Kristín Sigríður Magnúsdóttir fæddist 26. september 1929. Hún lést 14. febrúar 2024.

Útför Kristínar fór fram 13. mars 2024.

Það er erfitt að horfast í augu við að amma sé farin. Hún hefur alltaf leikið stórt hlutverk í mínu lífi. Það vita þeir sem þekkja mig að ég leit upp til ömmu og fannst hún ein merkilegasta manneskja sem ég hef kynnst. Mér finnst ég heppin að hafa fengið að njóta samveru við hana í svona langan tíma eða allt fram á hennar 95. aldursár.

Þær eru óteljandi minningarnar sem koma í hugann þegar ég hugsa um ömmu. Allar sögurnar sem hún sagði af lífinu í Botni, frá því hún var ung og fór á sveitaball, hvað hún var mikil pabbastelpa, hvað henni fannst gaman að stríða ömmu sinni o.s.frv.

Ég minnist þess þegar við Veronika vorum litlar og hvað það var ævintýralegt að vera í pössun hjá ömmu. Við bökuðum pönnukökur, fórum í göngutúra í fjörunni og borðuðum dýrindis mat sem hún eldaði. Mér hlýnar um hjartarætur að hugsa um stundirnar sem við áttum á Öldugrandanum, þar sem við sátum oft við eldhúsborðið að teikna. Það leikur enginn vafi á því að það er stór ástæða fyrir því að ég fór í Myndlistaskólann og stundaði list í einhverjum mæli. Ég minnist þess fyrir nokkrum árum þegar hún hvatti mig til dáða að fara í módelteikningu í Myndlistaskólanum – út frá því spruttu upp skemmtileg samtöl tengd listinni og þar lærði ég ýmislegt af henni.

Fyrir nokkrum árum heimsótti ég æskuslóðir ömmu, Langa-Botn í Geirþjófsfirði. Til að fara niður að bænum þarf að ganga niður bratt fjall, því engir vegir liggja niður í dalinn. Þegar ég villtist hringdi ég í hana, og hún svaraði um hæl af elliheimilinu.

Ég lýsti umhverfinu og hún vissi strax hvar ég væri og hvert ég ætti að fara: „Ef þú ferð fram hjá stóra steininum þér á hægri hönd ferðu réttu leiðina, ekki fara til vinstri“ eða eitthvað svoleiðis. Hún þekkti svæðið eins og lófann á sér, jafnvel eftir öll þessi ár.

Elsku amma mín, mér þykir svo vænt um þig. Þú auðgaðir líf mitt og allra í kringum þig. Ég veit að það hafa verið fagnaðarfundir hjá þér og þínu fólki eftir að þú kvaddir okkur hin.

Hvíl í friði amma mín.

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum

lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

(23. Davíðssálmur)

Þitt elskandi barnabarn,

Kristín Viktoría Magnúsdóttir.