að stunda pútt með eldri borgum í Borgarnesi. Hann náði fljótt tökum á þeirri íþrótt enda íþróttamaður á yngri árum.

Hann var kappsfullur og náði fljótt góðum árangri. Það góðum að ég sagði stundum við hann í gamni: „Ertu að stefna að því að við þurfum að reisa af þér styttu?“ Hann var oftast í fremstu röð í okkar hópi og keppti með okkur vítt um land. En veikindi sem hann var búinn að berjast við í mörg ár gripu í taumana. Hann lék síðast með okkur um miðjan desember 2023. Eftir að veikindi hans ágerðust hafði ég samband við hann reglulega og okkur varð vel til vina. Oft fór ég til hans þegar liðið okkar Man. Utd var að leika í ensku deildinni og við horfðum saman á leikina. Þótt oft hefði mátt ganga betur. Ég kveð þennan góða félaga með þakklæti fyrir ánægjuleg kynni. Fjölskyldu hans sendum við hjónin innilegar samúðarkveðjur.

Ingimundur
Ingimundarson.